föstudagur, 29. ágúst 2008

Strákarnir okkar


















Þarna eru þeir, strákarnir okkar í landsliðinu í handbolta. Ólafur "bíp" Stefánsson heimspekingur er í 3. röð og tröllið með barnshjartað er þarna líka, svo og Guðjón Valur, sonur vindsins og allir hinir. En ég vissi ekki að það væru svona margir í landsliðinu og svo er alltaf talað um þennan 15. mann sem aldrei fékk að vera með aðalgæjunum. En hvað með alla hina sem eftir eru? Hvað voru þeir að gera og því vorkennir enginn þeim? Ég gúglaði þessa mynd eftir leitarorðunum "strákarnir okkar" og fékk bara eitthvað svona. En myndin er flott og þarna er vaskur flokkur danskra soldáta sem mér sýnist að sé nýbúinn að fá gráðu í fínum herskóla og hefur stillt sér upp til útskriftarmyndatöku fyrir framan skólann sinn. "Vores drenge".

Silfurdrengirnir fengu glæsilegar móttökur og allt var það við hæfi og verðskuldað, jafnvel þótt á köflum væri farið yfir strikið. Maður fékk kjánahroll nokkrum sinnum, en það var bara þægileg tilfinning, manni jafnvel vöknaði um augun á nokkrum augnablikum í þessari viðamiklu útsendingu sjónvarpsins sem Bogi þreyttist ekki á að minna okkur áhorfendur á með reglulegu millibili frá kl. 16 til 20.
Hæstvirtur íþróttamálaráðherra fannst mér fullmikið áberandi í sambandi við afrek landsliðsins. Hún á ekkert í þesum sigrum en var einhvern veginn í aðalhlutverki í fjölmiðlum þennan dag og suma aðra daga líka. Og hvað var ríkisstjórnin að gera upp á sviði í Lækjargötunni þegar liðið var svo hyllt? Ríkisstjórnin stóð bara þarna eins og asni með ekkert hlutverk nema náttúrulega Þorgerður Katrín. Það var bjánlegt. Þrátt fyrir hroll tók ég undir í "Öxar við ána" og furðulegt að ekki sé fyrir löngu búið að gera það lag að þjóðsöng Íslands. Lagið er einstaklega vel fallið til að hræra upp í þjóðernistilfinningunum þrátt fyrir að vera hálfgerður hergöngumars og textinn segir allt sem segja þarf, "...skundum á Þingvöll og treystum vor heit. Fram, fram, aldrei að víkja, fram, fram, bæði menn og fljóð. Tökum saman höndum..." osfrv. Sá sem finnur ekki til þjóðerniskenndar og brynnir músum við að syngja þetta lag við raust er bara plebbi og ætti að flytja til útlanda og hana nú!!

Svo var orðuveitingin á Bessastöðum skemmtileg og í fyrsta sinn sem maður fær að sjá slíkt í beinni útsendingu. Þeim fannst þetta greinilega sumum orðið eitthvað súrrealískt, t.d. sjálfum Ólafi Stef, sem fékk stórriddarakross og var kindarlegur á svipinn. Þeir voru þakklátir og hrærðir eins og vera ber og Rússajeppinn grét og það ekki í fyrsta skipti þennan dag. Aðeins einn úr þessu liði var öðruvísi stemmdur. Það var Logi Geirsson geldrengur. Hann leit ákveðnum augum á forsetann með óræðu glotti og þakkaði fyrir sig upphátt svo að vel heyrðist. Svo fengu menn sér bara í glas á Bessastöðum og eflaust hafa þeir upplifað mikið spennufall eftir allt þetta stand þennan dag og brugðið á það ráð að fara á skallann, það hefði ég gert.

Engin ummæli: