Einhver allra þreyttasta og útjaskaðasta frétt sem hugsast getur glymur á manni dag hvern og ekkert lát er á. Fréttin er svona: "Krónan aldrei lægri". Hvað getur gjaldmiðill haldið lengi áfram að falla? Hvenær bara deyr hann drottni sínum? Kannski þegar hann er orðinn minna virði en ekki neitt og krónuræfillinn okkar stefnir hraðbyri í það.
Það jafngildir landráðum í huga Íslandsbasa að minnast á evru og Evrópusamband. Það má ekki nefna þessi fyrirbæri frekar en snöru í hengds manns húsi. Þau reita Basa til reiði. Í staðinn sitjum við uppi með hann og þrefalt efnahagsklúður miðað við nágrannalönd okkar flest. Við höfum ónýtan gjaldmiðil sem verður æ minna virði (50% minna virði núna en fyrir nokkrum mánuðum), verðbólgu sem er margfalt hærri en í öllum nágrannalöndum okkar og vaxtaokur sem ekki á sér hliðstæðu í okkar heimshluta og þótt víðar væri leitað.
Þeir sem dirfast að nefna þann möguleika hvort okkur væri kannski betur borgið innan Evrópusambandsins þar sem líkur eru taldar á því að efnahagslíf okkar myndi aðlaga sig að því sem þar gerist, eru stimplaðir af Basa á Svörtuloftum sem lýðskrumarar sem eigi "mikla skömm og fyrirlitningu skilda".
Svokölluð "hagstjórnartæki" seðlabankans eru mikið grín og og trúi því ekki að menn þar á bæ haldi í alvöru að þau virki, þau nefnilega gera það ekki af einhverjum ástæðum. Stýrivextir eiga samkvæmt kenningunni að þrýsta verðbólgu niður og virðast gera það í útlöndum. En ekki hér. Háir stýrivextir hafa ekkert að segja í þessari baráttu, eru bara okkur öllum til bölvunar og aðalástæðan fyrir vaxtaokri bankanna. Alltaf þegar ábúðarfullir seðlabankastjórar tilkynna um hækkun stýrivaxta eru þeir á svipinn eins og nú megi vænta þess að verðbólgan fari niður. Nei, ekki hér. Svona efnahagslögmál virka ekki á Íslandi. Í staðinn fyrir að verðbólga lækki eins og hún á að gera samkvæmt kenningunni, hækkar hún í hvert skipti.
Það er kominn tími á að menn feisi þessa staðreynd og hina líka að Íslendingar kunna ekki neitt í efnahagsmálum. Þetta vita reyndar flestir, en Flokkurinn sem öllu ræður er í gíslingu þess manns sem helst má líkja við fyrrum leiðtoga Túrkmenistan, Túrkmenabasa sem allir voru svo hræddir við. Hér mun ekkert gerast meðan hann ræður ríkjum.
mánudagur, 29. september 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli