sunnudagur, 29. júní 2008

Spánn Evrópumeistari

Betra liðið vann, ekki spurning um það. Ég að vísu hélt með Þjóðverjum og varð enn sannfærðari í stuðningi mínum við þá eftir að ég las eitthvert rasískt bull haft eftir hinum afgamla þjálfara Spánverja Aragones eða hvað hann nú heitir annars, þar sem hann kallaði Thierre Henry hinn franska "svartan skít". Þetta eru ömurleg ummæli og barnaleg og þess vegna mátulegt á helvítis kallinn að Spánverjar hefðu tapað leiknum. En það gerðu þeir ekki, þeir voru bara svo miklu betri en Þjóðverjarnir sem áttu engan veginn skilið að fá eithvað meira en silfur á þessu móti - í rauninni of mikið fyrir þá. Rússar eða Tyrkir hefðu mjög gjarnan mátt hirða það í staðinn. Spánverjar eru mjög vel að sigrinum komnir, langbesta lið mótsins sem spilaði alla leikina af krafti og ótrulegri ákefð. Viva Espania!

laugardagur, 28. júní 2008

Byrjaður enn og aftur

Kannski ég byrji aftur að blogga fyrir sjálfan mig og tvo til þrjá í viðbót. Það er svo margt sem gengur á í þjóðfélaginu að maður getur ekki orða bundist. Stundum gengur svo fram af manni við að upplifa alla delluna sem gengur á í þessu guðsvolaða landi að maður verður að fá útrás og tjá sig um hin og þessi mál. Frau Blucher nennir ekki að hlusta á mig og þá er bara að "að tala við tölvuna" í staðinn.
Veit annars ekki hvað ég nenni þessu lengi í þetta sinn, var eiginlega búinn að gefast upp á þessu bloggdæmi öllu, nennti ekki að skrifa lengur og nennti heldur ekki að lesa önnur blogg. En sjáum til.