Það er fremur rólegt í bloggheimum hjá mér, en því meira að gera í mannheimum. Nýir áfangar og þeim fylgir mikil vinna. Engin gulrót alveg á næstunni, en um mánaðamótin næstu verður eitthvert þing og þá smá uppbrot á daglegum venjum í vinnunni. Það er gaman á þessum haustþingum framhaldsskólakennara. Erindin eru þó fremur leiðinleg og yfirleitt verð ég að berjast við að sofna ekki. Kýli þá bara vömbina af kaffi og vínarbrauði og bíð eftir hádegismat. Eftir hádegi taka við faggreinafundir og þeir eru fínir og gaman að hitta kollega sína úr öðrum skólum sem kenna sömu áfanga og maður sjálfur. Svo eru einhverjar málstofur og svona og þær eru misgóðar eins og gengur. En svo byrjar fjörið. Við söguspekingar höfum þann háttinn á að þjófstarta gleðinni og finnum okkur krá til að ræða, gáfulega að sjálfsögðu, um fagið og reyndar ýmislegt fleira. Svo er kvöldmatur og skemmtun fram eftir kvöldi (eða með öðrum orðum almennt fyllerí) og rútupartý að því loknu, hafi þingið verið annars staðar en hér í bæ.
Annars lítið að frétta, vinna og daglegt amstur ýmis konar á hug minn allan. Varð 48 um daginn og þakka hér með þeim sem mundu eftir mér og sendu sms ellegar hringdu eða komu færandi hendi. Guð blessi þá í bak og fyrir.
fimmtudagur, 4. september 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli