mánudagur, 22. september 2008

Pabbi

Pabbi bernskunnar. Stór og sterkur,

opinn faðmur og hálsakotið hlýtt.

Ró, ró og rugga og brýna gogg.

Fikt í skeggbroddum og eyra.

Bjargið trausta.

Pabbi æskunnar. Ferðalögin mörg,

biðin eftir pabba heim úr vinnunni.

Hann var sá sem aldrei fór

en alltaf var, fyrir mig og hina.

Angan af hefilspónum og pípu.

Pabbalykt. Hún var svo góð.

Pabbi unglingsáranna. Fótboltinn í sjónvarpinu á laugardögum,

lifðum okkur inn í leikinn.

Báðir, saman.

Traustur, aldrei lasinn

hann var sá sem aldrei veiktist,

fordæmin gaf og alltaf til staðar.

Peningi laumað í lófa, orðalaust.

Pabbi fullorðinsáranna. Þras um pólitík

og bjástur við bátinn sinn.

Pabbi í horninu sínu umvafinn barnabörnum

með kókómjólk.

Grúsk í bókum og landakortum,

kaffi og jólakaka á borði.

Hann var fyrir mig og mína og alla hina,

mildur og hlýr,

traustur alla tíð.

Í minningu pabba sem dó 10. september 2008

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er fallegasta ljóð sem ég hef lesið =)

Þín dóttir Helena

Nafnlaus sagði...

Kæri Doddi.
Ég samhryggist þér innilega. Ljóðið er virkilega fallegt og lýsir Níels gamla, pabba, ákaflega vel.
Hugur minn er hjá ykkur,
Hjödda

Nafnlaus sagði...

Þetta er yndislegt ljóð Doddi minn
kv. stína