laugardagur, 8. nóvember 2008

Byggðavegur

Maður hefur verið í hálfgerðum "minningarrússibana" undanfarnar vikur í allri tiltektinni í Byggðavegi. Á stundum skrýtið og líka erfitt að henda öllu þessu dóti foreldra sinna, hlutir sem höfðu merkingu og sérstakt gildi fyrir þá og líka fyrir okkur þó með öðru móti sé. Mér finnst eins ég sé að kasta lífi ofan í ruslagám, maður bara bítur á jaxlinn og bælir tilfinningarnar niður. Og svo verður Byggðavegur seldur, það verður skrítið að sjá annað fólk tilheyra þessu húsi sem ég kalla enn "heima". Ég hef aldrei slitið þann naflastreng. "Heim í Byggðaveg". Í þessu húsi ólst ég upp og flutti ekki úr því endanlega fyrr en ég var að verða þrítugur. Minningarnar eru endalausar, þær hefur maður verið að rifja upp og við systkinin fjögur. Við höfum mikið hlegið og það hefur verið ótrúlega gaman að hræra í þessum sameiginlega minningapotti okkar því það er svo margt sem óvænt skýtur upp kollinum, enda hefur hvert okkar sína sýn á hlutina og svo er líka margt sem maður hreinlega vissi ekkert um. En á köflum hefur þetta líka tekið í og angurværðin hellist yfir mann og söknuður eftir liðnum tíma.

Í einni tiltektinni um daginn rakst ég á gömlu skautahúfuna mína sem mútta prjónaði á mig og ég hef ekki séð síðan í æsku. Hún er eins og ný og sér ekki á henni. Það þurfti heldur ekkert að pipra hana eins og vettlingana mína, en þá nagaði ég gjarnan í tætlur og mamma hafði ekki við að staga í þá og fann því upp á þessu snjallræði. Ég loga allur í kjaftinum bara við að rifja þessa sögu upp! En húfuna ætla ég að varðveita og setja upp, en mjög spari þó.

Engin ummæli: