þriðjudagur, 30. desember 2008
Árið gert upp
Þetta var árið sem 20 til 30 manns settu þjóðfélagið á hausinn. Allt það ömurlegasta við íslenskt samfélag hefur skotið upp kollinum á undanförnum mánuðum, nú er það flest orðið sýnilegt sem margan grunaði áður. Gjörspillt flokksræði og kunningjapólitík í bland við siðblindu, græðgi og hroka viðskiptalífsins. Ónýt stjórnvöld og lamaðar eftirlitsstofnanir, gagnslaust og niðurlægt Alþingi. Árið sem ég missti trúna á stjórnmálaflokkunum.
Samt stend ég fastar á því en fótunum að hér á landi býr upp til hópa gott fólk, vinnusamt, fólk með gott hjartalag, skapandi fólk og listrænt, dálítið óheflað og villt að vísu og við erum hreint ofboðslegir plebbar oft á tíðum, en góðir plebbar samt, og ágætlega gefnir þrátt fyrir heimskulega hegðun. En bernsk er þjóðin, það hefur hún sýnt og sannað svo margoft og illa siðmenntuð yfirhöfuð, enda stutt síðan fólk almennt var grálúsugt með hor í nös og bjó á tvist og bast útum allar sveitir, afdali og heiðar í hrörlegum og saggafullum torfbæjum. Venjulegar framfarir urðu ekki hér eins og víðast hvar annars staðar, við urðum bara allt í einu rík og var kippt inn í einhvern nútíma og hlupum yfir menningarskeið sem vörðu í aldir annars staðar. borgir og hellulögð stræti og torg. Sporvagnar og járnbrautir 19. aldar. Við hins vegar vorum bara á hestbaki alveg þangað til bíllinn kom sem síðan hefur átt hug okkar allan.
Nóg um það. Nú koma niðurstöður mínar:
Klúður ársins: Ríkisstjórnin, Davíð og Jónas FR.
Sjónvarpsþáttur ársins: Kastljós með Davíð og sjónvarpsávarp Geirs til þjóðarinnar 6. okt.
Hrollur ársins: "Guð blessi íslenska þjóð". Þarna varð ég hræddur, þetta minnti mig óþyrmilega á leiðtoga í ríkjum þar sem trúarofstæki og pólitík blandast saman sbr. í Bandaríkjunum, Íran og víðar.
Kjánahrollur ársins: Heimkoma silfurdrengjanna
Afrek ársins: Silfrið og kvennalandsliðið í fótbolta
Vonbrigði ársins: Samfylkingin, fyrir að vera sú drusla að fylgja ekki eftir innantómum hótunum um að víkja beri seðlabankastjórn og að láta Sjálfstæðisflokkinn stela af sér frumkvæði í ESB-málunum. Ekkert mun heldur breytast hér, sama liðið heldur áfram að véla um öll okkar ráð hér eftir sem hingað til
Skúrkar ársins: Allt heila helv. draslið; Seðlabankinn, Sjálfstæðisflokkurinn, ríkisstjórnin, Fjármálaeftirlitið, bankarnir og viðskiptadúddarnir
Hneyksli ársins: Að Davíð hefur enn ekki verið rekinn. Jónas Fr. hefur enn ekki verið rekinn, ríkisstjórnin situr enn, að enginn þykist bera ábyrgð, Hannes Hólmsteinn Gissurarson gengur ennþá laus
Græðgi ársins: Viðskiptadúddarnir og bankastjórarnir, árangurstengdu launin, svikamyllurnar við fyrirtækjakaup, kaupréttarsamningarnir osfrv.
Spámenn ársins, bæði í sínu föðurlandi og annars staðar: Þorvaldur Gylfason sem ítrekað benti á hvert við værum að sigla með þessa skrípamynd af kapítalisma allt þetta ár og það síðasta líka í fjölmörgum greinum í Fréttablaðinu. Danski blaðamaðurinn hjá Ekstrablaðinu sem hakkaði útrásarvíkingana í sig og sagði þá tóma djöfulsins svindlara sem þeir reyndust svo vera
Undrun ársins: Ekki enn búið að reka Davíð og Jónas Fr. og fleiri og Hannes Hólmsteinn gengur ennþá laus.
Hroki ársins: Davíð Oddsson, ræðan á fundi Verslunarráðsins
Fylgisspekt ársins: Fylgisspekt Geirs við Davíð snýst ekki um pólitík, heldur er dulsálfræðileg stúdía
Staurblinda og afneitun ársins: Geir og Davíð
Taktleysi ársins: Stulli brjál og trukkaramótmælin. Athyglissjúkur vörubílstjóri og kollegar hans reyndust aðeins vera að mótmæla því að fá ekki að keyra stanslaust og hvíldarlasut um þjóðvegi landsins á annað hundrað kólómetra hraða á klukkustund, já engar helv. ESB-reglur hér!! Og líka þegar þessir hálfvitar mættu á þingpalla til að baula, en þá óvart voru Alþingismenn að samþykkja að auka þróunaraðstoð við fátækan heim.
Nöldrari ársins: Ég
Kommentari ársins í hesthúsinu: Stína
Ég er samt ekki sú rót að ég óski ekki landsmönnum öllum árs og friðar og það geri ég af hjartans einlægni, líka þeim Davíð, Hannesar jafna og Hannesi Hólmsteini og öllum hinum. Guð blessi ykkur!
mánudagur, 29. desember 2008
Pólitísk stórtíðindi í vændum
En að öðru. Pólitískra stórtíðinda er að vænta hvað úr hverju. Guðrún, húsfreyjan hér í Snægili og spúsa mín elskuleg, dreymdi nefnilega draum sl. nótt. Guðrúnu þótti sem hún hefði verið á pólitískum fundi þar sem tilkynnt var um að stjórnin hefði sprungið og ný væri í burðarliðnum með Samfó, Vg og framsókn. Þetta er merkilegt því mín kona fylgist ekki svo gjörla með pólitík og hún er berdreymin eins og svo margir í hennar ætt. Þannig að nú bíður maður eftir tíðindunum, enda má treysta þessu tel ég.
miðvikudagur, 24. desember 2008
Gleðileg jól
sunnudagur, 21. desember 2008
Guðs kristni í Snægili
Í Akureyrarkirkju mætti okkur mikill fjöldi fólks og börn í áberandi meirihluta. Hva, voða aðsókn er þetta? Heyrðu, er þetta ekki Valur frændi þarna prúðbúinn á kirkjkubekk með sálmabók í hönd? Jú, ekki bar á öðru og Hafdís með honum. Detti mér nú allar dauðar lýs úr höfði! Auðvitað var eðlileg skýring á þessu. Snædís Ylva var þarna með kór Lundarskóla sem söng engilblítt og svo fór nú gamanið að kárna. Séra Sólveig Halla leiddi þessa samkomu og hún var ekki einu sinni í búning (hempu) og þá fór mér að skiljast hvar ég var lentur. Æi nei, hún ætlar að taka "Ég vil líkjast Daníel og ég vil líkjast Rut" með viðeigandi fíflagangi. Karlmenn standa upp og vilja líkjast Daníel af því að hann er fylltur hetjumóð og svo sest maður niður og kvenfólk stendur upp því það vill líkjast Rut af því að hún er svo sæt og góð (hugguleg sýn á kynhlutverkin eða hitt þó!) Svona gekk þetta í drjúga stund, upp og niður og mér leið asnalega, er hreint ekki fyrir svona fyrirgang. Helena hló að mér því hún sá hvernig mér leið. En ég gat nú hlegið að henni líka loks þegar þessari samkomu var lokið. Hún spurði mig nefnilega hvers vegna Valur hefði verið þarna. Hafði einhvern tímann frétt af því að hann væri ekki í Þjóðkirkjunni og jafnvel ekki kristinn heldur. Nei, nei, hann er það ekki segi ég. Hún: "Bíddu, er hann þá gyðingur"?
Ekki veit ég hvað Valur segir um þetta, en hann er örugglega ekki gyðingur og verður það aldrei, en gyðingatrúar gæti hann verið eða orðið en tel það afar ósennilegt. Það er gaman að þessu, hún segir alltaf eitthvað á hverjum degi sem kætir mig. Um daginn var hún að rifja upp nafnið á hljómsveitinni Hvanndalsbræður og mundi það ekki. "Æi, hvað heita þeir nú aftur, jú þarna, eh, Betlehemsbræður já"!
föstudagur, 19. desember 2008
Ungu anarkistarnir
Mér líður eins og ég sé staddur í súrrealískri mynd eftir Fellini, ástandið er óraunverulegt og fáránlegt. Til dæmis það að enginn, ekki nokkur einasti maður, hefur séð hina minnstu ástæðu til að segja af sér. Reikningurinn vegna Ice-save málsins og skyldra mála hefur verið sendur þjóðinni og hann er á annað þúsund milljarða! Hér er stofnun sem heitir Fjármálaeftirlitið og yfir henni er einn af flokkshundum Sjálfstæðisflokksins, Jónas Fr. Jónsson. Ætli honum finnist ekki vont að vera yfir stofnun sem heitir svo gegnsæju nafni? Eftirlit með hverjum andskotanum?
miðvikudagur, 17. desember 2008
Skókastið
föstudagur, 12. desember 2008
Saga úr fermingarfræðslunni
Síra Arnaldi féllust hendur skilst mér, en var held ég ekkert að erfa þetta við hana enda eru þau, væntanlegt fermingarbarn og klerkurinn Arnaldur, búin að uppgötva eitt sem þau eiga sameiginlegt, en það er aðdáun á hljómsveitinni Genesis. Þannig að Helena er hólpin
miðvikudagur, 10. desember 2008
Amen
Allra síðasta orð Biblíunnar, í Opinberunarbókinni í Nýja testamentinu, er einmitt Amen.
laugardagur, 6. desember 2008
Súpa, sápa og hjálpræði
Viktoríutímabilið. Tímabil hins tvöfalda siðgæðis. Æskilegt var að karlmenn hefðu einhverja reynslu af kynlífi áður en þeir kvæntust. Konur máttu ekki sjást einar á götu nema þær væru ekkjur og það mátti aldrei sjást í bert hold nema svona rétt í andlitið. Þær voru reyrðar í lífstykki og með hneppt upp í háls og það mátti ekki einu sinni sjást í úlnliðina. Þær urðu líka að vera hreinar meyjar þegar þær giftust. Aðeins ein lausn var á þessari mótsögn. Vændi. Það var óhemju útbreitt á þessum tíma og eina von margra kvenna og ungra stúlkna til að lifa af. Fátækrahverfin voru yfirfull af fólki, saur og þvag rann eftir þröngum götunum, þefurinn sjálfsagt óbærilegur. Glæpir og þjófnaðir áberandi, sjúkdómar grasseruðu og meðalaldur var lágur í þessum hluta borgarinnar. Vannærð börn ráfuðu um í leit að mat. Menn deyfðu sig með því að þamba ódýran bjór, börn sem fullorðnir.
Það var í þessum hluta borgarinnar ríku sem hjónin Catherine og William Booth fóru að vinna hjálparstarf sitt sem að lokum leiddi til The Salvation Army eða Hjálpræðishersins. Þau vildu breiða út fagnaðrerindið en voru nógu víðsýn til að átta sig á því að ekki þýddi að boða orð Drottins fólki á fastandi maga. Svangur maður þarf ekki helst á guðsorði að halda, hann þarf að fá að borða. Maður sem hefur gert þarfir sínar í buxurnar vegna vesældar sinnar þarf ekki fyrst á guðsorði að halda. Hann þarf fyrst að fara í bað svo hann öðlist sjálfsvirðingu sína aftur. Þegar grunnþörfunum hefur verið fullnægt má ræða um guðsorðið. súpa, sápa og hjálpræði - í þessari röð. Allar götur síðan hefur þessi þarfa hreyfing starfað í þessum anda.
Herinn lætur sér annt um þá sem allra helst höllustum fæti standa í samfélaginu, hér sem annars staðar þar sem hann starfar. Samt hefur þessi hreyfing orðið fyrir aðkasti og háði af mörgum í gegnum tíðina, þar á meðal mér. Nægir að nefna Halldór Laxness og Stein Steinarr svo maður nefni einhverja fræga í því sambandi. Mærðarlegur söngurinn og gítargutlið, kannski ofstæki í sumum hermönnum á fyrri tíð. Búningarnir fóru einhvern tímann í taugarnar á mér og þessi hermennskuandi sem mér fannst fráhrindandi. Heiti hreyfingarinnar, búningarnir og sú staðreynd að safnaðarmeðlimir kalli sig hermenn og leiðtogar kafteina á ekkert skylt við hernað í venjulegri merkingu þess orðs. Hernaður hefur yfirleitt eða alltaf það markmið að ríki vill auka völd sín og áhrif og það kostar dráp á mönnum. Hroki, græðgi, valdasýki og hatur eru því undirliggjandi í þeim stríðum. Trú er sjaldan ástæða fyrir stríðum en hún er notuð sem bensín og skálkaskjól fyrir önnur og veraldlegri markmið og hentar oft vel til slíks.
Meðlimir Hjálpræðishersins vilja berjast við hið illa í heiminum og kjósa að líta á sig sem hermenn í þeirri baráttu. Hið illa er ekki einhver skratti með klaufir og horn og þrífork í hendi með brennisteinsfnykinn í kringum sig, heldur er það misskiptingin í heiminum, fátæktin og sjúkdómarnir og græðgin og yfirleitt allt það sem stuðlar að félagslegu óréttlæti. Þess vegna ber ég mikla virðingu fyrir hernum og starfi hans.
fimmtudagur, 4. desember 2008
Derby County FC
Já, Hrútarnir (gælunafn Derby) eða The Rams, eru kannski ekki bestir, en þeir eru mestir og þeirra tími fer senn að koma.
mánudagur, 1. desember 2008
Éttann sjálfur!
En Steingrímur má vel við una og flokkur hans. Ég held að þetta sé nú fyrst og fremst óánægjufylgi sem er að sópast að Vg, ekki að menn séu svo mikið hrifnir af þeim flokki, heldur fyrst og fremst hundóánægðir með stjórnarflokkana.
Það lá við að ég léti skrá mig í Vg hérna um árið þegar Steingrímur kallaði Davíð "druslu og gungu", og ekki minnkaði hrifning mín á honum um daginn þegar hann gekk ógnandi að Birni Bjarna sem var eitthvað að gjamma í ræðustól og var heldur ógnandi í framkomu svo að Birni fipaðist heldur betur og bjóst við að fá á lúðurinn. Þá hló ég, Björn svona skíthræddur í ræðustól og tafsaði bara eitthvað með sköllótta brjálæðinginn frá Þistilfirði beint fyrir framan sig. Bara að hann hefði látið það eftir sér og barið hrokann ofan í dómsmálaráðherrann í staðinn fyrir að ýta við Haarde.
En, það verður fróðlegt að fylgjast með fylgi flokkanna á næstunni, þeir eru flestir að snúast á sveif með Samfylkingu í Evrópumálunum, jafnvel Vg líka. (Ögmundur nú síðast ásamt um og yfir 50% af stuðningsfólki flokksins samkvæmt nýlegri skoðanakönnun) Þó ekki Steingrímur sem ennþá lemur skallanum við stein og vill ekki, ekki frekar en Davíð og Geir, einu sinni kanna möguleika okkar í samstarfi 27 Evrópuþjóða sem flestar, ef ekki allar, sjá hag sínum betur borgið innan sambandsins en að standa utan þess. Það er ótrúleg þrjóska og í raun ófyrirleitin skammsýni að hafna því fyrirfram að okkur muni vegna betur með aðild að Evrópusambandinu. Við vitum ekki hvaða kostir bjóðast okkur fyrr en að loknum aðildarviðræðum, hvað tillit verður tekið til séraðstæðna okkar osfrv. Allar umræður um kosti og galla verða marklausar í raun þangað til menn láta af þessu trúaratriði, að vilja ekki ræða þessi mál.
föstudagur, 28. nóvember 2008
Hannesar jafni
Þjóðskörungur
leiddi þjóð sína
ódeigur
inn í árþúsund
nýrra vona,
nýrra hugsjóna.
Heill sé þér Davíð
Hannesar jafni
Afsakiði meðan ég æli! Syni sólarinnar má helst líkja við Hannes Hafstein, þann þjóðmæring sem fyrstur varð ráðherra Íslands, skáld og glæsimenni. Það er vel við hæfi, enda stendur Davíð í þeirri trú að hann sjálfur sé Hannes Hafstein endurborinn.
miðvikudagur, 19. nóvember 2008
Farðu!
Svo gjörsamlega rúinn trausti inanlands sem utan stendur hann keikur og rífur kjaft. Í samræmi við karakter sinn og skítlegt eðli náði hann þó að læða að einum brandara sem fékk jakkafötin til að hlæja út í sal. Er hægt að ímynda sér smekklausara athæfi við þessar aðstæður? Nei, varla. Hann skildi ekki vitjunartíma sinn síðustu árin sem forsætisráðherra og hann botnar heldur ekkert í honum núna, enda lítil von til þess þegar menn ganga bókstaflega fyrir illgirni, valdasýki og hroka sem á sér ekki hliðstæðu í íslensku samfélagi
laugardagur, 15. nóvember 2008
Gospelsystur í stuði - með guði
Hún er í Gospelkór Akureyrar og syngur þar Gussa til dýrðar og dillar sér með Gospelsystrum sínum sem sjást hér á myndinni. Blucher er kát að sjá og sést þarna fremst til hægri. Best að nota tækifærið og auglýsa tónleika með kórnum á sunnudaginn eftir viku í Akureyrarkirkju. Ég neyðist held ég til að mæta og tek bara þátt í fjörinu, dilla mér og klappa í takt við tónlistina eins og vitfirringur. Reyni bara að standa þetta af mér, sýna æðruleysi.
Svo er hún farin að stunda bingó af sjúklegum áhuga. Ef hún er ekki með gospelsystrum, þá er hún annað hvort á bingókvöldi eða að föndra með skjólstæðingum sínum í Víðilundi. Mér skilst að ekki megi á milli sjá hvort henni eða gamlingunum finnist það skemmtilegra, að mála á kerti, eða búa til jólakort, vera í bútasaumi, útsaumi og allra handanna bróderingum, keramiki og postulíni og ég veit ekki hvað. Hún er farin að taka pláss frá gamla fólkinu í föndrinu.
Þetta hefur verið að ágerast síðustu árin. Ég setti spurningamerki við það þegar hún fór á þjóðbúninganámskeiðið um árið. Hún saumaði sér upphlut og er farin að ganga í honum á sunnudögum og heimtar að ég komi með sér í kirkju þannig klædd. Upphlutur virkar á mig svona svipað og tanngarður í vatnsglasi, en auðvitað er þetta bara mitt vandamál. Svona er maður orðinn skemmdur af nútímanum og illa úrkynjaður. Ha, nei, ég hef engar áhyggjur af þessum pistli, Frau Blucher les ekki bloggið mitt (sem betur fer!)
laugardagur, 8. nóvember 2008
Byggðavegur
Í einni tiltektinni um daginn rakst ég á gömlu skautahúfuna mína sem mútta prjónaði á mig og ég hef ekki séð síðan í æsku. Hún er eins og ný og sér ekki á henni. Það þurfti heldur ekkert að pipra hana eins og vettlingana mína, en þá nagaði ég gjarnan í tætlur og mamma hafði ekki við að staga í þá og fann því upp á þessu snjallræði. Ég loga allur í kjaftinum bara við að rifja þessa sögu upp! En húfuna ætla ég að varðveita og setja upp, en mjög spari þó.
miðvikudagur, 5. nóvember 2008
Oooooovænt!
Birgir Ármannsson er stoltur hægri maður með þverslaufu til skamms tíma. Um síðir benti einhver honum á að það væri hallærislegt. Hann lætur hvert þjóðþrifamálið til sína taka og er ákaflega líflegur þingmaður og meira að segja formaður Allsherjarnefndar. Birgi er frekar illa við, eins og eðlilegt má teljast, að stjórnmálaflokkar opni bókhald sitt og gefi upp hverjir það eru sem ausa peningum í þá, enda kemur það pöpulnum ekki rassgat við. Hann vill að sjálfsögðu ekki erlenda rannsóknarnefnd til að fara ofan í saumana á gerspilltu fjármálakerfi okkar mörlanda og á kosningavöku bandaríska sendiráðsins á Grand hóteli í gær kaus hann Macain. Oooooóvænt!!!
sunnudagur, 2. nóvember 2008
Kosningar í vor
Seðlabankinn er í tilvistarkreppu sem aldrei fyrr og er í raun einskis nýtur. Við erum reyndar ekki lengur sjálfstæð þjóð. Ríkisstjórnin og Gjaldeyrissjóðurinn ætla að leggja drápsklyfjar á þjóðina sem munu skerða lífskjör okkar mikið næstu ár og kannski áratugi. Hér verður meira atvinnuleysi en við höfum nokkru sinni kynnst áður (að kreppuárunum meðtöldum), þjóðartekjurnar dragast mikið saman, kaupmáttur rýrnar um 10 til 20% og verðbólgan fer í 30% segja hagfræðingar áður en vetur er úti.
Það er búið að taka völdin af okkur í efnahgaslífinu, við höfum ekki stjórn á þeim næstu árin, heldur áðurnefndur sjóður og nú er þegar búið að koma í framkvæmd einum af hvað, 19 liðum sem ríkisstjórninni er ætlað að fara eftir næstu misserin og árin, en það er hækkun stýrivaxtanna sem fróðir segja að muni keyra enn fleiri fyrirtæki í þrot og auka skuldir heimilanna ómælt. Ekki er á það bætandi, við erum nú þegar skuldugasta þjóð í heimi, hugsið ykkur! Stjórnvöld og tiltölulega fáir fjárglæframenn komu okkur út í þetta.
Þing hefur sannarlega verið rofið af minna tilefni en það sem nú blasir við okkur. Það væri fáránleg skrípamynd af lýðræðinu ef þjóðin fengi ekki að segja sitt álit á þessum málum öllum með kosningum í allra síðasta lagi í vor.
sunnudagur, 26. október 2008
Frjálshyggjan
Og hingað heim eins og fréttamennirnir segja. Sjálfstæðisflokkurinn hefur keyrt þjóðina í gjaldþrot, efnahagslegt og siðferðilegt. Hann hefur farið með völdin hér samfleytt frá árinu 1991, studdur af Framsókn mest allan tímann og Samfylkingunni síðasta árið eða svo. Flokkurinn stóð að því að selja eigur ríkisins á spottprís, bankarnir voru nánast afhentir flokksgæðingum helmingaskiptaflokkanna á silfurfati og í gang fór frjálshyggja sem hefði fengið jafnvel Milton Friedman til að snúa sér við í gröfinni. Laissez-faire og "ósýnileg hönd" Adams Smith réðu nú ríkjum. Eftirlitsstofnanir voru lamaðar, með ekkert umboð til að grípa inn í, þær voru jafnvel lagðar niður sbr. Þjóðhagsstofnun sem birti óhagstæða efnahgasspá eitt sinn í tíð Kim il Oddssonar. Mörgum fannst það flott hjá honum. Amatörar í hagfræði réðu ríkjum hér, smákóngaveldi sem hyglaði flokksgæðingum tveggja flokka. Menn lofsungu íslensku útrásarvíkingana og ekki bara forsetinn eins og sumir hafa verið að þrástagast á, líka Davíð sem þó reyndi að ljúga því í þjóðina í alræmdu Kastljósviðtali að hann hefði aldrei sungið útrásinni neinn lofsöng. Sú lýgi var rekin ofan í trantinn á honum tveimur dögum síðar í Fréttablaðinu. Davíð er aðalhöfundur að þeirri krísu sem þjóðin er í núna. Röð vitlausra ákvarðana bæði í stjórnarráði og ekki síst í seðlabankanum eins og hagfræðingar, innlendir sem erlendir hafa rakið, en hann með sinn yfirgengilega hroka skellir skuldinni á aðra.
Úr þessum brennandi rústum rís nýtt Ísland, vonandi með aðrar leikreglur, önnur gildi og viðmið en þau sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðið upp á undanfarin mörg ár. Frjálshyggja flokksins er gjaldþrota og þá mannfjandsamlegu stefnu ætti auðvitað að banna því það er hún með sínum trúboðum sem hefur komið landinu á kaldan klaka. Svo mætti draga þá menn á sakamannabekk sem hafa haldið frjálshyggjunni fram. Það hlýtur svo að koma til álita að banna Sjálfstæðisflokkinn í hinu Nýja-Íslandi, nóg ætti hann að hafa á samviskunni. Stefna og hreyfing sem leiða þjóðina í svona stórbrotnar ógöngur eiga ekki að fá að þrífast hér.
föstudagur, 24. október 2008
Útrás
Ævisparnaður fólks er gufaður upp í mörgum tilfellum, peningar sem geymdir voru í sjóðum og hlutabréfum í bönkum og öðrum fyrirtækjum. Menn voru hvattir til að taka erlend lán sem nú eru að drepa þá sem þau tóku, bara út af þeim trúarbrögðum sem íslensk króna heitir. Það er búið að skerða lífeyrisréttindi mín og lífskjör og barnanna minna næstu áratugi.
Að Íslendingum er hlegið út um allan heim. Þokkalegur andskoti!!!
Forfeður okkar áttu aldrei að leggjast í þessa útrás frá Noregi, hún var mislukkuð, tók bara dálítið langan tíma að fatta það. Það er svo einboðið að við eigum að viðurkenna ósigur okkar og gefa þá yfirlýsingu út strax að stefnt skuli að Evrópusambandsaðild og fullri þátttöku í myntbandalaginu af því að við kunnum ekkert í efnahagsmálum.
miðvikudagur, 22. október 2008
Sólarglæta í tilverunni
En, sem ég sit á kennarastofunni með Moggann og sökkvi mér í allar hörmungarnar sem þar var greint frá, rek ég ekki augun í myndir af þremur skælbrosandi konum og var þar engin önnur en frú Guðrún Heiða iðjuþjálfi, betur þekkt sem Frau Blucher ásamt tveimur fyrrum skóla- og þjáningarsystrum úr HA. Þær skrifuðu sem sagt grein í blaðið sem fjallar um mænuskaða og í sjálfu sér ekki tilefni til að hlæja eða brosa að því málefni. Þær brostu allar svo blítt að í fyrstu varð ég hvumsa, enda tímarnir þannig að flestir ganga nú um með skeifu og örvæntingu í svip. En ekki þær. Annað eins smæl á öðrum eins krepputímum hefur aldrei sést og ég brosti með og til þessara gullfallegu iðjuþjálfa sem björguðu deginum fyrir mér.
