miðvikudagur, 15. október 2008

Í stríð við Breta

Við eigum í stríði við Breta. Það verður langvinnt og blóðugt. Bretar hafa verið vondir við okkur nú undanfarið, við ætlum í málsókn við þá fyrir að koma Kaupþingi á hausinn og fryst auðævi íslenskra útrásarvíkinga. Að vísu ætluðum við eða gáfum í það minnsta í skyn (Kim il Oddson, alias Basi á Svörtuloftum) að við myndum bara gefa skít í John og Jane og alla hina 300.000 Bretana sem áttu aur inn á sparireikningum sínum sem voru í eigu bankanna okkar.
Gordon Brown er nú úthrópaður sem þjóðníðingur af verstu sort og nú fer sjálfsagt að myndast hér stemning á borð við það þegar þorskastríðin stóðu sem hæst, en þá hötuðu allir "tjallann" og Ómar Ragnarsson var fengin til að semja og syngja lag til að auka við þjóðerniskenndina. Ég held að Bretar séu að skíta á sig af hræðslu núna. Varðskipin fara að vígbúast og Kærnested er tilbúinn í slaginn. Spurning bara hvernig togvíraklippurnar muni nýtast í þetta skiptið. Það verður kannski hægt að skera undan Gordoni Brown og honum þarna Darling með þeim?

Til að byrja með legg ég til að menn hætti að drekka Melrose´s te, sneiði hjá Jacobs tekexi, hætti að halda með enskum liðum í fótbolta og snúi sér að , ja, t.d. rússneskum. Menn hætti að sletta ensku og yfirhöfuð hætti að tala þetta ljóta hrognamál og loks skulum við efna til blaða-og bókabrennu, öllu bresku verður þá kastað á bálið, t.d. öllum bítlaplötunum og já, Genesis og Pink Floyd plötunum líka - nja, það má halda þeim eftir, en öllu öðru má henda.
Niður með Bretland!!

Engin ummæli: