fimmtudagur, 9. október 2008

Kreppugreinin

Mildi guðs að vera ekki ríkur þesa dagana. Ég á engin verðbréf eða hlutabréf sem orðið hafa að næstum engu í þessari gjörningahríð undanfarið. Bara nokkra skitna þúsundkalla á bók í RÍKISbankanum mínum og okkar allra sem Landsbankinn heitir. Hef ekki þungar áhyggjur af þeim aurum. Verra er með venjulegt fólk sem hefur verið að kaupa hlutabréf í bönkum og öðrum fyrirtækjum, jafnvel tekið út peningana sína af sparireikningunum sínum samkvæmt ráðleggingum þjónustufulltrúa bankanna. Það fé er að mestu horfið, áratugasparnaður hjá mörgu fólki.

Sjaldan hafa jafn fáir logið jafn miklu í jafn marga á jafn fáum dögum og undanfarið. Ekki hefur verið orð að marka bankastjórana um stöðu bankanna, allir svo ótrúlega traustir, með miklar eignir osfrv. Prófessor við Háskóla Íslands sem ekki er í lygaklúbbnum sagði eftir yfirtöku ríkisins á Glitni að tæknilega væru bæði Landsbankinn og Kaupþing gjaldþrota. Hreiðar bankastjóri (fyrrum) varð bæði sár og reiður yfir þessum svívirðilegu ummælum og bullaði eitthvað um það væri alvarlegt að Háskóli Íslands bæri ábyrgð á svona manni sem segði þvílíka vitleysu. Nei, Kaupþing væri geysilega traust félag með sterka eiginfjárstöðu, opnar lánalínur og nyti álits og lánstrausts. Þremur eða fjórum dögum síðar er sami banki farinn á rassgatið með báðum sínum gráðugu, spilltu og síljúgandi bankastjórum.

Allt það sem Danir sögðu um okkur fyrir um tveimur til þremur árum hefur ræst. En Við urðum sár og reið út í fyrrum nýlenduherra okkar sem með rógburði og öfund níddu hina glæsilegu, nýríku útrásardrengi okkar sem urðu þjóðhetjur því þær höfðu keypt banka og fyrirtæki í Danmörku og sýnt helvítis baununum í tvo heimana. Gott ef þarna var ekki verið að hefna fyrir kúgun þeirra í gegnum aldirnar, allt frá siðaskiptum, í gegnum einveldistöku, Brimarhólm, verslunareinokun og almennt arðrán og 14 - 2 leikinn. Hefndin var sæt. En nú er þetta ævintýri farið ofan í klósettið og gott á Íslendinga segi ég. Það hlakkar óskaplega í mér yfir óförum þeirra.

Bankastjórarnir og útrásargengið, sem ýmsir héldu að væru svo snjallir, áræðnir og gáfaðir viðskiptajöfrar eru bara, eins erlendir blaðamenn og ýmsir aðrir voru búnir að sjá fyrir löngu, bara spilltir, gráðugir og bernskir og umfram allt heimskir. Út í hinum stóra heimi er núna hlegið að Íslendingum fyrir heimsku sína og græðgi. Það mundi ég líka gera.

Engin ummæli: