þriðjudagur, 30. desember 2008

Árið gert upp

2008. Annus horribilis. Árið sem mér var tilkynnt að ég yrði langömmubróðir!! Annað eftirminnilegt var að Guðrún útskrifaðist með láði frá HA í vor og ekki mátti á milli sjá hvort okkar var fegnara. Skin og skúrir skiptust á eins og gengur. Pabbi dó óvænt í september, maður átti alls ekki von á því þótt ekkert væri hann unglamb lengur, en ég hélt einhvern veginn að hann ætti eftir nokkur góð ár enn.

Þetta var árið sem 20 til 30 manns settu þjóðfélagið á hausinn. Allt það ömurlegasta við íslenskt samfélag hefur skotið upp kollinum á undanförnum mánuðum, nú er það flest orðið sýnilegt sem margan grunaði áður. Gjörspillt flokksræði og kunningjapólitík í bland við siðblindu, græðgi og hroka viðskiptalífsins. Ónýt stjórnvöld og lamaðar eftirlitsstofnanir, gagnslaust og niðurlægt Alþingi. Árið sem ég missti trúna á stjórnmálaflokkunum.

Samt stend ég fastar á því en fótunum að hér á landi býr upp til hópa gott fólk, vinnusamt, fólk með gott hjartalag, skapandi fólk og listrænt, dálítið óheflað og villt að vísu og við erum hreint ofboðslegir plebbar oft á tíðum, en góðir plebbar samt, og ágætlega gefnir þrátt fyrir heimskulega hegðun. En bernsk er þjóðin, það hefur hún sýnt og sannað svo margoft og illa siðmenntuð yfirhöfuð, enda stutt síðan fólk almennt var grálúsugt með hor í nös og bjó á tvist og bast útum allar sveitir, afdali og heiðar í hrörlegum og saggafullum torfbæjum. Venjulegar framfarir urðu ekki hér eins og víðast hvar annars staðar, við urðum bara allt í einu rík og var kippt inn í einhvern nútíma og hlupum yfir menningarskeið sem vörðu í aldir annars staðar. borgir og hellulögð stræti og torg. Sporvagnar og járnbrautir 19. aldar. Við hins vegar vorum bara á hestbaki alveg þangað til bíllinn kom sem síðan hefur átt hug okkar allan.

Nóg um það. Nú koma niðurstöður mínar:

Klúður ársins: Ríkisstjórnin, Davíð og Jónas FR.

Sjónvarpsþáttur ársins: Kastljós með Davíð og sjónvarpsávarp Geirs til þjóðarinnar 6. okt.

Hrollur ársins: "Guð blessi íslenska þjóð". Þarna varð ég hræddur, þetta minnti mig óþyrmilega á leiðtoga í ríkjum þar sem trúarofstæki og pólitík blandast saman sbr. í Bandaríkjunum, Íran og víðar.

Kjánahrollur ársins: Heimkoma silfurdrengjanna

Afrek ársins: Silfrið og kvennalandsliðið í fótbolta

Vonbrigði ársins: Samfylkingin, fyrir að vera sú drusla að fylgja ekki eftir innantómum hótunum um að víkja beri seðlabankastjórn og að láta Sjálfstæðisflokkinn stela af sér frumkvæði í ESB-málunum. Ekkert mun heldur breytast hér, sama liðið heldur áfram að véla um öll okkar ráð hér eftir sem hingað til

Skúrkar ársins: Allt heila helv. draslið; Seðlabankinn, Sjálfstæðisflokkurinn, ríkisstjórnin, Fjármálaeftirlitið, bankarnir og viðskiptadúddarnir

Hneyksli ársins: Að Davíð hefur enn ekki verið rekinn. Jónas Fr. hefur enn ekki verið rekinn, ríkisstjórnin situr enn, að enginn þykist bera ábyrgð, Hannes Hólmsteinn Gissurarson gengur ennþá laus

Græðgi ársins: Viðskiptadúddarnir og bankastjórarnir, árangurstengdu launin, svikamyllurnar við fyrirtækjakaup, kaupréttarsamningarnir osfrv.

