sunnudagur, 26. október 2008

Frjálshyggjan

Á "eyjunni" blogga ýmsir og þar er margt gáfulegt á ferðinni, enda mörg sjálfskipuð gáfumenni sem halda þar á penna, eða pikka á lyklaborð öllu heldur. Svo er nú líka innan um þvílík steypa að engu tali tekur og kommentin, þau eru nú ekki öll gæfuleg verð ég að segja. Þó rakst ég á eitt athyglisvert þarna um daginn. Einhver, man ekki hver, var að blogga um "hrunið mikla", þjóðargjaldþrotið eins og allir hinir. Þar var talað um hverjum þetta væri að kenna, um ábyrgð og fleira. Ein athugasemdin vakti athygli mína. Nafnlaus höfundur hennar tók líkingu við Þýskaland nasismans, rakti hvernig nasistaflokkurinn þar steypti þjóðinni í algjört gjaldþrot, efnahagslegt og ekki síst siðferðilegt. Flokksgæðingarnir, sem ekki voru búnir að hengja sig eða taka blásýru, voru sóttir til saka og dæmdir í lífstíðarfangelsi í Nürnberg-réttarhöldunum. Í nýju Vestur-Þýskalandi var svo nasistaflokkurinn bannaður, eðlilega.

Og hingað heim eins og fréttamennirnir segja. Sjálfstæðisflokkurinn hefur keyrt þjóðina í gjaldþrot, efnahagslegt og siðferðilegt. Hann hefur farið með völdin hér samfleytt frá árinu 1991, studdur af Framsókn mest allan tímann og Samfylkingunni síðasta árið eða svo. Flokkurinn stóð að því að selja eigur ríkisins á spottprís, bankarnir voru nánast afhentir flokksgæðingum helmingaskiptaflokkanna á silfurfati og í gang fór frjálshyggja sem hefði fengið jafnvel Milton Friedman til að snúa sér við í gröfinni. Laissez-faire og "ósýnileg hönd" Adams Smith réðu nú ríkjum. Eftirlitsstofnanir voru lamaðar, með ekkert umboð til að grípa inn í, þær voru jafnvel lagðar niður sbr. Þjóðhagsstofnun sem birti óhagstæða efnahgasspá eitt sinn í tíð Kim il Oddssonar. Mörgum fannst það flott hjá honum. Amatörar í hagfræði réðu ríkjum hér, smákóngaveldi sem hyglaði flokksgæðingum tveggja flokka. Menn lofsungu íslensku útrásarvíkingana og ekki bara forsetinn eins og sumir hafa verið að þrástagast á, líka Davíð sem þó reyndi að ljúga því í þjóðina í alræmdu Kastljósviðtali að hann hefði aldrei sungið útrásinni neinn lofsöng. Sú lýgi var rekin ofan í trantinn á honum tveimur dögum síðar í Fréttablaðinu. Davíð er aðalhöfundur að þeirri krísu sem þjóðin er í núna. Röð vitlausra ákvarðana bæði í stjórnarráði og ekki síst í seðlabankanum eins og hagfræðingar, innlendir sem erlendir hafa rakið, en hann með sinn yfirgengilega hroka skellir skuldinni á aðra.

Úr þessum brennandi rústum rís nýtt Ísland, vonandi með aðrar leikreglur, önnur gildi og viðmið en þau sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðið upp á undanfarin mörg ár. Frjálshyggja flokksins er gjaldþrota og þá mannfjandsamlegu stefnu ætti auðvitað að banna því það er hún með sínum trúboðum sem hefur komið landinu á kaldan klaka. Svo mætti draga þá menn á sakamannabekk sem hafa haldið frjálshyggjunni fram. Það hlýtur svo að koma til álita að banna Sjálfstæðisflokkinn í hinu Nýja-Íslandi, nóg ætti hann að hafa á samviskunni. Stefna og hreyfing sem leiða þjóðina í svona stórbrotnar ógöngur eiga ekki að fá að þrífast hér.

föstudagur, 24. október 2008

Útrás

Norðmenn og Japanir í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn ætla að draga okkur upp úr feninu. IMF lánar okkur að jafnvirði 2 milljarða dollara, ef stjórn sjóðsins samþykkir, og svo er enn ósamið um Rússagull. Kannski nokkrar skrilljónir þar. Þetta eru hreint skelfilegar upphæðir sem um er að ræða og þessir þjóðníðingar, 20 til 30 manns, hafa með heimsku sinni og græðgi skert lífskjör okkar allra stórkostlega næstu áratugi.