Greinin var annars góð, hún var reyndar háalvarleg og full af beittri gagnrýni í garð stjórnvalda vegna stefnu þeirra í málefnum mænuskaðaðra. Og þær samt svona gleiðbrosandi þannig að lesendur geta séð að höfundar eru ekki fúllyndar og bitrar fraukur sem allt hafa á hornum sér, heldur hugsandi ofurgellur en samt sætar.
mánudagur, 20. október 2008
lyktarskyn
Helena var bara fimm eða sex ára þegar hún flokkaði óskilaföt af vinkonum sínum sem höfðu hlaðist upp í forstofunni. Þarna voru vettlingar, húfur, snjóbuxur og fleira sem Helena bar að sínu ofurnefi og sortéraði. Hún fann þá lykt sem var á heimili viðkomandi krakka af öllum þessu fötum og skjöplaðist ekki.
Annað ágætt dæmi. Fyrir þremur árum vorum við í Danmörku og einn daginn fórum við öll í bæinn og Lára með. Við skiptum liði, Gunna og Lára fóru að versla og ég fór með börnin á vaxmyndasafn og fleira skemmtilegt. Svo ætluðum við að hittast á Strikinu. Ekki höfðum við lengi gengið þegar Helena snarstoppar og hnusar út í loftið og segir: "Bíddu, Lára er hérna, ég finn Lárulykt!" Ætli hafi ekki verið svona þrjú til fimm þúsund manns á röltinu á Strikinu þennan dag? En viti menn, örstuttu síðar gengum við fram á Láru og Gunnu og Helena sagði að þetta hefði verið akkúrat ilmvatnið sem hún notaði þessi lykt sem hún fann allt í einu og fór ekki ofan af því að þetta hefði verið lyktin af Láru.
Svo þykist hún ekki finna neina lykt þegar fnykurinn af naggrísnum hennar ætlar alla að drepa á heimilinu.
miðvikudagur, 15. október 2008
Í stríð við Breta
laugardagur, 11. október 2008
K-orðið
Já, k-orðið. Í vinnunni hennar Gunnu er hið fallega íslenska orð "kreppa" komið á bannlista. Nú er bara sagt "k-orðið" ef þarf að nefna þetta fyrirbæri. Hugmyndafræði iðjuþjálfunarinnar gengur út á það að orðið sjálft skapi neikvæðni og orsaki kvíða og þunglyndi hjá gamla fólkinu. Nei, nú er um að gera að vera glaðlegur og tala á jákvæðum nótum og þær (iðjuþjálfarnir) segja að það ríki smá "samdráttarskeið", jafnvel "niðursveifla" og nýjasta orðið í bransanum er "herpingstími". Það finnst mér nokkuð gott, en fer samt ekki ofan af því að orðið "kreppa" er fallegt, sterkt og hljómar líka vel, fyrir nú utan hvað fyrirbærið er þarft og hollt fyrir ansi marga hér á landi sem trúðu í blindni á frjálshyggjuna. Það sem ég vona að komi út úr þessu öllu saman er að það verði allsherjar endurmat á gildum lífsins hjá þessari þjóð og öðrum Vesturlandabúum, ekki veitir af. Guð blessi íslenska þjóð!
fimmtudagur, 9. október 2008
Kreppugreinin
Sjaldan hafa jafn fáir logið jafn miklu í jafn marga á jafn fáum dögum og undanfarið. Ekki hefur verið orð að marka bankastjórana um stöðu bankanna, allir svo ótrúlega traustir, með miklar eignir osfrv. Prófessor við Háskóla Íslands sem ekki er í lygaklúbbnum sagði eftir yfirtöku ríkisins á Glitni að tæknilega væru bæði Landsbankinn og Kaupþing gjaldþrota. Hreiðar bankastjóri (fyrrum) varð bæði sár og reiður yfir þessum svívirðilegu ummælum og bullaði eitthvað um það væri alvarlegt að Háskóli Íslands bæri ábyrgð á svona manni sem segði þvílíka vitleysu. Nei, Kaupþing væri geysilega traust félag með sterka eiginfjárstöðu, opnar lánalínur og nyti álits og lánstrausts. Þremur eða fjórum dögum síðar er sami banki farinn á rassgatið með báðum sínum gráðugu, spilltu og síljúgandi bankastjórum.
Allt það sem Danir sögðu um okkur fyrir um tveimur til þremur árum hefur ræst. En Við urðum sár og reið út í fyrrum nýlenduherra okkar sem með rógburði og öfund níddu hina glæsilegu, nýríku útrásardrengi okkar sem urðu þjóðhetjur því þær höfðu keypt banka og fyrirtæki í Danmörku og sýnt helvítis baununum í tvo heimana. Gott ef þarna var ekki verið að hefna fyrir kúgun þeirra í gegnum aldirnar, allt frá siðaskiptum, í gegnum einveldistöku, Brimarhólm, verslunareinokun og almennt arðrán og 14 - 2 leikinn. Hefndin var sæt. En nú er þetta ævintýri farið ofan í klósettið og gott á Íslendinga segi ég. Það hlakkar óskaplega í mér yfir óförum þeirra.
Bankastjórarnir og útrásargengið, sem ýmsir héldu að væru svo snjallir, áræðnir og gáfaðir viðskiptajöfrar eru bara, eins erlendir blaðamenn og ýmsir aðrir voru búnir að sjá fyrir löngu, bara spilltir, gráðugir og bernskir og umfram allt heimskir. Út í hinum stóra heimi er núna hlegið að Íslendingum fyrir heimsku sína og græðgi. Það mundi ég líka gera.
mánudagur, 29. september 2008
Bananalýðveldi Íslandsbasa
Það jafngildir landráðum í huga Íslandsbasa að minnast á evru og Evrópusamband. Það má ekki nefna þessi fyrirbæri frekar en snöru í hengds manns húsi. Þau reita Basa til reiði. Í staðinn sitjum við uppi með hann og þrefalt efnahagsklúður miðað við nágrannalönd okkar flest. Við höfum ónýtan gjaldmiðil sem verður æ minna virði (50% minna virði núna en fyrir nokkrum mánuðum), verðbólgu sem er margfalt hærri en í öllum nágrannalöndum okkar og vaxtaokur sem ekki á sér hliðstæðu í okkar heimshluta og þótt víðar væri leitað.
Þeir sem dirfast að nefna þann möguleika hvort okkur væri kannski betur borgið innan Evrópusambandsins þar sem líkur eru taldar á því að efnahagslíf okkar myndi aðlaga sig að því sem þar gerist, eru stimplaðir af Basa á Svörtuloftum sem lýðskrumarar sem eigi "mikla skömm og fyrirlitningu skilda".
Svokölluð "hagstjórnartæki" seðlabankans eru mikið grín og og trúi því ekki að menn þar á bæ haldi í alvöru að þau virki, þau nefnilega gera það ekki af einhverjum ástæðum. Stýrivextir eiga samkvæmt kenningunni að þrýsta verðbólgu niður og virðast gera það í útlöndum. En ekki hér. Háir stýrivextir hafa ekkert að segja í þessari baráttu, eru bara okkur öllum til bölvunar og aðalástæðan fyrir vaxtaokri bankanna. Alltaf þegar ábúðarfullir seðlabankastjórar tilkynna um hækkun stýrivaxta eru þeir á svipinn eins og nú megi vænta þess að verðbólgan fari niður. Nei, ekki hér. Svona efnahagslögmál virka ekki á Íslandi. Í staðinn fyrir að verðbólga lækki eins og hún á að gera samkvæmt kenningunni, hækkar hún í hvert skipti.
Það er kominn tími á að menn feisi þessa staðreynd og hina líka að Íslendingar kunna ekki neitt í efnahagsmálum. Þetta vita reyndar flestir, en Flokkurinn sem öllu ræður er í gíslingu þess manns sem helst má líkja við fyrrum leiðtoga Túrkmenistan, Túrkmenabasa sem allir voru svo hræddir við. Hér mun ekkert gerast meðan hann ræður ríkjum.
mánudagur, 22. september 2008
Pabbi
Pabbi bernskunnar. Stór og sterkur,
opinn faðmur og hálsakotið hlýtt.
Ró, ró og rugga og brýna gogg.
Fikt í skeggbroddum og eyra.
Bjargið trausta.
Pabbi æskunnar. Ferðalögin mörg,
biðin eftir pabba heim úr vinnunni.
Hann var sá sem aldrei fór
en alltaf var, fyrir mig og hina.
Angan af hefilspónum og pípu.
Pabbalykt. Hún var svo góð.
Pabbi unglingsáranna. Fótboltinn í sjónvarpinu á laugardögum,
lifðum okkur inn í leikinn.
Báðir, saman.
Traustur, aldrei lasinn
hann var sá sem aldrei veiktist,
fordæmin gaf og alltaf til staðar.
Peningi laumað í lófa, orðalaust.
Pabbi fullorðinsáranna. Þras um pólitík
og bjástur við bátinn sinn.
Pabbi í horninu sínu umvafinn barnabörnum
með kókómjólk.
Grúsk í bókum og landakortum,
kaffi og jólakaka á borði.
Hann var fyrir mig og mína og alla hina,
mildur og hlýr,
traustur alla tíð.
Í minningu pabba sem dó 10. september 2008
sunnudagur, 7. september 2008
Blucher lærir á bíl
- Konan hefur tekið upp á því á gamals aldri að læra á bíl. Hún verið að hóta því í mörg ár en ég hef aldrei tekið neitt mark á því og sannast sagna hef ég heldur ekki verið neitt sérstaklega hvetjandi til þess arna. Mér hefur nefnilega fundist það alveg nóg að það sé einn um það á heimilinu að slíta út bílnum. Neita því heldur ekki að nokkra umhyggju hef ég líka fyrir samborgurum mínum og fékk aldrei það reikningsdæmi til að ganga upp að Guðrún væri í umferðinni við stýrið svo sjónskert sem hún er eins og raunar ætt hennar öll og áður hefur verið minnst á hér á þessum vettvangi. Það er ekki bara sjónskekkjan sem ég hef áhyggjur af, heldur líka náttblindan og fjarsýnin. Held að glákan sé á næsta leiti. Hugaður maður hann Ingvar ökukennari að taka þetta ögrandi verkefni að sér.
Fyrsti ökutíminn gekk kraftaverki næst. Mín hélt að hún myndi taka léttan rúnt með ökukennaranum og fengi bara smá fyrirlestur um stjórntæki bílsins og umferðina og þyrfti ekkert að keyra. En einhvers staðar í Þorpinu stöðvaði Ingvar bílinn og sagði henni að taka við. Konan fékk aðkenningu að taugaáfalli við þau tíðindi en gerði eins og henni var sagt. Það ótrúlega gerðist að frúin ók bílnum einhverjar götur og alla leið heim án nokkurra sýnilegra skemmda á faratækinu.
Svo kom ökutími nr. tvö og ég sá að ökukennarinn bakkaði bílnum í stæðið. Það vissi ekki á gott sögðum við. Maðurinn ætlar að láta hana aka á brott og ég ákvað að fara ekki undir sæng heldur sýna henni þá samstöðu að fylgjast með þegar hún færi af stað. Það var nokkurt sjónarspil sem nú skal frá greina. Frau Blucher ákvað fyrir það fyrsta að vera á sokkaleistunum í þetta skiptið til að fá nánari tilfinningu fyrir ökutækinu og sennilega til að vega upp á móti sjóndeprunni. Hún settist upp í bílinn og ég stóð á svölunum og beið átekta, skimaði í allt aðra átt og þóttist ekkert kannast við þessa konu, horfði á hana svona útundan mér. Jæja, ætlar hún ekki að fara að drífa sig af stað? Það leið og beið og ég sá að hún skimaði um inn í bílnum, leit í baksýnisspegilinn, svo aftur fyrir sig, þá á hliðarspeglana, ofan í gólf og til hliðar, aftur ofan í gólf (leita að pedölunum?) og ekkert gerðist. Þetta var eins og flugmaður að setjast upp í Fokker að fara yfir tékklistann. Eftir óratíma hreyfðist bíllinn úr stað, svona hálfan metra og svo stopp! Nei, drífa sig, ég var kominn í spreng, en vildi ekki missa af þessu. Jæja, loks fór hann aftur af stað, löturhægt og stefndi sem leið lá upp bílastæðið í átt að Snægili. Ég hef aldrei séð bíl fara svona hægt og ef gömul kona með göngugrind hefði gengið við hlið bílsins hefði hún verið á undan. Í raun var þetta flott hjá minni konu, ég meina að geta keyrt svona lafhægt án þess að drepa í bílnum, það er kúnst geta ekki allir! Ökutúrinn gekk vonum framar að sögn, hún keyrði um Þorpið og fór jafnvel inn í hringtorg. Engan drap hún heldur og kom mér það skemmtilega á óvart. Drap á bílnum að vísu nokkrum sinnum, en það gerði ég sosum líka á sínum tíma. Og dáðadrengurinn Ingvar ætlar að halda áfram að kenna Frau Blucher og senn fæ ég æfingaleyfi. Þá munum rúnta um bæinn á Hundyai, hún við stýrið og ég sveittur og skelfingu lostinn sjálfsagt í farþegasætinu.
fimmtudagur, 4. september 2008
Mikið að gera
Annars lítið að frétta, vinna og daglegt amstur ýmis konar á hug minn allan. Varð 48 um daginn og þakka hér með þeim sem mundu eftir mér og sendu sms ellegar hringdu eða komu færandi hendi. Guð blessi þá í bak og fyrir.
föstudagur, 29. ágúst 2008
Strákarnir okkar
Þarna eru þeir, strákarnir okkar í landsliðinu í handbolta. Ólafur "bíp" Stefánsson heimspekingur er í 3. röð og tröllið með barnshjartað er þarna líka, svo og Guðjón Valur, sonur vindsins og allir hinir. En ég vissi ekki að það væru svona margir í landsliðinu og svo er alltaf talað um þennan 15. mann sem aldrei fékk að vera með aðalgæjunum. En hvað með alla hina sem eftir eru? Hvað voru þeir að gera og því vorkennir enginn þeim? Ég gúglaði þessa mynd eftir leitarorðunum "strákarnir okkar" og fékk bara eitthvað svona. En myndin er flott og þarna er vaskur flokkur danskra soldáta sem mér sýnist að sé nýbúinn að fá gráðu í fínum herskóla og hefur stillt sér upp til útskriftarmyndatöku fyrir framan skólann sinn. "Vores drenge".
Silfurdrengirnir fengu glæsilegar móttökur og allt var það við hæfi og verðskuldað, jafnvel þótt á köflum væri farið yfir strikið. Maður fékk kjánahroll nokkrum sinnum, en það var bara þægileg tilfinning, manni jafnvel vöknaði um augun á nokkrum augnablikum í þessari viðamiklu útsendingu sjónvarpsins sem Bogi þreyttist ekki á að minna okkur áhorfendur á með reglulegu millibili frá kl. 16 til 20.
Hæstvirtur íþróttamálaráðherra fannst mér fullmikið áberandi í sambandi við afrek landsliðsins. Hún á ekkert í þesum sigrum en var einhvern veginn í aðalhlutverki í fjölmiðlum þennan dag og suma aðra daga líka. Og hvað var ríkisstjórnin að gera upp á sviði í Lækjargötunni þegar liðið var svo hyllt? Ríkisstjórnin stóð bara þarna eins og asni með ekkert hlutverk nema náttúrulega Þorgerður Katrín. Það var bjánlegt. Þrátt fyrir hroll tók ég undir í "Öxar við ána" og furðulegt að ekki sé fyrir löngu búið að gera það lag að þjóðsöng Íslands. Lagið er einstaklega vel fallið til að hræra upp í þjóðernistilfinningunum þrátt fyrir að vera hálfgerður hergöngumars og textinn segir allt sem segja þarf, "...skundum á Þingvöll og treystum vor heit. Fram, fram, aldrei að víkja, fram, fram, bæði menn og fljóð. Tökum saman höndum..." osfrv. Sá sem finnur ekki til þjóðerniskenndar og brynnir músum við að syngja þetta lag við raust er bara plebbi og ætti að flytja til útlanda og hana nú!!
Svo var orðuveitingin á Bessastöðum skemmtileg og í fyrsta sinn sem maður fær að sjá slíkt í beinni útsendingu. Þeim fannst þetta greinilega sumum orðið eitthvað súrrealískt, t.d. sjálfum Ólafi Stef, sem fékk stórriddarakross og var kindarlegur á svipinn. Þeir voru þakklátir og hrærðir eins og vera ber og Rússajeppinn grét og það ekki í fyrsta skipti þennan dag. Aðeins einn úr þessu liði var öðruvísi stemmdur. Það var Logi Geirsson geldrengur. Hann leit ákveðnum augum á forsetann með óræðu glotti og þakkaði fyrir sig upphátt svo að vel heyrðist. Svo fengu menn sér bara í glas á Bessastöðum og eflaust hafa þeir upplifað mikið spennufall eftir allt þetta stand þennan dag og brugðið á það ráð að fara á skallann, það hefði ég gert.
mánudagur, 25. ágúst 2008
Allt að gerast
Það verður bara eintóm sæla framundan. Öll þessi vinna og þessi endalausu þrif á heimilinu og þref við börnin um heimanámið, matur og frágangur eftir hann, meiri þrif og þvottur. Svo að koma liðinu niður, í háttinn á kristilegum tíma (ég tala eins og sjö barna faðir, en stundum finnst mér það miðað við útgjöld heimilisins og fjöllin af þvotti sem safnast upp dag hvern). Þegar þessu öllu er lokið (eins og í piparkökusöngnum!) á maður oftar en ekki eftir að vinna eitthvað og það þarf auðvitað að smyrja nesti fyrir morgundaginn og svo reyni ég yfirleitt að ná helgistundinni sem eru 10 fréttirnar kl. 23 á bestu sjónvarpsrás heims, rúv +. Og ef maður er ekki þegar orðinn örendur að veðrinu loknu er kíkt í bók, kannski svona 10 bls. Já, það er gaman að vera kominn í rútínuna aftur. Segi það enn og aftur sem löngum hefur verið vitað að Arbeit macht frei!
miðvikudagur, 20. ágúst 2008
Berjadagar
Menn gera töluvert af því að ganga úr flokkum þessa dagana og jafnvel í þá aftur. Ólafur F, sá mikli píslarvottur og misskildasti stjórnmálamaður frá upphafi vega, er genginn í Frjálslynda flokkinn aftur. Það einhvern veginn hentaði núna. Enginn veit af hverju hann gekk úr honum á sínum tíma og öllum er líka nákvæmlega sama. Það er ekkert tiltökumál að segja skilið við stjórnmálaflokk, oft geta legið gildar ástæður til þess eins og málefnaágreiningur og afstöðumunur í prinssippmálum. En ætli reyndin sé ekki oftar sú að menn ganga úr flokkum út af einhverri fýlu og af því að þeir fengu ekki nógu gott sæti í prófkjöri eða að menn telja að þeir hafi ekki fengið þá bitlinga frá flokknum sem þeir töldu sig eiga skilið. Kristinn R. er gott dæmi um slíkan stjórnmálamann og myndi ganga í Sjálfstæðisflokkinn ef hann teldi að það veitti sér pólitískt brautargengi. Marsibil er farin úr Framsókn og það get ég vel skilið miðað við atburði síðustu daga og það hafa fleiri gert af þeim lista, en ein kona er gengin í flokkinn aftur. Hún fór í fýlu út af Birni Inga á sínum tíma og sagði sig úr flokknum en er snarlega genginn í hann aftur af því að hún á von á bitlingum núna nokkuð óvænt því hún var í 5. eða 6. sæti á listanum.
Allt er hægt að kaupa , líka stjórnmálamenn. Óskar Bergsson er pólitísk skækja og seldi sig eins og mella fyrir vænan bitling. Sjálfsagt eru flestir falir á þennan hátt, bara ef nógu miklir peningar eru í boði. Annars ætlaði ég alls ekki að byrja á svona röfli og læt þessu hjali lokið. Skólinn byrjaður og í dag var fyrsti starfsdagur og annar á morgun og svo byrjar ballið endanlega á fimmtudaginn.
Að hægðum. Ég stakk upp á því að breyta þessu bloggi í hægðadagbók og hef ekki í annan tíma fengið betri hugmynd þótt ég segi sjálfur frá. Það yrði frumlegt, öðruvísi en önnur blogg og hróður þess myndi hugsanlega aukast fyrir vikið. Nú, þá er frá því að segja að við fórum í ber í fyrradag og síðan hafa þau verið í matinn ásamt hrásykri og rjóma bæði í hádeginu og á kvöldin og er ekki að spyrja, hægðir hafa verið með greiðasta móti hjá mér, en ekki að sama skapi vel formaðar. Ég mun að sjálfsögðu halda lesendum upplýstum um þessi mál á næstunni.
laugardagur, 16. ágúst 2008
Fjölgun í fjölskyldunni
Ætli sé ekki best þá að gera grein fyrir fyrirsögninni. Frau Blucher er ekki með barni svo vitað sé. það er þá allavega ekki fyrir minn tilverknað, enda hafa læknavísindin því fyrir komið með þartilgerðri aðgerð á undirrituðum fyrir nokkrum árum að örðugt yrði um vik. Katrín er kona einsömul að því er ég best veit og það er heldur enginn verulega óléttur í fjölskyldunni samkvæmt mínum upplýsingum. Hins vegar flutti inn á okkur í dag lítill stubbur sem ég líklega ættleiði á endanum. Hann heitir Birkir og er stökkmús úr dýrabúðinni í Húsasmiðjunni. Kvikyndið fékk Nikulás sem sagt í afmælisgjöf frá Árna og Kötu og menn geta rétt ímyndað sér hversu glaður væntanlegur afi varð, þ.e. ég. Fyrir er auðvitað naggrís að nafni Yasmin og ég hélt að það væri nóg. Nikulás valdi þetta undarlega músarnafn, ekki veit ég hvers vegna, en hann var ákveðinn, Birkir skal hann heita. Nú veit enginn hvers kyns músin er, enda er þetta bara örlítið kríli og ekki að búast við að nokkuð sjáist þarna undir honum í bráð. En til að flækja þetta ekki sögðum við að þetta væri "strákur".
Ekki nenni ég að tjá mig um Reykjavíkurpólitík hér eða annað, þetta er bara að verða að einhverju sjálflægu heimilisbloggi, enda er það sjálfsagt það sem vinir og ættingjar vilja lesa, ekki enn eina greinina um það hversu mikið fífl ég telji að þessi eða hinn sé. Bráðum fer ég að halda dagbók um hægðir mínar og ég efa ekki að menn (og konur) myndu fylgjast spennt með. Maður fer hvort sem er að nálgst þann aldur þegar lífshamingjan snýst um það hversu góðar og vel formaðar hægðir maður hefur.
En ykkur er velkomið að heilsa upp á Birki hvenær sem er og kjá framan í hann og "sjá hvað hann er dætur".
mánudagur, 11. ágúst 2008
Aftur í hversdagslífið
Við skoðuðum flesta skylduga túristastaði þarna um slóðir, Geysi og Gullfoss, Þingvelli og Skálholt og einn daginn fórum við niður á "Stokkseyrarbakka" eins og segir í einum Stuðmannatexta. Svo var líka bara fínt að vera á Laugarvatni. Fórum í sund flesta daga og einu sinni leigðum við báta og rérum út á vatnið. Busluðum líka í vatninu og tókum jafnvel sundsprett, enda vatnið á köflum nokkuð hlýtt. Við sötruðum hvítvín á kvöldin og spiluðum alls kyns fjölskylduspil, lásum, spjölluðum og rifumst lítið. Sem sagt, allt ákaflega huggulegt og kristilegt nánast. Gaman líka að vera öll saman fjölskyldan, því Kata kom með, bað raunar um það (öðruvísi mér áður brá!), en það var frábært að hafa hana með.
Á laugardaginn var "Hýrark" eða Gay pride gangan í Reykjavík (ekki á laugarvatni!) og ég sá það fyrirbæri nú í fyrsta skipti og var skíthræddur um að ég myndi uppgötva hommann í mér við að sjá öll herlegheitin, en sem betur fór gerðist ekkert slíkt. En þetta var nú meira fríksjóið, þessi ganga og á einhvern hátt bjánaleg finnst mér. Hef samt ekkert á móti samkynhneigðum og styð réttindabaráttu þeirra af heilum hug. Þetta er samt þeirra dagur og það er hið besta mál. Svo um kvöldið fórum við til Stokkseyrar, á uppáhaldsresturantinn hans Ólafs Ragnars, ásamt Höllu sem útskrifaðist fyrr um daginn frá Keili, Stínu chick afmælisbarni, Þóru tengdamúttu, Pétri og Ellen. Þar gröðkuðum við í okkur humar sem var mikið hnossgæti og mátti líka vera það, enda var þetta andskotanum dýrara! Keyrðum svo til Ak. í gær og lífið strax orðið hversdagslegt sem er auðvitað ágætt líka. Kannski ekki svo hversdaglegt, því það er mikið um að vera í sjónvarpinu þesa dagana. Ég ætla að horfa á nokkra handboltaleiki og ekki má ég heldur láta hjá líða að sjá nokkra spennandi leiki í strandblaki kvenna, þeirri göfugu íþrótt, en það er einmitt leikur í nótt, kl. 03.30. Góðar stundir.
föstudagur, 1. ágúst 2008
Skattakóngur á leið í frí
Hreiðar Már áðurnefndur á samt samúð mína. Þrátt fyrir að hafa sigrað mig í skattakeppninni borgar hann helmingi minni skatt nú heldur en í fyrra. Þýðir það ekki að tekjur hans hafa lækkað um helming? Þetta er hræðilegt, að missa helming tekna sinna frá síðasta ári og margur mundi ekki þola það. Kæmi það fyrir mig yrði ég ekki bara settur á bæinn, heldur sóttur hingað í Snægilið af sýslumanni og fógeta og fluttur í böndum á Kvíabryggju og látinn þræla þar fyrir skuldum. En eitthvað er bogið við þetta allt saman. Hreiðar var hryggðin uppmáluð í sjónvarpinu í kvöld út af efnahagsástandinu, samt skilaði bankinn um 30 milljarða hagnaði fyrstu mánuði ársins!! Hverjar eru áhyggjurnar? Að gróðinn fari úr trilljón niður í skrilljón? Hvað ætli þjónustufulltrúar Hreiðars Más og Sigurjóns Árnasonar í Landsbankanum heiti? Minn heitir Helga og situr í Landsanum á Húsavík og við eigum viðræður, vinsamlegar að sjálfsögðu, um fjármál einu sinni í mánuði og svo hefur verið um ansi langt skeið. Hvenær skyldi maður komast út úr þeim pakka? Kannski væri liður í því að bankarnir (Heyrið það Hreiðar og Grjóni!) lækki vexti og afnemi þjónustugjöld ýmis konar, t.d siðlaus stimpilgjöld og FIT kostnað sem sumir lögfræðingar segja að sé alveg kolólögleg aðgerð bankanna sem þar með taka sér vald til sekta, en það vald hafa aðeins dómstólar eins og kunnugt er. Svo væri gott ef verðtryggingin yrði afnumin. Ofan á hinminháa vexti eru lán verðtryggð og algjörlega borin von að maður geti nokkurn tímann eignast bót fyrir boruna á sér. Afborganir af húsnæðislánum hækka og hækka og höfuðstóllinn með.
Jæja, ég nenni þessari biturð ekki öllu lengur, ég er alltént skattakóngur yfir sjálfum mér sem er á leið í sumarfrí á Laugarvatn og meiningin er að slaka vel á og rúnta eilítið um Suðurlandið, enda bensínið svo ódýrt hérna. Máske verður bloggað í fríinu ef ég kemst í netsamband einhves staðar. Annars, góðar stundir.
mánudagur, 28. júlí 2008
La vita bella
Fórum til Húsavíkur í gær (lau) á Mærudaga og það var nú aldeilis ljúft. Hitinn um eða yfir 20 stig og það var notalegt að sitja í sólinni með einn kaldan á Bakkanum, en þar er nýtt veitingahús sem Skuld heitir. Við röltum um bryggjuna og bæinn og hittum ansi marga sem þurfti að spjalla við. "Ætliði ekki bara að flytja aftur austur?" Hitti líka marga gamla nemendur mína úr FSH sem sumir hverjir eru orðnir þrítugir eða og rúmlega það. Stútungskallar og kellingar með tvö börn og háskólanám að baki. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Borðuðum svo á Sölku, út á stétt og ekkert lát varð á blíðunni. Stemningin þarna var eins og einhvers staðar í útlöndum og væri bara óskandi að maður fengi að njóta fleiri svona daga hér á klakanum.
Dagurinn í dag var ekki síðri veðurfarslega, hitinn aftur um eða yfir 20 stig. Fórum í sund á Hrafnagili og svo auðvitað hið skylduga jólahús sem Helena er farin að kveinka sér undan, segist hata þetta jólahús, sérstaklega á sumrin. Nú, taka verður tillit til gelgjunnar sem farin er að krauma í henni af fullum þunga, þannig að við stoppuðum stutt og keyrðum svo því næst Eyjafjarðarhringinn. Síðan heim í Snægilið í sól og næsheit á svölunum með bók og kaffi.
Já, mikið er lífið ljúft þegar blessuð sólin skín, allt verður miklu betra, geðið og annað lyftist upp og manni þykir, á svona dögum, jafnvel örlítið vænt um Björn Bjarnason!! Best að hætta núna áður en ég fer að lýsa yfir ást minni á Davíð Oddssyni, Sigurði Kára og Bush og fleirum, það er stórhætta á því, enda veðurspáin með eindæmum hagstæð næstu daga.
föstudagur, 25. júlí 2008
Ólaf fyrir forseta - áfram!
Það er tímabært að ég spjalli örlítið um forseta vorn, herra Ólaf Ragnar Grímsson, sem guð varðveiti og geymi. Ég fagna því að hann ætli að sitja fjórða körtímabil sitt, enda hefur hann staðið sig afburða vel í þessu vandasama embætti. Ég er ekki með neina kaldhæðni hér, það er bara staðreynd sem mörgum andskotum hans svíður undan. Þess vegna er farið út í lágkúru eins og nú um daginn þegar Jón Magnússon, frjálslyndur rasisti, fann að því að forsetahjónin hefðu farið út að borða með kellingu að nafni Martha Stewart. Það væri bara alls ekki við hæfi. Hún er svona “rich bitch” þarna í Ameríku og hefur skrifað margar bækur og verið með sjónvarpsþætti sem fjalla um lífstíl, eitthvað sem kaninn elskar og reyndar fleiri. Hún veit ekki aura sinna tal og svo varð hún uppvís að skattasvindli fyrir nokkrum árum og hlaut dóm eins og vera ber. Nú vill svo til að Marta blessunin er vinkona Frú Grimsson-Mussajeff og við því er fjandakornið ekkert að gera. Þær vilja fara út að borða, vinkonurnar, og eru svo elskulegar að taka Óla með sem annars hefði bara verið einn að gaufa á Bessastöðum yfir “Everwood” eða einhverju.
Ólafur er bara orginal snillingur. Hann er eini maðurinn sem ég þekki sem er fyndinn, bæði án þess að ætla sér það eða hafa hugmynd um það. Röddin, fasið og stelling handanna, allt er þetta vel þekkt og maðurinn því himnasending fyrir eftirhermur á borð við Jóhannes Kristjánsson sem nær honum svo frábærlega að hann er eiginlega líkari Ólafi en Ólafur sjálfur! Hann flytur ræður við hvers kyns tilefni. Kvenfélagssamband Íslands fagnar 60 ára afmæli og Ólafur fjallar, blaðalaust auðvitað, um það hvernig frumherjarnir á sviði kvenfrelsis hafi með kjarki sínum og staðfestu búið í haginn fyrir konur í dag og hvað við stöndum í mikilli þakkarskuld við þær merku fósturlandsins freyjur og so videre. Búnaðarþing og Óli ræðir um gildi landbúnaðar, Slysavarnarfélag Íslands, Rauði krossinn, iðnrekendur og verslunarráðið, bara nefndu það, alls staðar kemur forsetinn og kann að segja nákvæmlega réttu orðin við hvert tilefni. Framhaldsskólinn á Húsavík fagnaði 20 ára afmæli sínu á síðasta ári og efnt var til fagnaðar á Hótel Húsavík. Ólafur náttúrulega mættur og hélt 20 mín. langa ræðu í það minnsta. Hann talaði blaðalaust, aldrei tafs, engin hikorð eins og eh, uh, hérna. Allan tímann horfði hann fram í salinn og framan í fólk. Þetta var í raun mjög sérstakt að upplifa þetta. Nú innihald ræðunnar var bara eins og vera ber við svona tímamót; gildi menntunar, þýðingu skólans fyrir byggðarlagið, kjarkur frumherjanna, tækifærin til sóknar á nýrri öld… Heyra mátti saumnál detta því hann náði augum og eyrum viðstaddra svo rækilega að ég hef aldrei séð annað eins.
Ég man líka eftir forsetaheimsókn einhvers staðar út á landi fyrir nokkrum árum og sjónvarpið náði viðtali við Ólaf. Þetta var svona skuð á Vestfjörðum þar sem allt var á leið til andskotans, flestir voru farnir og allt á hausnum og bara eymd og drungi yfir öllu. Aðspurður um það hvernig sér litist á plássið svaraði forseti vor því píreygur og með sannfæringarglotti að maður nánast trúði honum. Ólafur: “Það er merkilegt, í raun alveg sérstakt, hversu mikill kraftur er í fólki hér og ég hef tekið eftir því að unga fólkið hér á Skuðseyri er opið, lífsglatt og bjartsýnt á möguleika þess til að skapa sér framtíð með ýmis konar nýsköpun. Það sér tækifæri til sóknar og við sem stöndum í forystu í samfélaginu verðum að búa svo um hnútana og þessi mikli sköpunarkraftur sem býr í æsku þessa lands fái notið sín.” Þetta er nú ekki haft orðrétt eftir forseta vorum, en eitthvað í þessa veru samt.
Fréttamynd 21. aldarinnar er líka af Ólafi Ragnari Grímssyni. Hún birtist í Séð og heyrt (já viðurkenni það bara að ég las allavega það eintak!). Myndin var harmræn í meira lagi, Ólafur lá sem dauður væri einhvers staðar í óbyggðum með svona ljótan knapahjálm á hausnum handleggsbrotinn og Dorriett á hnjánum hlúði að honum með tár á hvarmi. Þau höfðu sem sagt brugðið sér í reiðtúr og undir Ólaf var sett ótemja sem gáði ekki að því hversu tiginn sá var sem í hnakknum sat. Ólafur féll af baki með þessum afleiðingum þótt ódrukkinn væri. Viðbúnaður var mikill, forsetinn vafinn inn í teppi og mátti sig ekki hræra meðan beðið var eftir þyrlunni. Þá fóru illar tungur að tala um “Séð og heyrt-væðingu forsetaembættisins” eins og það væri því eða Ólafi að kenna. Þetta er nú bara tíðarandinn því miður kannski, að elta fræga fólkið og þessir sneplar nærast á svona efni.
Stína, ef þú ert enn að lesa, þá held ég að nú sé vel við hæfi að leggja hönd á brjóst og hrópa: “Heill forseta vorum og fósturjörð. Húrra, húrra, húrraaaaah!”
mánudagur, 21. júlí 2008
Ísbjörn í Vaðlaheiði
Landhelgisgæslan fór í flug í dag að leita að ísbjörnum og það tveimur sem tilkynnt hafði verið um að væru á vappi einhvers staðar á Ströndum. Sú leit hefur ekki borið árangur. En, auðvitað eru menn eitthvað hvumsa yfir þessu því tveir ísbirnir hafa villst hingað á einu sumri og það telst nú heldur óvanalegt. Ekki vildi ég mæta slíku dýri, hvorki í Vaðalaheiðinni né annars staðar, nýstignu á land og sársvöngu eftir margra daga volk í sjónum. Sagt er að fáar skepnur séu jafn klókar og grimmar eins og ísbirnir.
Villtir birnir eiga ekkert sameiginlegt með Knúti í dýragarðinum í Berlín nema nafnið og útlitið. Ég las um það frétt að dýragarðslífið er búið að úrkynja ræfilinn svo mjög að honum er ekki treyst til að bjarga sér í náttúrunni. Hann er algjörlega háður manninum og er ófær um að para sig við birnu. Einn dýrafræðingur sagði að ásókn mannfólksins í hann alveg frá því að hann var lítill og krúttlegur húnn hefði bæði gert hann getulausan og geðbilaðan. Nú bíður Knútur bara eftir því að klukkan verði þrjú því þá kasta starfsmenn dýragarðsins selshræi fyrir framan hann og svona 50 kg. af fiski sem búið er að roð- og beinhreinsa.
Verð samt að geta þess hér í lokin að Palle Pedersen er "well and alive" og hefur heiðrað mig hér á þessu nýja bloggi. Hvernig í andskotanum komst hann á snoðir um það? Þetta er greinilega einhver nákominn ættingi!
föstudagur, 18. júlí 2008
Hestavísur
Þegar draumar mínir verða með villtasta móti
ég vakna og mér liggur við bana
Ég var að ríða um grænar sveitir og Sóti
sá meri og óðara fór upp á hana
Allah gefur aröbum úlfalda
og Búdda færir skáeygðum perlur
Jahve er gyðingum góður
en Guð vill ei gefa mér hross
mánudagur, 14. júlí 2008
Nikulásarmótið
Fór með Nikka á Nikulásarmótið í Ólafsfirði um helgina. Honum og Þórsurum gekk vel og þeir unnu reyndar í sínum flokki og fengu bikar og medalíu og minn maður nokkuð stoltur Þórsari fyrir vikið. Helgin var annars þrekraun hin mesta. Í einhverjum bjánaskap hafði ég boðist til að vera liðsstjóri yfir einu liða Þórs og að fenginni þeirri reynslu fullyrði ég að það var í eina og hinsta sinn sem ég nýt þeirrar upphefðar innan knattspyrnuheimsins. Þjálfararnir voru bara eins og fínir menn á hliðarlínunni og öskruðu eitthvað inn á völlinn og sáu um skiptingar, upphitun og lögðu upp strategíuna og svo fóru þeir bara að slappa af eftir leikina, en við liðsstjórar þurftum þá að taka við gaurunum og hafa ofan af fyrir þeim fram að næsta leik.
Það voru 10 strákar í hverju liði og við áttum að halda hópnum saman og búið var að biðja foreldra að vera ekkert að taka sína gutta úr liðinu. En Drottinn minn, það voru 700 börn á svæðinu á aldrinum sjö til tíu ára og aðstandendur og aðrir sennilega á bilinu þrjú til fjögur þúsund, enda týndust tveir til fjórir strákar úr liðinu mínu nokkuð reglulega alla helgina. Ég var með vatnsbrúsann tilbúinn á hliðarlínunni og svo vafði ég skiptimennina í teppi svo þeim kólnaði ekki á meðan, batt skóþvengi og fleira. Það leið oft langur tími á milli leikja og í eitt skiptið fórum við sund. Laugin var kjaftfull af öskrandi börnum og ég taldi tíu Þórsara ofan í laug en ekki nema níu upp úr! Á barmi taugaáfalls æddi ég inn aftur en sá ekki þann sem vantaði. Á meðan týndust tveir sem komnir voru upp úr, þeir æddu bara eitthvert út í mannmergðina. Allir fundust þó að lokum. En svona var þetta gjarnan, ég að telja og smala saman, reka á eftir og skamma; “má ekki segja að XXX sé ömó”.
Þórsararnir lögðu undir sig aðra hæð gamla barnaskólans og lyktin var eins og í illa hirtu hesthúsi, enda hafði rignt og menn og strákar því hundblautir og það var nú ekkert til að dempa svita-og táfýluna þarna. Ekki svaf ég mikið. Við vöknuðum kl. 06.30 og mér leið eins og ég hefði verið á einhverju stórskralli kvöldið áður, allur stirður og lurkum laminn, rámur og með hausverk, hnén voru að gefa sig og bakið orðið sárt eftir allar stöðurnar daginn áður. Við áttum fyrsta leik kl. 08.15 svo ekki annar leikur fyrr en eftir hádegi. Þannig að maður náði að telja nokkrum sinnum þennan morgun! En allt fór þetta vel og mikið var ég feginn þegar svo þessu lauk öllu um 17 á sunnudaginn. Sá lærdómur sem draga má af þessu er eftirfarandi: Þetta er nauðsynlegt og þakkarvert að foreldrar láti hafa sig út í þetta, en jafnframt alveg morgunljóst að þetta er ekki fyrir pabba sem komnir eru yfir 45! Að lokum má geta þess að við Þórsarar í 7. flokki C-1 unnum C-liða keppnina, spiluðum sex leiki, gerðum eitt jafntefli (við Þór C-2!) og unnum fimm leiki. Ekki er að efa að öflug liðsstjórn hafði sitt að segja í þessari velgengni.
fimmtudagur, 10. júlí 2008
Eplið og Eikin
Íranir virðast vera að vígbúast, enda vita þeir að helsta þrá Bush-stjórnarinnar er að fara í stríð við þá og ögranir og hótanir í þá veru eru nú búnar að standa yfir í tvö til þrjú ár. Eru menn að hissa á því að Íran hervæðist og að þeir vilji þróa kjarnorkuvopn? Mesta hernaðarveldi heims er að undirbúa stríð við þá og geta menn ætlast til þess að Íranir sitji hjá aðgerðarlausir? Al Kaídaliðum vex ásmegin, talibanarnir í Afganistan eru að ná sífellt stærra landsvæði undir sig, æ fleira fólk í Miðausturlöndum gengur öfgahyggjunni á hönd og stuðningur við brjálæðinga eins og bin Laden eykst bara. Eðlilega. Bandaríkjamenn vaða um þennan heimshluta á skítugum skónum og af sínum alkunna heimsveldishroka vilja deila og drottna þarna og verja hagsmuni sína með öllum sínum hernaðarmætti. Vegna stefnu Bush-stjórnarinnar er miklu ófriðvænlegra í heiminum nú en bara fyrir nokkrum árum. Versnandi samskipti við Rússland skrifast eingöngu á Bandaríkin. Nú ætla þeir að koma upp nýjum kjarnorkueldflaugastöðvum í Austur-Evrópu, í Tékklandi og Póllandi, þrátt fyrir hávær mótmæli Rússa sem líta á þetta sem beina ögrun við sig sem það er er auðvitað.
Ekki nema von að Osama kallinn kenni barnungum syni sínum á riffil, það eru sjálfsagt margir að þjálfa sig í því að halda á riffli og skjóta úr honum nú þegar Bandaríkin eru komin í fullan gang með að undirbúa langþráð stríð sitt við Íran.