Spámenn ársins, bæði í sínu föðurlandi og annars staðar: Þorvaldur Gylfason sem ítrekað benti á hvert við værum að sigla með þessa skrípamynd af kapítalisma allt þetta ár og það síðasta líka í fjölmörgum greinum í Fréttablaðinu. Danski blaðamaðurinn hjá Ekstrablaðinu sem hakkaði útrásarvíkingana í sig og sagði þá tóma djöfulsins svindlara sem þeir reyndust svo vera

Undrun ársins: Ekki enn búið að reka Davíð og Jónas Fr. og fleiri og Hannes Hólmsteinn gengur ennþá laus.

Hroki ársins: Davíð Oddsson, ræðan á fundi Verslunarráðsins

Fylgisspekt ársins: Fylgisspekt Geirs við Davíð snýst ekki um pólitík, heldur er dulsálfræðileg stúdía

Staurblinda og afneitun ársins: Geir og Davíð

Taktleysi ársins: Stulli brjál og trukkaramótmælin. Athyglissjúkur vörubílstjóri og kollegar hans reyndust aðeins vera að mótmæla því að fá ekki að keyra stanslaust og hvíldarlasut um þjóðvegi landsins á annað hundrað kólómetra hraða á klukkustund, já engar helv. ESB-reglur hér!! Og líka þegar þessir hálfvitar mættu á þingpalla til að baula, en þá óvart voru Alþingismenn að samþykkja að auka þróunaraðstoð við fátækan heim.

Nöldrari ársins: Ég

Kommentari ársins í hesthúsinu: Stína

Ég er samt ekki sú rót að ég óski ekki landsmönnum öllum árs og friðar og það geri ég af hjartans einlægni, líka þeim Davíð, Hannesar jafna og Hannesi Hólmsteini og öllum hinum. Guð blessi ykkur!

mánudagur, 29. desember 2008

Pólitísk stórtíðindi í vændum

Vonandi hafa allir haft það gott um jólin, það höfðum við allavega. Nóg af mat og ýmsu öðru munngæti. Bækur, konfekt og jólaöl (malt og appelsín) er ómissandi líka. Var að ljúka við Ofsa Einars Kárasonar sem mér fannst góð og nú er að leggja í Hallgrím eftir Úlfar Þormóðsson, þann gamla guðlastara og blaðamann. Sú bók hefur fengið mjög misvísandi gagnrýni, ekki bara eintómt lof eins og bók Einars.

En að öðru. Pólitískra stórtíðinda er að vænta hvað úr hverju. Guðrún, húsfreyjan hér í Snægili og spúsa mín elskuleg, dreymdi nefnilega draum sl. nótt. Guðrúnu þótti sem hún hefði verið á pólitískum fundi þar sem tilkynnt var um að stjórnin hefði sprungið og ný væri í burðarliðnum með Samfó, Vg og framsókn. Þetta er merkilegt því mín kona fylgist ekki svo gjörla með pólitík og hún er berdreymin eins og svo margir í hennar ætt. Þannig að nú bíður maður eftir tíðindunum, enda má treysta þessu tel ég.

miðvikudagur, 24. desember 2008

Gleðileg jól

Við heiðurshjónin hér í Snægilinu sem sjá má á myndunum hér óskum landsmönnum gleðilegra jóla, árs og friðar. Megi helgi jólanna og friður fylgja okkur öllum inn í nýárið.


sunnudagur, 21. desember 2008

Guðs kristni í Snægili

Ég er eyðilagður maður núna. Missti af messunni í morgun, en við Helena ætluðum að mæta fjórða sunnudaginn í röð til að hlýða á guðsorð og fagran söng. Já, maður hefur verið sérlega trúrækinn þennan mánuðinn og þessar stundir hafa bara verið ágætar. Að vísu villtumst við óvart inn á uppskeruhátíð sunnudagsskóla Akureyrarkirkju síðustu helgi. Við hugðum að þar færi fram messa með hefðbundnu sniði, forspil og "náðin sé með yður", sálmar, fyrir og eftir ritningarlestur, trúarjátningin og faðirvorið í lokin. Þannig var þetta í messunum í Glerárkirkju, fyrst hjá síra Gunnlaugi og svo hjá Síra Arnaldi.

Í Akureyrarkirkju mætti okkur mikill fjöldi fólks og börn í áberandi meirihluta. Hva, voða aðsókn er þetta? Heyrðu, er þetta ekki Valur frændi þarna prúðbúinn á kirkjkubekk með sálmabók í hönd? Jú, ekki bar á öðru og Hafdís með honum. Detti mér nú allar dauðar lýs úr höfði! Auðvitað var eðlileg skýring á þessu. Snædís Ylva var þarna með kór Lundarskóla sem söng engilblítt og svo fór nú gamanið að kárna. Séra Sólveig Halla leiddi þessa samkomu og hún var ekki einu sinni í búning (hempu) og þá fór mér að skiljast hvar ég var lentur. Æi nei, hún ætlar að taka "Ég vil líkjast Daníel og ég vil líkjast Rut" með viðeigandi fíflagangi. Karlmenn standa upp og vilja líkjast Daníel af því að hann er fylltur hetjumóð og svo sest maður niður og kvenfólk stendur upp því það vill líkjast Rut af því að hún er svo sæt og góð (hugguleg sýn á kynhlutverkin eða hitt þó!) Svona gekk þetta í drjúga stund, upp og niður og mér leið asnalega, er hreint ekki fyrir svona fyrirgang. Helena hló að mér því hún sá hvernig mér leið. En ég gat nú hlegið að henni líka loks þegar þessari samkomu var lokið. Hún spurði mig nefnilega hvers vegna Valur hefði verið þarna. Hafði einhvern tímann frétt af því að hann væri ekki í Þjóðkirkjunni og jafnvel ekki kristinn heldur. Nei, nei, hann er það ekki segi ég. Hún: "Bíddu, er hann þá gyðingur"?

Ekki veit ég hvað Valur segir um þetta, en hann er örugglega ekki gyðingur og verður það aldrei, en gyðingatrúar gæti hann verið eða orðið en tel það afar ósennilegt. Það er gaman að þessu, hún segir alltaf eitthvað á hverjum degi sem kætir mig. Um daginn var hún að rifja upp nafnið á hljómsveitinni Hvanndalsbræður og mundi það ekki. "Æi, hvað heita þeir nú aftur, jú þarna, eh, Betlehemsbræður já"!

föstudagur, 19. desember 2008

Ungu anarkistarnir

Halda áfram að mótmæla, þeir krefjast afsagnar ráðamanna í ríkisstjórn, seðlabanka og fjármálaeftirliti. Þeir vilja að hreinsað verði úr skilanefndunum, en þar starfa ýmsir sem voru á bólakafi í spillingunni í gömlu bönkunum og eiga núna að véla um öll þau glæpaverk sín og vina sinna. Ungu anarkistarnir eru farnir að brjóta rúður. Hvað ég styð þá heilshugar! Það tjón er næstum óendanlega minna en bankarnir og allt hitt dótið sem ég nefndi áðan hafa valdið þjóðinni mörg ár fram í tímann.

Mér líður eins og ég sé staddur í súrrealískri mynd eftir Fellini, ástandið er óraunverulegt og fáránlegt. Til dæmis það að enginn, ekki nokkur einasti maður, hefur séð hina minnstu ástæðu til að segja af sér. Reikningurinn vegna Ice-save málsins og skyldra mála hefur verið sendur þjóðinni og hann er á annað þúsund milljarða! Hér er stofnun sem heitir Fjármálaeftirlitið og yfir henni er einn af flokkshundum Sjálfstæðisflokksins, Jónas Fr. Jónsson. Ætli honum finnist ekki vont að vera yfir stofnun sem heitir svo gegnsæju nafni? Eftirlit með hverjum andskotanum?

miðvikudagur, 17. desember 2008

Skókastið

Það var alveg bráðfyndið að sjá skókastið hjá írakska blaðamanninum í Bagdad í gær. Bush til hróss má þó segja að snöggur var hann að átta sig og vék sér fimlega undan táfýluskóm arabans. Svipurinn á W var kostulegur, hann var svona álíka aulalegur og hjá Bush-eftirhermunni í Jay Leno þáttunum, en hann gerði nú bara gott úr þessu. Sennilega er hann alltaf viðbúinn, veit að margir vilja kasta skóm í hann, jafnvel drepa hann með þeim eða einhverju öðru. Sjálfur hefur Bush þúsundir mannslífa á samviskunni þarna í Írak og mér finnst leiðinlegt að blaðamaðurinn hafi ekki náð að hitta hann, fékk þó tvær tilraunir til þess. Og nú er búið að handtaka hann. Ætli hann hafi fengið skóna sína til baka?

föstudagur, 12. desember 2008

Saga úr fermingarfræðslunni

Helena Rán á að fermast í vor. Hún gengur til prests einu sinni í viku og fær fræðslu um kristna trú og fleira. Eins og títt er um fólk á hennar aldri, er hún farin að efast um margt sem boðað er og blessuð börnin spyrja prestana og vilja fá svör við ýmsum spurningum. Um daginn var hún í tíma hjá síra Arnaldi (sem betur fer ekki hjá klerkinum Gunnlaugi) og til umfjöllunar var hið kristna viðhorf og kenning Jesú um að "bjóða hinn vangann" og að elska óvini sína. Helena var ekki alveg sátt við hugmyndafræðina sem felst í þessu og spurði: "segjum að einhver nauðgi konu framan frá, á hún þá bara að bjóða honum að nauðga sér aftan frá?"

Síra Arnaldi féllust hendur skilst mér, en var held ég ekkert að erfa þetta við hana enda eru þau, væntanlegt fermingarbarn og klerkurinn Arnaldur, búin að uppgötva eitt sem þau eiga sameiginlegt, en það er aðdáun á hljómsveitinni Genesis. Þannig að Helena er hólpin

miðvikudagur, 10. desember 2008

Amen

Amen sagði Pedersen. Enda varla hægt annað. Amen er hebreska og þýðir sannlega eða megi svo verða. Í elstu textum Gamla testamentisins frá öðru árþúsundi fyrir Krist má finna þetta orð. Eftir að menn höfðu ákallað Guð og beðið til hans var sagt amen. Kristin trú viðhélt þessum sið. Allar kirkudeildir nota amen til að ljúka bænum, hvort sem um er að ræða kaþólsku kirkjuna, rétttrúnaðarkirkjuna eða mótmælendakirkjur. Upphafssúran í Kóraninum heitir Al-Fatiha sem er sambærileg og Faðirvorið í kristni vegna svipaðrar notkunar og innihalds. Þeirri bæn ljúka múslimar á orðinu "’Āmīn" sem þýðir það sama og hið gyðinglega og kristna amen. Amenið er annars mjög mikilvægt fyrir múslima því eitt af nöfnum Múhameðs í Kóraninum er al Amin. Í hindúisma er orðið "astu" sagt þegar bæn eða fræðslu um trúna er lokið. Það þýðir það sama: So be it, megi svo verða.

Allra síðasta orð Biblíunnar, í Opinberunarbókinni í Nýja testamentinu, er einmitt Amen.

laugardagur, 6. desember 2008

Súpa, sápa og hjálpræði

London árið 1865. Ein fjölmennasta borg veraldar með strætum og torgum, höllum og lystigörðum og glæsta sögu. Bretland sat í hásæti heimsins og London var höfuðborg hans. Þarna var breska parlimentið, fyrirmynd annarra sem á eftir fylgdu. Þarna bjuggu margir af helstu andans mönnum upplýsingarinnar sem höfðu mannúð og mildi að leiðarljósi. Breska siðmenningin var kórónan í heimsmenninguni. Bretar störtuðu iðnbyltingunni og þar með kapítalismanum. Þeir réðu heimsversluninni og á þessum tíma laut 1/4 hluti heimsins beinni eða óbeinni stjórn þeirra. Sagt var að sólin hnigi aldrei til viðar í breska heimsveldinu. Yfir öllu þessu sat svo Viktoría drottning sem ríkti í 70 ár og öldin var líka við hana kennd. Bretar lögðu undir sig lönd og álfur og arðrændu nýlendur sínar um leið og þeir reyndu að kristna þær. Hráefni var flutt í stórum stíl til Bretlands þar sem að það var fullunnið í alls kyns varning sem var svo seldur út um allan heim. Bretland var kallað verkstæði heimsins. Í London safnaðist meiri auður en dæmi voru áður um í veraldarsögunni. En, nokkuð var auðnum misskipt reyndar.

Viktoríutímabilið. Tímabil hins tvöfalda siðgæðis. Æskilegt var að karlmenn hefðu einhverja reynslu af kynlífi áður en þeir kvæntust. Konur máttu ekki sjást einar á götu nema þær væru ekkjur og það mátti aldrei sjást í bert hold nema svona rétt í andlitið. Þær voru reyrðar í lífstykki og með hneppt upp í háls og það mátti ekki einu sinni sjást í úlnliðina. Þær urðu líka að vera hreinar meyjar þegar þær giftust. Aðeins ein lausn var á þessari mótsögn. Vændi. Það var óhemju útbreitt á þessum tíma og eina von margra kvenna og ungra stúlkna til að lifa af. Fátækrahverfin voru yfirfull af fólki, saur og þvag rann eftir þröngum götunum, þefurinn sjálfsagt óbærilegur. Glæpir og þjófnaðir áberandi, sjúkdómar grasseruðu og meðalaldur var lágur í þessum hluta borgarinnar. Vannærð börn ráfuðu um í leit að mat. Menn deyfðu sig með því að þamba ódýran bjór, börn sem fullorðnir.

Það var í þessum hluta borgarinnar ríku sem hjónin Catherine og William Booth fóru að vinna hjálparstarf sitt sem að lokum leiddi til The Salvation Army eða Hjálpræðishersins. Þau vildu breiða út fagnaðrerindið en voru nógu víðsýn til að átta sig á því að ekki þýddi að boða orð Drottins fólki á fastandi maga. Svangur maður þarf ekki helst á guðsorði að halda, hann þarf að fá að borða. Maður sem hefur gert þarfir sínar í buxurnar vegna vesældar sinnar þarf ekki fyrst á guðsorði að halda. Hann þarf fyrst að fara í bað svo hann öðlist sjálfsvirðingu sína aftur. Þegar grunnþörfunum hefur verið fullnægt má ræða um guðsorðið. súpa, sápa og hjálpræði - í þessari röð. Allar götur síðan hefur þessi þarfa hreyfing starfað í þessum anda.

Herinn lætur sér annt um þá sem allra helst höllustum fæti standa í samfélaginu, hér sem annars staðar þar sem hann starfar. Samt hefur þessi hreyfing orðið fyrir aðkasti og háði af mörgum í gegnum tíðina, þar á meðal mér. Nægir að nefna Halldór Laxness og Stein Steinarr svo maður nefni einhverja fræga í því sambandi. Mærðarlegur söngurinn og gítargutlið, kannski ofstæki í sumum hermönnum á fyrri tíð. Búningarnir fóru einhvern tímann í taugarnar á mér og þessi hermennskuandi sem mér fannst fráhrindandi. Heiti hreyfingarinnar, búningarnir og sú staðreynd að safnaðarmeðlimir kalli sig hermenn og leiðtogar kafteina á ekkert skylt við hernað í venjulegri merkingu þess orðs. Hernaður hefur yfirleitt eða alltaf það markmið að ríki vill auka völd sín og áhrif og það kostar dráp á mönnum. Hroki, græðgi, valdasýki og hatur eru því undirliggjandi í þeim stríðum. Trú er sjaldan ástæða fyrir stríðum en hún er notuð sem bensín og skálkaskjól fyrir önnur og veraldlegri markmið og hentar oft vel til slíks.

Meðlimir Hjálpræðishersins vilja berjast við hið illa í heiminum og kjósa að líta á sig sem hermenn í þeirri baráttu. Hið illa er ekki einhver skratti með klaufir og horn og þrífork í hendi með brennisteinsfnykinn í kringum sig, heldur er það misskiptingin í heiminum, fátæktin og sjúkdómarnir og græðgin og yfirleitt allt það sem stuðlar að félagslegu óréttlæti. Þess vegna ber ég mikla virðingu fyrir hernum og starfi hans.

fimmtudagur, 4. desember 2008

Derby County FC

Langaði að vekja athygli ykkar, Stína og fleiri, á því að hinn fornfrægi klúbbur, Derby County, stofnaður árið 1884, er kominn í undanúrslit í deildabikarkeppninni ásamt Burnley og einhverjum öðrum júðum sem ég hirði ekki að nefna, enda verður það aðeins formsatriði fyrir mína menn að ljúka þessari keppni með stæl og yrði það þá fyrsta alvöru dollan síðan Englandsmeistaratitlinum var landað árið 1975 sællar minningar þegar Hector, Hinton, Gemmil og Macfarland voru upp á sitt besta. Fyrir áhugasama, t.d. Stínu, má kíkka á ágæta síðu hér sem segir sögu klúbbsins og auk þess skemmtilegar myndir frá þróuninni í búningi liðsins.
Já, Hrútarnir (gælunafn Derby) eða The Rams, eru kannski ekki bestir, en þeir eru mestir og þeirra tími fer senn að koma.

mánudagur, 1. desember 2008

Éttann sjálfur!

Vg er samkvæmt Gallup orðinn stærsti stjórnmálaflokkur landsins! Skallagrímur gat heldur ekki leynt brosinu, enda er hann örugglega sama marki brenndur og aðrir stjórnmálamenn í hinum flokkunum sem hugsa um flokkshag fremur en þjóðarhag. Hér er nefnilega ekki lýðræði, heldur flokksræði. Öll pólitík hér á landi snýst um flokka og flokkslínur, flokksaga og flokksterror. Spillingin á sér farveg í gegnum flokkana sem veita henni skjól. Fyrirgreiðslur og frami í samfélaginu verður fyrir tilstilli flokkanna sem eru eins og frímúrarareglur með leynifundum í reykfylltum bakherbergjum þar sem ekkert má fréttast. Sumir stjórnmálaflokkar eru vissulega verri en aðrir hvað þetta varðar.

En Steingrímur má vel við una og flokkur hans. Ég held að þetta sé nú fyrst og fremst óánægjufylgi sem er að sópast að Vg, ekki að menn séu svo mikið hrifnir af þeim flokki, heldur fyrst og fremst hundóánægðir með stjórnarflokkana.

Það lá við að ég léti skrá mig í Vg hérna um árið þegar Steingrímur kallaði Davíð "druslu og gungu", og ekki minnkaði hrifning mín á honum um daginn þegar hann gekk ógnandi að Birni Bjarna sem var eitthvað að gjamma í ræðustól og var heldur ógnandi í framkomu svo að Birni fipaðist heldur betur og bjóst við að fá á lúðurinn. Þá hló ég, Björn svona skíthræddur í ræðustól og tafsaði bara eitthvað með sköllótta brjálæðinginn frá Þistilfirði beint fyrir framan sig. Bara að hann hefði látið það eftir sér og barið hrokann ofan í dómsmálaráðherrann í staðinn fyrir að ýta við Haarde.

En, það verður fróðlegt að fylgjast með fylgi flokkanna á næstunni, þeir eru flestir að snúast á sveif með Samfylkingu í Evrópumálunum, jafnvel Vg líka. (Ögmundur nú síðast ásamt um og yfir 50% af stuðningsfólki flokksins samkvæmt nýlegri skoðanakönnun) Þó ekki Steingrímur sem ennþá lemur skallanum við stein og vill ekki, ekki frekar en Davíð og Geir, einu sinni kanna möguleika okkar í samstarfi 27 Evrópuþjóða sem flestar, ef ekki allar, sjá hag sínum betur borgið innan sambandsins en að standa utan þess. Það er ótrúleg þrjóska og í raun ófyrirleitin skammsýni að hafna því fyrirfram að okkur muni vegna betur með aðild að Evrópusambandinu. Við vitum ekki hvaða kostir bjóðast okkur fyrr en að loknum aðildarviðræðum, hvað tillit verður tekið til séraðstæðna okkar osfrv. Allar umræður um kosti og galla verða marklausar í raun þangað til menn láta af þessu trúaratriði, að vilja ekki ræða þessi mál.