þriðjudagur, 28. apríl 2009

Sigurvegari kosninganna

Ég heyrði ágætis kenningu um hverjir það eru sem geta talist sigurvegarar kosninganna. Það er Sjálfstæðisflokkurinn. Þegar horft er til þess að flokkurinn, nánast aleinn og óstuddur, með glórulausri "reiðareksstefnu" í efnahagsmálum sem komið hefur landinu í þvílíkan botnlausan skít að þess finnast engin dæmi meðal lýðræðisríkja í heiminum, skuli þrátt fyrir það fá 16 þingmenn. Það hlýtur að teljast varnarsigur, ef ekki bara stórsigur. Flokkurinn hefði átt að þurrkast út eins og Frjálslyndi flokkurinn ef allt væri hér með felldu. En, eins og menn vita, er ekki allt með felldu hér. Og ég skal lofa ykkur því að í næstu kosningum, hvenær sem þær verða, mun Flokkurinn eini og sanni endurheimta megnið af því fylgi sem hann tapaði nú.

miðvikudagur, 22. apríl 2009

Borgarahreyfingin?

Samkvæmt könnun á mbl.is samrýmast pólitískar skoðanir mínar best við Borgarahreyfinguna. Er þá ekki einboðið að kjósa þá ágætu hreyfingu? Svona lítur þetta annars út hjá mér samkvæmt þessum strangvísindalega samanburði á skoðunum mínum og stefnu flokkanna.

Flokkur/samsvörun:

Borgarahreyfingin (O) 88%
Samfylkingin (S) 80%
Framsóknarflokkur (B) 71%
Frjálslyndi flokkurinn (F) 69%
Vinstrihreyfingin - grænt framboð (V) 67%
Lýðræðishreyfingin (P) 67%
Sjálfstæðisflokkur (D) 46%

Sem betur fer varð Sjálfstæðisflokkurinn neðstur í þessari könnun, en hins vegar er athyglisvert að Vg lendir í 5. sæti, og ég sem hef hugleitt að kjósa þann flokk! Mér hugnast mörg stefnumál þeirra og Vg virðist vera laus við styrkjaspillinguna sem viðgengst í hinum flokkunum þremur. Steinunn Valdís að þiggja milljónir frá Baugi og fleiri fyrirtækjum fyrir prófkjörsbaráttu sína er algjörlega siðlaust og ömurlegt innlegg í lokasprettinn á kosningabaráttu Samfylkingarinnar.

Hins vegar stendur eitt mál á milli mín og Vg og það er Evrópusambandið. Ef Skallagrímur og co myndu nú breyta afstöðu sinni til þessa lang, langbrýnasta máls okkar Íslendinga myndi ég ekki hika við að kjósa þá. En á meðan Vg gerir það ekki kýs ég ekki þennan flokk, svo einfalt er það. Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla er arfavitlaus hugmynd, að kjósa um það hvort við eigum að hefja aðildarviðræður. Ef þjóðin myndi nú hafna því að fara í viðræður, þá munum við ekkert komast að því hvað aðildarsamningur hefði í för með sér og öll umræða um kosti og galla aðildar því marklaus, því enginn veit hverjir þeir eru eða hefðu orðið. Ef þjóðin hins vegar samþykkir að hefja aðildarviðræður, nú þá hefjum við þær og atkvæðagreiðslan því óþörf, bara kostnaður upp á einhverjar tugmilljónir sem þetta lýðræðissport kostar.

Aðildarsamninginn sjálfan á svo að leggja í dóm þjóðarinnar sem hefur endanlegt úrskurðarvald, um það eru allir sammála og því er þessi hugmynd um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu vond að mínum dómi. Þjóðin fær að samþykkja eða hafna samningi. Þetta væri jafnvitlaust og ef kæmi fram á aðalfundi í félagi tillaga um að fara í atkvæðagreiðslu um hvort ætti að greiða atkvæði um eitthvert tiltekið mál, menn sjá að fyrri atkvæðagreiðslan er út í hött.

Ég hef lesið reiðinnar býsn af ESB-efni og sérstaklega nú undanfarið vegna kennslunnar í stjórnmálafræði, en ég ákvað að þessu sinni að gera þetta efni að stórum þætti í áfanganum. Og því meira sem ég les, því sannfærðari er ég um að kostirnir vegi margfaldlega upp ókosti aðildar fyrir Ísland. Fer nú samt ekki í þær pælingar hér.

Kosningarnar eftir tvo daga, þær verða spennandi. Tekst Borgarahreyfingunni að ná inn þremur mönnum , eða fjórum jafnvel, verður Vg stærsti sjórnmálaflokkur landsins á sunnudaginn, eða Samfylkingin? Kemst Stulli brjál inn á þing? Hversu stór verður niðurlæging Sjálfstæðisflokksins? Hversu stór verður varnarsigur framsóknar?

þriðjudagur, 21. apríl 2009

Skarfur kveður

Björn Bjarnason hefur verið sérstaklega svipljótur á Alþingi nú að undanförnu. Hann hrökklaðist úr ríkisstjórn í vetur og endaði þingmannsferil sinn í stjórnarandstöðu, nokkuð sem hann hafði ekki gert ráð fyrir. Sat bara út í sal eins og hver annar óbreyttur og undi hag sínum illa, það sást langar leiðir. Hann lætur af þingmennsku nú í vor í geðlægð mikilli og notaði tækifærið á heimasíðu sinni og kvaddi Alþingi með eins konar yfirliti yfir farinn veg. Þar fór hann yfir glæstan feril sinn og jós úr skálum geðvonsku sinnar yfir menn, bæði núverandi þingmenn og fyrrverandi. Gullkornin eru annars mörg í þessu fýlubloggi hans:

"Full ástæða er fyrir íslensku þjóðina að kvíða því, sem í vændum er, ef Jóhanna
heldur áfram sem forsætisráðherra að kosningum loknum með Steingrím J.
Sigfússon sem fjármálaráðherra sér við hlið. Hvorugt þeirra aðhyllist stjórnmálastefnu, sem mótar skynsamlega leið út úr þeim vanda, sem við er að
glíma. Þvermóðska Jóhönnu Sigurðardóttur gerði hana að forsætisráðherra.
Samfylkingarfólki þótti eina leiðin til að draga úr líkum á því, að hún
beitti sér fyrir óróa og klofningi í þeirra röðum, að „sparka henni upp á
við“ eins og sagt er og láta hana sitja með lokaábyrgðina á eigin herðum.
Steingrímur J. liggur síðan ekki á þeirri skoðun sinni, að hann viti í raun
allt best og þar með einnig hvernig eigi að taka á málum, Jóhanna átti sig
ekki á hinum flóknu viðfangsefnum. Hún þiggi ráð um þau frá sér."
Svona er hann geðvondur. Jóhanna varð forsætisráðherra vegna þvermóðsku sinnar! Hvað má þá segja um 13 ára forsætisráðherraferil Davíðs Oddssonar? Þvermóðska? Eða kannski bvara valdasýki? BB, svaraðu því! Grípum niður í meira, því þetta er í raun bráðgóður pistill hjá general BB King, enda pennafær maður. Hér kemur svona nett karlagrobb þar sem hann segir frá því hvernig hann gerðist formaður utanríkismálanefndar og hvað hann hefur nú verið duglegur að blogga:

"Hinn 23. apríl 1995, að loknum kosningum, varð ég menntamálaráðherra. Þá var ég tekinn til við að færa efni hér á síðuna og frá þeim tíma hef ég notað hana
til að segja frá því helsta, sem á daga mína hefur drifið, og vísa ég til
þess! Ég geri mér ekki grein fyrir, hve margar blaðsíður af efni ég hef
skrifað hér á síðuna á undanförnum 14 árum, en líklega skipta þær
þúsundum."
Svo agnúast Björn út í vinnulag þingsins og er að vonum mjög hróðugur yfir því að tókst að troða á lýðræðinu og vilja þjóðarinnar í stjórnarskrármálinu, en í hans anda kemur ómerkileg skýring á því hvers vegna stjórnin lagði kapp á að koma þessu þjóðþrifamáli í gegn:

"Einkennilegt er að verða vitni að því, að litið sé á það eins og næsta
sjálfsagt, að mál séu tekin fyrir og afgreidd á þingi í gustukaskyni eða
greiðasemi við einstaka þingmenn og þá gjarnan án tillits til hinnar vönduðu
málsmeðferðar, sem ávallt ber að krefjast. Í stjórnarskrármálinu var því
hreyft manna á meðal í þinginu, að það ætti nú að greiða fyrir afgreiðslu
þess, af því að Valgerði Sverrisdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, formanni
sérnefndarinnar yrði það gleðiefna vegna brottfarar sinnar af þingi."
Alveg er þetta nú í anda Björns Bjarnasonar. Ómerkilegur málflutningur frá ómerkilegum pólitíkus. Margir sjallar urðu reiðir þegar vændisfrumvarpið fór í gegnum þingið. Farin var hin svokallaða "sænska leið", en hún gerir vændiskaup refsiverð, ekki bara vændissölu. Þetta var tímabært mannréttindamál, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur lítinn áhuga á almennum mannréttindum ef og þegar þau skerða heilagar kýr eins og persónufrelsi, sbr. baráttu þeirra fyrir lokuðu bókhaldi hingað til uns þeir neyddust til að gera einhverja grein fyrir milljarðatugunum nú á dögunum til að bjarga því sem bjargað varð. Skemmtileg orðanotkun hjá Birni þegar hann talar í þessu samhengi um að "nauðga" frumvarpi í gegn:

"Atli Gíslason, þingmaður vinstri-grænna, nauðgaði vændisfrumvarpi sínu út úr
allsherjarnefnd og í gegnum þingið á lokadegi þess. Í fyrra tók hann
viðamiklar breytingar á almennum hegningarlögum í gislingu undir þinglok með
því að hengja þessi vændisákvæði á það frumvarp."

Þetta var smá úrval úr síðasta pistli Björns Bjarnasonar á heimasíðu sinni. Menn geta lesið bullið í heild sinni á bjorn.is en ég segi hins vegar að farið hefur fé betra af þingi. Þessi maður ástundaði ómerkilega pólitík sem einkenndist oftar en ekki af nöldri og sérlega mikilli illgirni út í ýmsa pólitíska andstæðinga. Far vel.

miðvikudagur, 15. apríl 2009

Kjartan og millurnar

Kjartan Gunnarsson er einhver skuggalegasta persónan í íslenskri pólitík síðustu ára og áratuga. Maðurinn sem stýrði Sjálfstæðisflokknum bak við tjöldin og hélt um alla þræði og kippti í þá og togaði þegar á þurfti að halda. Einkavinur Davíðs og húsbóndinn í Valhöll frá 1980, þessu vígi auðhyggju og samtryggingar nokkurra ætta, fyrirtækja og hagsmunasamtaka í okkar rótspillta landi. Kannski að Kjartan hafi verið valdamesti maðurinn á Íslandi undanfarin 25 ár. Hann lagði línurnar, hvíslaði í eyru Foringjans, skipulagði innra flokksstarf og aflaði Flokknum peninga. Hann var alla tíð músin sem læddist. Skugglegur í útliti og ef hann brosti þá var það flærðarglott á vör, fannst manni allavega.

Kjartan er nú hættur sem Don í Flokknum og kornungur maður tók við sem látinn var hætta vegna milljónanna frá FL og Landsbankanum. Kjartan hefur lélegt minni nú orðið, hann man ekki hvort hann vissi af styrkjunum til flokksins og hafði enga meðalgöngu um þá. Kjarri sat að vísu í bankaráði Landsbankans á þessum tíma og var enn með annan fótinn í Valhöll, sagður hafa verið prókúruhafi á þeim tíma sem styrkirnir voru veittir. En, hann vissi ekkert. Þessi lýgi er borin á borð og okkur gert að kyngja henni eins og öðru úr þessari átt.

mánudagur, 13. apríl 2009

Páskar

Þökk sé smiðssyninum frá Nazaret að við fáum gott frí um þessar mundir. Ef ekki væri fyrir kristindóminn, þá væri þetta bara venjuleg helgi. Og þó. Menn finna sér alltaf einhver tilefni til að fagna, t.d. fæðingu nýs árs, uppskerunni á haustin og fleira. Heiðnir menn blótuðu við ýmis tækifæri og ekki síst um jólaleytið þegar dagur er stystur á norðurhveli jarðar. Þá fögnuðu menn því að daginn tók aftur að lengja.

