Í hinum enskumælandi heimi er talað um "the f-word", það er dónaorð sem ekki má nefna fyrir framan börn og gamlar konur. Í sjónvarpinu fyrir svona tveimur til þremur árum voru sýndir bandarískir þættir sem hétu "The L-word". Þegar ég fattaði fyrir hvað þetta "L" stóð kviknaði áhugi hjá mér og ég kíkti á þessa þætti sem mig minnir að hafi verið merktir með rauðum lit í logói sjónvarpsstöðvarinnar. En önnur eins ömurleg hallærisheit hef ég aldrei séð í sjónvarpi og ég skipti mér ekki frekar af þáttum þessum. Bjánalegri titil er vart hægt að hugsa sér, en þetta óttalega orð "lesbian" má ekki nefna í eyru sannkristinna kana, enda ríður tepruskapurinn þar í landi ekki við einteyming þegar kemur að holdsins lystisemdum og bara nekt yfirhöfuð. Það er litið illu auga á það athæfi að gefa barni brjóst á almannafæri, enda finnst þeim brjóst dónaleg og þau minna kanann á eitthvað holdlegt og blautlegt sem þeir eru vissir um að Gráskeggi gamla sé í nöp við. En að sýna þessari ofbeldisfullu þjóð byssur, blóð og keðjusagir er í lagi og það er talið sérstaklega uppbyggilegt fyrir óharnaðar sálir að sjá góða gæjann, sem auðvitað er landi þeirra sjálfra, murka út lífið á gulum og skáeygðum Norður-Kóreubúum eða Kínverjadjöflum eða brúnaþungum og ljótum Rússum og nú síðast skítugum arabaterroristum á viðbjóðslegan og kvalafullan hátt.
Já, k-orðið. Í vinnunni hennar Gunnu er hið fallega íslenska orð "kreppa" komið á bannlista. Nú er bara sagt "k-orðið" ef þarf að nefna þetta fyrirbæri. Hugmyndafræði iðjuþjálfunarinnar gengur út á það að orðið sjálft skapi neikvæðni og orsaki kvíða og þunglyndi hjá gamla fólkinu. Nei, nú er um að gera að vera glaðlegur og tala á jákvæðum nótum og þær (iðjuþjálfarnir) segja að það ríki smá "samdráttarskeið", jafnvel "niðursveifla" og nýjasta orðið í bransanum er "herpingstími". Það finnst mér nokkuð gott, en fer samt ekki ofan af því að orðið "kreppa" er fallegt, sterkt og hljómar líka vel, fyrir nú utan hvað fyrirbærið er þarft og hollt fyrir ansi marga hér á landi sem trúðu í blindni á frjálshyggjuna. Það sem ég vona að komi út úr þessu öllu saman er að það verði allsherjar endurmat á gildum lífsins hjá þessari þjóð og öðrum Vesturlandabúum, ekki veitir af. Guð blessi íslenska þjóð!
laugardagur, 11. október 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
haha herpingstími þetta er frábært orð. ég er allavega herpt um munninn að það eru komnar djúpar sprungur sem varaliturinn fer upp í. já það er ekki sjón að sjá mig þessa dagana og ekki heldur drenginn minn þar sem hann þarf að kreppa tærnar sínar því mamma hans hefur ekki efni á því að kaupa nýtt skópar. kv. kvaran
Skrifa ummæli