Tek undir með Steingrími J. Kosningar verða að fara fram sem allra fyrst og í síðasta lagi á útmánuðum, mars, apríl. Hér hefur svo margt brugðist. Peningastefna Seðlabankans, sem ríkisstjórnin hlýtur að leggja blessun sína yfir þrátt fyrir margumtalað sjálfstæði hans, hefur beðið algert skipbrot. Stjórnvöld sváfu á verðinum, eftirlitsstofnanir brugðust osfrv. Það dugar ekki fyrir Samfylkinguna að þykjast ekki bera ábyrgð á Davíð, hann sé bara í Seðlabankanum vegna og fyrir Sjálfstæðisflokkinn og ætla þannig að fría sig allri ábyrgð á hlutunum og líka til að hafa afsökun fyrir því að halda áfram í stjórninni.
Seðlabankinn er í tilvistarkreppu sem aldrei fyrr og er í raun einskis nýtur. Við erum reyndar ekki lengur sjálfstæð þjóð. Ríkisstjórnin og Gjaldeyrissjóðurinn ætla að leggja drápsklyfjar á þjóðina sem munu skerða lífskjör okkar mikið næstu ár og kannski áratugi. Hér verður meira atvinnuleysi en við höfum nokkru sinni kynnst áður (að kreppuárunum meðtöldum), þjóðartekjurnar dragast mikið saman, kaupmáttur rýrnar um 10 til 20% og verðbólgan fer í 30% segja hagfræðingar áður en vetur er úti.
Það er búið að taka völdin af okkur í efnahgaslífinu, við höfum ekki stjórn á þeim næstu árin, heldur áðurnefndur sjóður og nú er þegar búið að koma í framkvæmd einum af hvað, 19 liðum sem ríkisstjórninni er ætlað að fara eftir næstu misserin og árin, en það er hækkun stýrivaxtanna sem fróðir segja að muni keyra enn fleiri fyrirtæki í þrot og auka skuldir heimilanna ómælt. Ekki er á það bætandi, við erum nú þegar skuldugasta þjóð í heimi, hugsið ykkur! Stjórnvöld og tiltölulega fáir fjárglæframenn komu okkur út í þetta.
Þing hefur sannarlega verið rofið af minna tilefni en það sem nú blasir við okkur. Það væri fáránleg skrípamynd af lýðræðinu ef þjóðin fengi ekki að segja sitt álit á þessum málum öllum með kosningum í allra síðasta lagi í vor.
sunnudagur, 2. nóvember 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Amen Dortmund ég er innilega sammála en spurningin er hvað á að kjósa? þetta eru óttalegir ræflar og rumpulýður;) kv. kvaran
Skrifa ummæli