Ævisparnaður fólks er gufaður upp í mörgum tilfellum, peningar sem geymdir voru í sjóðum og hlutabréfum í bönkum og öðrum fyrirtækjum. Menn voru hvattir til að taka erlend lán sem nú eru að drepa þá sem þau tóku, bara út af þeim trúarbrögðum sem íslensk króna heitir. Það er búið að skerða lífeyrisréttindi mín og lífskjör og barnanna minna næstu áratugi.

Að Íslendingum er hlegið út um allan heim. Þokkalegur andskoti!!!

Forfeður okkar áttu aldrei að leggjast í þessa útrás frá Noregi, hún var mislukkuð, tók bara dálítið langan tíma að fatta það. Það er svo einboðið að við eigum að viðurkenna ósigur okkar og gefa þá yfirlýsingu út strax að stefnt skuli að Evrópusambandsaðild og fullri þátttöku í myntbandalaginu af því að við kunnum ekkert í efnahagsmálum.

miðvikudagur, 22. október 2008

Sólarglæta í tilverunni

Það var hressilegt og uppörvandi að fletta Mogganum í gær. Þar var ljós í myrkrinu og gjörningaveðrinu sem staðið hefur yfir í þrjár vikur. Hver hörmungarfréttin rekur aðra og dynur á okkur og ekkert lát er á. Hver dagur er öðrum verri, maður þorir varla lengur að hlusta á fréttirnar.
En, sem ég sit á kennarastofunni með Moggann og sökkvi mér í allar hörmungarnar sem þar var greint frá, rek ég ekki augun í myndir af þremur skælbrosandi konum og var þar engin önnur en frú Guðrún Heiða iðjuþjálfi, betur þekkt sem Frau Blucher ásamt tveimur fyrrum skóla- og þjáningarsystrum úr HA. Þær skrifuðu sem sagt grein í blaðið sem fjallar um mænuskaða og í sjálfu sér ekki tilefni til að hlæja eða brosa að því málefni. Þær brostu allar svo blítt að í fyrstu varð ég hvumsa, enda tímarnir þannig að flestir ganga nú um með skeifu og örvæntingu í svip. En ekki þær. Annað eins smæl á öðrum eins krepputímum hefur aldrei sést og ég brosti með og til þessara gullfallegu iðjuþjálfa sem björguðu deginum fyrir mér.
Greinin var annars góð, hún var reyndar háalvarleg og full af beittri gagnrýni í garð stjórnvalda vegna stefnu þeirra í málefnum mænuskaðaðra. Og þær samt svona gleiðbrosandi þannig að lesendur geta séð að höfundar eru ekki fúllyndar og bitrar fraukur sem allt hafa á hornum sér, heldur hugsandi ofurgellur en samt sætar.

mánudagur, 20. október 2008

lyktarskyn

Helena kvartar yfir því að það sé vond lykt af mömmu sinni þegar hún kemur heim úr vinnunni. Það er svona "gömlufólkalykt" af henni segir litla kellingin með sitt næma nef. Það er ekki góð lykt og svo fylgir nánari lýsing á þessum þef. En það var aldrei svona gömlufólkalykt af afa Níelsi segir hún og finnst það skrítið. Helena er með háþróað þefskyn eins og sumir aðrir í föðurætt hennar. Þó ekki ég, en amma Hólla nam lykt fyrr og betur en flestir og ég man eftir einu tilviki í sambandi við það. Þegar Sambandsverksmiðjurnar brunnu árið 1969 sátu mamma og pabbi ásamt einhverju fólki að spilum í stofunni. Skyndilega fer Hólmfríður að hnusa út í loftið og segir að eitthvað sé að brenna. Þetta var ábyggilega áður en slökkviliðinu barst tilkynning um þennan mesta bruna Akureyrar fyrr og síðar. Ég man eftir því að pabbi fór út og ég elti, hann gekk í kringum húsið til að athuga hvort allt væri í lagi. Enginn eldur í Byggðavegi, en þeim mun meiri í verksmiðjunum eins og kom í ljós einhverju síðar.

Helena var bara fimm eða sex ára þegar hún flokkaði óskilaföt af vinkonum sínum sem höfðu hlaðist upp í forstofunni. Þarna voru vettlingar, húfur, snjóbuxur og fleira sem Helena bar að sínu ofurnefi og sortéraði. Hún fann þá lykt sem var á heimili viðkomandi krakka af öllum þessu fötum og skjöplaðist ekki.

Annað ágætt dæmi. Fyrir þremur árum vorum við í Danmörku og einn daginn fórum við öll í bæinn og Lára með. Við skiptum liði, Gunna og Lára fóru að versla og ég fór með börnin á vaxmyndasafn og fleira skemmtilegt. Svo ætluðum við að hittast á Strikinu. Ekki höfðum við lengi gengið þegar Helena snarstoppar og hnusar út í loftið og segir: "Bíddu, Lára er hérna, ég finn Lárulykt!" Ætli hafi ekki verið svona þrjú til fimm þúsund manns á röltinu á Strikinu þennan dag? En viti menn, örstuttu síðar gengum við fram á Láru og Gunnu og Helena sagði að þetta hefði verið akkúrat ilmvatnið sem hún notaði þessi lykt sem hún fann allt í einu og fór ekki ofan af því að þetta hefði verið lyktin af Láru.

Svo þykist hún ekki finna neina lykt þegar fnykurinn af naggrísnum hennar ætlar alla að drepa á heimilinu.

miðvikudagur, 15. október 2008

Í stríð við Breta

Við eigum í stríði við Breta. Það verður langvinnt og blóðugt. Bretar hafa verið vondir við okkur nú undanfarið, við ætlum í málsókn við þá fyrir að koma Kaupþingi á hausinn og fryst auðævi íslenskra útrásarvíkinga. Að vísu ætluðum við eða gáfum í það minnsta í skyn (Kim il Oddson, alias Basi á Svörtuloftum) að við myndum bara gefa skít í John og Jane og alla hina 300.000 Bretana sem áttu aur inn á sparireikningum sínum sem voru í eigu bankanna okkar.
Gordon Brown er nú úthrópaður sem þjóðníðingur af verstu sort og nú fer sjálfsagt að myndast hér stemning á borð við það þegar þorskastríðin stóðu sem hæst, en þá hötuðu allir "tjallann" og Ómar Ragnarsson var fengin til að semja og syngja lag til að auka við þjóðerniskenndina. Ég held að Bretar séu að skíta á sig af hræðslu núna. Varðskipin fara að vígbúast og Kærnested er tilbúinn í slaginn. Spurning bara hvernig togvíraklippurnar muni nýtast í þetta skiptið. Það verður kannski hægt að skera undan Gordoni Brown og honum þarna Darling með þeim?

Til að byrja með legg ég til að menn hætti að drekka Melrose´s te, sneiði hjá Jacobs tekexi, hætti að halda með enskum liðum í fótbolta og snúi sér að , ja, t.d. rússneskum. Menn hætti að sletta ensku og yfirhöfuð hætti að tala þetta ljóta hrognamál og loks skulum við efna til blaða-og bókabrennu, öllu bresku verður þá kastað á bálið, t.d. öllum bítlaplötunum og já, Genesis og Pink Floyd plötunum líka - nja, það má halda þeim eftir, en öllu öðru má henda.
Niður með Bretland!!

laugardagur, 11. október 2008

K-orðið

Í hinum enskumælandi heimi er talað um "the f-word", það er dónaorð sem ekki má nefna fyrir framan börn og gamlar konur. Í sjónvarpinu fyrir svona tveimur til þremur árum voru sýndir bandarískir þættir sem hétu "The L-word". Þegar ég fattaði fyrir hvað þetta "L" stóð kviknaði áhugi hjá mér og ég kíkti á þessa þætti sem mig minnir að hafi verið merktir með rauðum lit í logói sjónvarpsstöðvarinnar. En önnur eins ömurleg hallærisheit hef ég aldrei séð í sjónvarpi og ég skipti mér ekki frekar af þáttum þessum. Bjánalegri titil er vart hægt að hugsa sér, en þetta óttalega orð "lesbian" má ekki nefna í eyru sannkristinna kana, enda ríður tepruskapurinn þar í landi ekki við einteyming þegar kemur að holdsins lystisemdum og bara nekt yfirhöfuð. Það er litið illu auga á það athæfi að gefa barni brjóst á almannafæri, enda finnst þeim brjóst dónaleg og þau minna kanann á eitthvað holdlegt og blautlegt sem þeir eru vissir um að Gráskeggi gamla sé í nöp við. En að sýna þessari ofbeldisfullu þjóð byssur, blóð og keðjusagir er í lagi og það er talið sérstaklega uppbyggilegt fyrir óharnaðar sálir að sjá góða gæjann, sem auðvitað er landi þeirra sjálfra, murka út lífið á gulum og skáeygðum Norður-Kóreubúum eða Kínverjadjöflum eða brúnaþungum og ljótum Rússum og nú síðast skítugum arabaterroristum á viðbjóðslegan og kvalafullan hátt.

Já, k-orðið. Í vinnunni hennar Gunnu er hið fallega íslenska orð "kreppa" komið á bannlista. Nú er bara sagt "k-orðið" ef þarf að nefna þetta fyrirbæri. Hugmyndafræði iðjuþjálfunarinnar gengur út á það að orðið sjálft skapi neikvæðni og orsaki kvíða og þunglyndi hjá gamla fólkinu. Nei, nú er um að gera að vera glaðlegur og tala á jákvæðum nótum og þær (iðjuþjálfarnir) segja að það ríki smá "samdráttarskeið", jafnvel "niðursveifla" og nýjasta orðið í bransanum er "herpingstími". Það finnst mér nokkuð gott, en fer samt ekki ofan af því að orðið "kreppa" er fallegt, sterkt og hljómar líka vel, fyrir nú utan hvað fyrirbærið er þarft og hollt fyrir ansi marga hér á landi sem trúðu í blindni á frjálshyggjuna. Það sem ég vona að komi út úr þessu öllu saman er að það verði allsherjar endurmat á gildum lífsins hjá þessari þjóð og öðrum Vesturlandabúum, ekki veitir af. Guð blessi íslenska þjóð!

fimmtudagur, 9. október 2008

Kreppugreinin

Mildi guðs að vera ekki ríkur þesa dagana. Ég á engin verðbréf eða hlutabréf sem orðið hafa að næstum engu í þessari gjörningahríð undanfarið. Bara nokkra skitna þúsundkalla á bók í RÍKISbankanum mínum og okkar allra sem Landsbankinn heitir. Hef ekki þungar áhyggjur af þeim aurum. Verra er með venjulegt fólk sem hefur verið að kaupa hlutabréf í bönkum og öðrum fyrirtækjum, jafnvel tekið út peningana sína af sparireikningunum sínum samkvæmt ráðleggingum þjónustufulltrúa bankanna. Það fé er að mestu horfið, áratugasparnaður hjá mörgu fólki.

Sjaldan hafa jafn fáir logið jafn miklu í jafn marga á jafn fáum dögum og undanfarið. Ekki hefur verið orð að marka bankastjórana um stöðu bankanna, allir svo ótrúlega traustir, með miklar eignir osfrv. Prófessor við Háskóla Íslands sem ekki er í lygaklúbbnum sagði eftir yfirtöku ríkisins á Glitni að tæknilega væru bæði Landsbankinn og Kaupþing gjaldþrota. Hreiðar bankastjóri (fyrrum) varð bæði sár og reiður yfir þessum svívirðilegu ummælum og bullaði eitthvað um það væri alvarlegt að Háskóli Íslands bæri ábyrgð á svona manni sem segði þvílíka vitleysu. Nei, Kaupþing væri geysilega traust félag með sterka eiginfjárstöðu, opnar lánalínur og nyti álits og lánstrausts. Þremur eða fjórum dögum síðar er sami banki farinn á rassgatið með báðum sínum gráðugu, spilltu og síljúgandi bankastjórum.

Allt það sem Danir sögðu um okkur fyrir um tveimur til þremur árum hefur ræst. En Við urðum sár og reið út í fyrrum nýlenduherra okkar sem með rógburði og öfund níddu hina glæsilegu, nýríku útrásardrengi okkar sem urðu þjóðhetjur því þær höfðu keypt banka og fyrirtæki í Danmörku og sýnt helvítis baununum í tvo heimana. Gott ef þarna var ekki verið að hefna fyrir kúgun þeirra í gegnum aldirnar, allt frá siðaskiptum, í gegnum einveldistöku, Brimarhólm, verslunareinokun og almennt arðrán og 14 - 2 leikinn. Hefndin var sæt. En nú er þetta ævintýri farið ofan í klósettið og gott á Íslendinga segi ég. Það hlakkar óskaplega í mér yfir óförum þeirra.

Bankastjórarnir og útrásargengið, sem ýmsir héldu að væru svo snjallir, áræðnir og gáfaðir viðskiptajöfrar eru bara, eins erlendir blaðamenn og ýmsir aðrir voru búnir að sjá fyrir löngu, bara spilltir, gráðugir og bernskir og umfram allt heimskir. Út í hinum stóra heimi er núna hlegið að Íslendingum fyrir heimsku sína og græðgi. Það mundi ég líka gera.