föstudagur, 29. ágúst 2008

Strákarnir okkar


















Þarna eru þeir, strákarnir okkar í landsliðinu í handbolta. Ólafur "bíp" Stefánsson heimspekingur er í 3. röð og tröllið með barnshjartað er þarna líka, svo og Guðjón Valur, sonur vindsins og allir hinir. En ég vissi ekki að það væru svona margir í landsliðinu og svo er alltaf talað um þennan 15. mann sem aldrei fékk að vera með aðalgæjunum. En hvað með alla hina sem eftir eru? Hvað voru þeir að gera og því vorkennir enginn þeim? Ég gúglaði þessa mynd eftir leitarorðunum "strákarnir okkar" og fékk bara eitthvað svona. En myndin er flott og þarna er vaskur flokkur danskra soldáta sem mér sýnist að sé nýbúinn að fá gráðu í fínum herskóla og hefur stillt sér upp til útskriftarmyndatöku fyrir framan skólann sinn. "Vores drenge".

Silfurdrengirnir fengu glæsilegar móttökur og allt var það við hæfi og verðskuldað, jafnvel þótt á köflum væri farið yfir strikið. Maður fékk kjánahroll nokkrum sinnum, en það var bara þægileg tilfinning, manni jafnvel vöknaði um augun á nokkrum augnablikum í þessari viðamiklu útsendingu sjónvarpsins sem Bogi þreyttist ekki á að minna okkur áhorfendur á með reglulegu millibili frá kl. 16 til 20.
Hæstvirtur íþróttamálaráðherra fannst mér fullmikið áberandi í sambandi við afrek landsliðsins. Hún á ekkert í þesum sigrum en var einhvern veginn í aðalhlutverki í fjölmiðlum þennan dag og suma aðra daga líka. Og hvað var ríkisstjórnin að gera upp á sviði í Lækjargötunni þegar liðið var svo hyllt? Ríkisstjórnin stóð bara þarna eins og asni með ekkert hlutverk nema náttúrulega Þorgerður Katrín. Það var bjánlegt. Þrátt fyrir hroll tók ég undir í "Öxar við ána" og furðulegt að ekki sé fyrir löngu búið að gera það lag að þjóðsöng Íslands. Lagið er einstaklega vel fallið til að hræra upp í þjóðernistilfinningunum þrátt fyrir að vera hálfgerður hergöngumars og textinn segir allt sem segja þarf, "...skundum á Þingvöll og treystum vor heit. Fram, fram, aldrei að víkja, fram, fram, bæði menn og fljóð. Tökum saman höndum..." osfrv. Sá sem finnur ekki til þjóðerniskenndar og brynnir músum við að syngja þetta lag við raust er bara plebbi og ætti að flytja til útlanda og hana nú!!

Svo var orðuveitingin á Bessastöðum skemmtileg og í fyrsta sinn sem maður fær að sjá slíkt í beinni útsendingu. Þeim fannst þetta greinilega sumum orðið eitthvað súrrealískt, t.d. sjálfum Ólafi Stef, sem fékk stórriddarakross og var kindarlegur á svipinn. Þeir voru þakklátir og hrærðir eins og vera ber og Rússajeppinn grét og það ekki í fyrsta skipti þennan dag. Aðeins einn úr þessu liði var öðruvísi stemmdur. Það var Logi Geirsson geldrengur. Hann leit ákveðnum augum á forsetann með óræðu glotti og þakkaði fyrir sig upphátt svo að vel heyrðist. Svo fengu menn sér bara í glas á Bessastöðum og eflaust hafa þeir upplifað mikið spennufall eftir allt þetta stand þennan dag og brugðið á það ráð að fara á skallann, það hefði ég gert.

mánudagur, 25. ágúst 2008

Allt að gerast

Kennslan komin í fullan gang og ég var að ljúka störfum núna klukkan rétt að ganga sjö og ég verð því miður að taka verkefni með mér heim. Ég er að kenna 31 tíma og sinni auðvitað, eins margir, alls kyns aukastörfum líka sem taka tíma frá manni sem annars hefði farið í undirbúning kennslunnar. En ég væli ekki undan vinnu, ég væli bara undan launum sem mættu vera hærri og í einhverju samræmi við vinnuálagið.

Það verður bara eintóm sæla framundan. Öll þessi vinna og þessi endalausu þrif á heimilinu og þref við börnin um heimanámið, matur og frágangur eftir hann, meiri þrif og þvottur. Svo að koma liðinu niður, í háttinn á kristilegum tíma (ég tala eins og sjö barna faðir, en stundum finnst mér það miðað við útgjöld heimilisins og fjöllin af þvotti sem safnast upp dag hvern). Þegar þessu öllu er lokið (eins og í piparkökusöngnum!) á maður oftar en ekki eftir að vinna eitthvað og það þarf auðvitað að smyrja nesti fyrir morgundaginn og svo reyni ég yfirleitt að ná helgistundinni sem eru 10 fréttirnar kl. 23 á bestu sjónvarpsrás heims, rúv +. Og ef maður er ekki þegar orðinn örendur að veðrinu loknu er kíkt í bók, kannski svona 10 bls. Já, það er gaman að vera kominn í rútínuna aftur. Segi það enn og aftur sem löngum hefur verið vitað að Arbeit macht frei!

miðvikudagur, 20. ágúst 2008

Berjadagar


Menn gera töluvert af því að ganga úr flokkum þessa dagana og jafnvel í þá aftur. Ólafur F, sá mikli píslarvottur og misskildasti stjórnmálamaður frá upphafi vega, er genginn í Frjálslynda flokkinn aftur. Það einhvern veginn hentaði núna. Enginn veit af hverju hann gekk úr honum á sínum tíma og öllum er líka nákvæmlega sama. Það er ekkert tiltökumál að segja skilið við stjórnmálaflokk, oft geta legið gildar ástæður til þess eins og málefnaágreiningur og afstöðumunur í prinssippmálum. En ætli reyndin sé ekki oftar sú að menn ganga úr flokkum út af einhverri fýlu og af því að þeir fengu ekki nógu gott sæti í prófkjöri eða að menn telja að þeir hafi ekki fengið þá bitlinga frá flokknum sem þeir töldu sig eiga skilið. Kristinn R. er gott dæmi um slíkan stjórnmálamann og myndi ganga í Sjálfstæðisflokkinn ef hann teldi að það veitti sér pólitískt brautargengi. Marsibil er farin úr Framsókn og það get ég vel skilið miðað við atburði síðustu daga og það hafa fleiri gert af þeim lista, en ein kona er gengin í flokkinn aftur. Hún fór í fýlu út af Birni Inga á sínum tíma og sagði sig úr flokknum en er snarlega genginn í hann aftur af því að hún á von á bitlingum núna nokkuð óvænt því hún var í 5. eða 6. sæti á listanum.

Allt er hægt að kaupa , líka stjórnmálamenn. Óskar Bergsson er pólitísk skækja og seldi sig eins og mella fyrir vænan bitling. Sjálfsagt eru flestir falir á þennan hátt, bara ef nógu miklir peningar eru í boði. Annars ætlaði ég alls ekki að byrja á svona röfli og læt þessu hjali lokið. Skólinn byrjaður og í dag var fyrsti starfsdagur og annar á morgun og svo byrjar ballið endanlega á fimmtudaginn.

Að hægðum. Ég stakk upp á því að breyta þessu bloggi í hægðadagbók og hef ekki í annan tíma fengið betri hugmynd þótt ég segi sjálfur frá. Það yrði frumlegt, öðruvísi en önnur blogg og hróður þess myndi hugsanlega aukast fyrir vikið. Nú, þá er frá því að segja að við fórum í ber í fyrradag og síðan hafa þau verið í matinn ásamt hrásykri og rjóma bæði í hádeginu og á kvöldin og er ekki að spyrja, hægðir hafa verið með greiðasta móti hjá mér, en ekki að sama skapi vel formaðar. Ég mun að sjálfsögðu halda lesendum upplýstum um þessi mál á næstunni.

laugardagur, 16. ágúst 2008

Fjölgun í fjölskyldunni

Hreiðurdrúturinn fagnaði 8 ára afmæli sínu í dag og bauð til sín fjölda gesta. Sem betur fer áttu ekki allir heimangengt og því voru bara 8 eða 9 strákar hér. Það var ansi fjörugt og á köflum fullmikill hávaði fyrir minn smekk, enda hótaði ég því að henda þeim öllum út þegar þeir fóru að rífast um leikjatölvuna. Veitingar voru hinar bestu. Móðir afmælisbarnsins og eldri systir hans stóðu í ströngu kvöldið áður við að baksa og baka svo á endanum sýndist mér þetta stefna í þokkalega fermingarveislu. Hvernig veður þetta þegar hann verður 10 ára?

Ætli sé ekki best þá að gera grein fyrir fyrirsögninni. Frau Blucher er ekki með barni svo vitað sé. það er þá allavega ekki fyrir minn tilverknað, enda hafa læknavísindin því fyrir komið með þartilgerðri aðgerð á undirrituðum fyrir nokkrum árum að örðugt yrði um vik. Katrín er kona einsömul að því er ég best veit og það er heldur enginn verulega óléttur í fjölskyldunni samkvæmt mínum upplýsingum. Hins vegar flutti inn á okkur í dag lítill stubbur sem ég líklega ættleiði á endanum. Hann heitir Birkir og er stökkmús úr dýrabúðinni í Húsasmiðjunni. Kvikyndið fékk Nikulás sem sagt í afmælisgjöf frá Árna og Kötu og menn geta rétt ímyndað sér hversu glaður væntanlegur afi varð, þ.e. ég. Fyrir er auðvitað naggrís að nafni Yasmin og ég hélt að það væri nóg. Nikulás valdi þetta undarlega músarnafn, ekki veit ég hvers vegna, en hann var ákveðinn, Birkir skal hann heita. Nú veit enginn hvers kyns músin er, enda er þetta bara örlítið kríli og ekki að búast við að nokkuð sjáist þarna undir honum í bráð. En til að flækja þetta ekki sögðum við að þetta væri "strákur".

Ekki nenni ég að tjá mig um Reykjavíkurpólitík hér eða annað, þetta er bara að verða að einhverju sjálflægu heimilisbloggi, enda er það sjálfsagt það sem vinir og ættingjar vilja lesa, ekki enn eina greinina um það hversu mikið fífl ég telji að þessi eða hinn sé. Bráðum fer ég að halda dagbók um hægðir mínar og ég efa ekki að menn (og konur) myndu fylgjast spennt með. Maður fer hvort sem er að nálgst þann aldur þegar lífshamingjan snýst um það hversu góðar og vel formaðar hægðir maður hefur.

En ykkur er velkomið að heilsa upp á Birki hvenær sem er og kjá framan í hann og "sjá hvað hann er dætur".

mánudagur, 11. ágúst 2008

Aftur í hversdagslífið

Við erum komin heim eftir fína viku á Laugarvatni. Nokkuð heppin með veður, suma daga skein sólin og hitinn um 20 gráður þegar best lét. Fórum víða um Suðurlandið, en náðum samt að slappa vel af og sofa mikið. Það fór enginn á fætur fyrir kl. 10 þessa daga, enda ástæðulaust þegar maður er í fríi og meiningin að slaka á. Fórum tvisvar niður á Selfoss og fórum í bíó og tókum hús á vinum okkar þar sem buðu í mat og ég fékk sérstakan sightseeing um plássið frá Kjartani fyrrum kollega sem segir að Selfoss sé bær í sókn og líklega er það rétt hjá honum, a.m.k. virðist meiri uppbygging þar og fjölgun íbúa heldur en hér á eyrinni.

Við skoðuðum flesta skylduga túristastaði þarna um slóðir, Geysi og Gullfoss, Þingvelli og Skálholt og einn daginn fórum við niður á "Stokkseyrarbakka" eins og segir í einum Stuðmannatexta. Svo var líka bara fínt að vera á Laugarvatni. Fórum í sund flesta daga og einu sinni leigðum við báta og rérum út á vatnið. Busluðum líka í vatninu og tókum jafnvel sundsprett, enda vatnið á köflum nokkuð hlýtt. Við sötruðum hvítvín á kvöldin og spiluðum alls kyns fjölskylduspil, lásum, spjölluðum og rifumst lítið. Sem sagt, allt ákaflega huggulegt og kristilegt nánast. Gaman líka að vera öll saman fjölskyldan, því Kata kom með, bað raunar um það (öðruvísi mér áður brá!), en það var frábært að hafa hana með.

Á laugardaginn var "Hýrark" eða Gay pride gangan í Reykjavík (ekki á laugarvatni!) og ég sá það fyrirbæri nú í fyrsta skipti og var skíthræddur um að ég myndi uppgötva hommann í mér við að sjá öll herlegheitin, en sem betur fór gerðist ekkert slíkt. En þetta var nú meira fríksjóið, þessi ganga og á einhvern hátt bjánaleg finnst mér. Hef samt ekkert á móti samkynhneigðum og styð réttindabaráttu þeirra af heilum hug. Þetta er samt þeirra dagur og það er hið besta mál. Svo um kvöldið fórum við til Stokkseyrar, á uppáhaldsresturantinn hans Ólafs Ragnars, ásamt Höllu sem útskrifaðist fyrr um daginn frá Keili, Stínu chick afmælisbarni, Þóru tengdamúttu, Pétri og Ellen. Þar gröðkuðum við í okkur humar sem var mikið hnossgæti og mátti líka vera það, enda var þetta andskotanum dýrara! Keyrðum svo til Ak. í gær og lífið strax orðið hversdagslegt sem er auðvitað ágætt líka. Kannski ekki svo hversdaglegt, því það er mikið um að vera í sjónvarpinu þesa dagana. Ég ætla að horfa á nokkra handboltaleiki og ekki má ég heldur láta hjá líða að sjá nokkra spennandi leiki í strandblaki kvenna, þeirri göfugu íþrótt, en það er einmitt leikur í nótt, kl. 03.30. Góðar stundir.

föstudagur, 1. ágúst 2008

Skattakóngur á leið í frí

Það fór eins og bjóst við, líkt og í fyrra, að Hreiðar Már Kaupþingsbankastjóri verður að gjalda keisaranum töluvert meira en ég þetta árið. Samt slæ ég met á hverju ári. Tekjurnar vaxa og vaxa og við heiðurshjón höfum aldrei borgað jafnmikið í skatt og þetta árið, en því miður, þrátt fyrir vaxandi tekjur, hafa skuldir okkar aldrei verið meiri. Viðbúið að lánshæfismat okkar versni og ég tala nú ekki um skuldatryggingarálagið, það hækkar og hækkar og þeir hjá Moodey´s hljóta að hafa þungar áhyggjur af efnahagslífinu hér í Snægili 14. Hvað er til ráða? Strætó og reiðhjól til dæmis, rækta rófur, selja ritsafn Laxness og allar LP plöturnar, skynsamlegri innkaup og HÆTTA að versla í 10 - 11 og Strax. Bara það síðastnefnda myndi hafa mikil áhrif á efnahagsreikning heimilisins. Ég ætla að benda þeim hjá Moodey´s og Standard and Poor´s á þessi ráð. Ég er þó að gera eitthvað, með einhverjar áætlanir og fyrirætlanir, annað en þessi ríkisstjórn okkar sem gerir ekki rassgat í bala og er bara í fríi á sama tíma og allt er á leiðinni til andskotans. Verðbólgan æðir áfram og atvinnuleysi eykst hröðum skrefum, enda gjaldþrot og uppsagnir í gangi og það á eftir að versna þegar líður á árið.

Hreiðar Már áðurnefndur á samt samúð mína. Þrátt fyrir að hafa sigrað mig í skattakeppninni borgar hann helmingi minni skatt nú heldur en í fyrra. Þýðir það ekki að tekjur hans hafa lækkað um helming? Þetta er hræðilegt, að missa helming tekna sinna frá síðasta ári og margur mundi ekki þola það. Kæmi það fyrir mig yrði ég ekki bara settur á bæinn, heldur sóttur hingað í Snægilið af sýslumanni og fógeta og fluttur í böndum á Kvíabryggju og látinn þræla þar fyrir skuldum. En eitthvað er bogið við þetta allt saman. Hreiðar var hryggðin uppmáluð í sjónvarpinu í kvöld út af efnahagsástandinu, samt skilaði bankinn um 30 milljarða hagnaði fyrstu mánuði ársins!! Hverjar eru áhyggjurnar? Að gróðinn fari úr trilljón niður í skrilljón? Hvað ætli þjónustufulltrúar Hreiðars Más og Sigurjóns Árnasonar í Landsbankanum heiti? Minn heitir Helga og situr í Landsanum á Húsavík og við eigum viðræður, vinsamlegar að sjálfsögðu, um fjármál einu sinni í mánuði og svo hefur verið um ansi langt skeið. Hvenær skyldi maður komast út úr þeim pakka? Kannski væri liður í því að bankarnir (Heyrið það Hreiðar og Grjóni!) lækki vexti og afnemi þjónustugjöld ýmis konar, t.d siðlaus stimpilgjöld og FIT kostnað sem sumir lögfræðingar segja að sé alveg kolólögleg aðgerð bankanna sem þar með taka sér vald til sekta, en það vald hafa aðeins dómstólar eins og kunnugt er. Svo væri gott ef verðtryggingin yrði afnumin. Ofan á hinminháa vexti eru lán verðtryggð og algjörlega borin von að maður geti nokkurn tímann eignast bót fyrir boruna á sér. Afborganir af húsnæðislánum hækka og hækka og höfuðstóllinn með.

Jæja, ég nenni þessari biturð ekki öllu lengur, ég er alltént skattakóngur yfir sjálfum mér sem er á leið í sumarfrí á Laugarvatn og meiningin er að slaka vel á og rúnta eilítið um Suðurlandið, enda bensínið svo ódýrt hérna. Máske verður bloggað í fríinu ef ég kemst í netsamband einhves staðar. Annars, góðar stundir.