sunnudagur, 26. október 2008

Frjálshyggjan

Á "eyjunni" blogga ýmsir og þar er margt gáfulegt á ferðinni, enda mörg sjálfskipuð gáfumenni sem halda þar á penna, eða pikka á lyklaborð öllu heldur. Svo er nú líka innan um þvílík steypa að engu tali tekur og kommentin, þau eru nú ekki öll gæfuleg verð ég að segja. Þó rakst ég á eitt athyglisvert þarna um daginn. Einhver, man ekki hver, var að blogga um "hrunið mikla", þjóðargjaldþrotið eins og allir hinir. Þar var talað um hverjum þetta væri að kenna, um ábyrgð og fleira. Ein athugasemdin vakti athygli mína. Nafnlaus höfundur hennar tók líkingu við Þýskaland nasismans, rakti hvernig nasistaflokkurinn þar steypti þjóðinni í algjört gjaldþrot, efnahagslegt og ekki síst siðferðilegt. Flokksgæðingarnir, sem ekki voru búnir að hengja sig eða taka blásýru, voru sóttir til saka og dæmdir í lífstíðarfangelsi í Nürnberg-réttarhöldunum. Í nýju Vestur-Þýskalandi var svo nasistaflokkurinn bannaður, eðlilega.

Og hingað heim eins og fréttamennirnir segja. Sjálfstæðisflokkurinn hefur keyrt þjóðina í gjaldþrot, efnahagslegt og siðferðilegt. Hann hefur farið með völdin hér samfleytt frá árinu 1991, studdur af Framsókn mest allan tímann og Samfylkingunni síðasta árið eða svo. Flokkurinn stóð að því að selja eigur ríkisins á spottprís, bankarnir voru nánast afhentir flokksgæðingum helmingaskiptaflokkanna á silfurfati og í gang fór frjálshyggja sem hefði fengið jafnvel Milton Friedman til að snúa sér við í gröfinni. Laissez-faire og "ósýnileg hönd" Adams Smith réðu nú ríkjum. Eftirlitsstofnanir voru lamaðar, með ekkert umboð til að grípa inn í, þær voru jafnvel lagðar niður sbr. Þjóðhagsstofnun sem birti óhagstæða efnahgasspá eitt sinn í tíð Kim il Oddssonar. Mörgum fannst það flott hjá honum. Amatörar í hagfræði réðu ríkjum hér, smákóngaveldi sem hyglaði flokksgæðingum tveggja flokka. Menn lofsungu íslensku útrásarvíkingana og ekki bara forsetinn eins og sumir hafa verið að þrástagast á, líka Davíð sem þó reyndi að ljúga því í þjóðina í alræmdu Kastljósviðtali að hann hefði aldrei sungið útrásinni neinn lofsöng. Sú lýgi var rekin ofan í trantinn á honum tveimur dögum síðar í Fréttablaðinu. Davíð er aðalhöfundur að þeirri krísu sem þjóðin er í núna. Röð vitlausra ákvarðana bæði í stjórnarráði og ekki síst í seðlabankanum eins og hagfræðingar, innlendir sem erlendir hafa rakið, en hann með sinn yfirgengilega hroka skellir skuldinni á aðra.

Úr þessum brennandi rústum rís nýtt Ísland, vonandi með aðrar leikreglur, önnur gildi og viðmið en þau sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðið upp á undanfarin mörg ár. Frjálshyggja flokksins er gjaldþrota og þá mannfjandsamlegu stefnu ætti auðvitað að banna því það er hún með sínum trúboðum sem hefur komið landinu á kaldan klaka. Svo mætti draga þá menn á sakamannabekk sem hafa haldið frjálshyggjunni fram. Það hlýtur svo að koma til álita að banna Sjálfstæðisflokkinn í hinu Nýja-Íslandi, nóg ætti hann að hafa á samviskunni. Stefna og hreyfing sem leiða þjóðina í svona stórbrotnar ógöngur eiga ekki að fá að þrífast hér.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

jæja dortmund ég ætla bara að segja þér að ég ætla fara næsta laugardag og mótmæla. það mætti halda að það sé ekki lýðræði í landinu. kv. kvaran