Samkvæmt fræðunum eru 2005 til 2015 ár síðan Jesús Jósefsson fæddist í fjárhúsi í Betlehem og hann er sagður hafa lifað í 33 ár. Hann lét lífið á krossinum á Golgatahæð í Jerúsalem eftir stuttan starfsferil, eða aðeins þrjú ár sem kennari og heilari. (prédikari og kraftaverkamaður). Ekki er vitað nákvæmlega hvenær Jesús fæddist, en fræðimenn telja að það hafi verið á árabilinu 4 f. Kr. til 6 e. Kr. Tímatal okkar er miðað við fæðingu hans og það var fyrst gert snemma á 6. öld af Díonysosi Exiguus, rómversk-kaþólskum fræðimanni í Róm. Löngu síðar drógu menn útreikninga Exiguus í efa og í staðinn fyrir að rugla í tímatalinu var fæðingu frelsarans flýtt um nokkur ár - eða seinkað eins og sumir vildu. Þannig að ef við miðum við fæðingu frelsarans þá gæti ég sagt að ég sé 45 til 55 ára gamall!!


Hvað um það, páskarnir liðu hér í Snægilinu í ró og spekt. Aðeins unnið og mikið etið, t.d. voru fimm páskaegg falin í íbúðinni og ég held að Nikulás hafi slegið alla við í þeim efnum. Í hans hlut kom að fela páskaeggið mitt sem var af minnstu sort með gulum unga. Hann tróð því ofan í pakka af Weetox morgunkorni og á endanum varð ég að fá hjálp til að finna það! Og málshátturinn var í góðu samhengi við þessa hátíðardaga og í þessum kristilega anda sem hér hefur svifið yfir hesthúsinu: "Drýgst er það sem Drottinn gefur".

fimmtudagur, 9. apríl 2009

Skírdagur

Í dag minnumst vér sannkristnir menn síðustu kvöldmáltíðar frelsara vors og lærisveinanna hans. Jafnframt er þetta dagur iðrunar ásamt öskudeginum frá fornu fari. Lýsingarorðið skír merkir hreinn og tengist því að Kristur þvoði fætur lærisveinanna. Í yfirfærðri merkingu táknar það svo hreinsun sálarinnar og ekki veitir manni nú af. Allir hafa gott af iðrun og yfirbót og andlegri hreinsun.

Myndin hér til hliðar sýnir Jesú lauga bífurnar á einum lærisveinanna sinna og má eflaust fara út í langt mál núna um guðfræðina sem þarna er að baki. T.d. um sjálfskipaða "lægingu" guðs, það að holdgervast með fæðingu frelsarans og ekki síst með fórnardauða hans og kvölum á krossinum. Allt í okkar aumra og dauðlegra manna þágu. Guðdómurinn nálgaðist okkur svo að við megum nálgast hann. Einhvern veginn svona ef ég skildi þær pælingar rétt sem ég var að lesa á netinu

En, þetta er skemmtilegur siður sem ýmsar kirkjudeildir viðhafa enn þann dag í dag. Ég rakst á eftirfarandi auglýsingu frá Boðunarkirkjunni:

Á Skírdag verður hinstu kvöldmáltíðar Drottins með lærisveinunum minnst með sérstökum hætti í Boðunarkirkjunni. Ath! kl. 20:00
Áður en samkomugestir meðtaka brauðið og bikarinn, munu þeir
þvo hver öðrum um fæturna eins og Drottinn bauð öllum að gera svo oft sem þeir minnast krossdauða hans.(Sjá jóh. 13, 1-17)
Þetta er ákaflega innihaldsrík athöfn sem reynist öllum eftirminnileg. Tilv. lýkur.

Eftirminnileg já. Maður getur rétt ímyndað sér táfýluna sem gosið hefur upp þarna í kirkjunni hjá þeim. Aldrei gæti ég þvegið súrar tær ókunnugs fólks, fætur sem búnir eru að vera lokaðir í skóm heilan dag, löðrandi í sveppum, kartnöglum og viðbjóði. En það er nú bara út af því hvað ég er takmarkaður á allan hátt og með óvenjulágan klígjuþröskuld. Ég gæti enn síður farið úr skónum fyrir framan prest eða hvern sem er til að láta hann þvo fætur mína. En ég gæti nú alveg látið nudda mig upp úr olíu af mjúkum höndum eins og Stefán, enda er það víst allt annað mál.

þriðjudagur, 7. apríl 2009

Búúúinn!

Las þá gleðilegu frétt áðan að loksins er Belginn búinn að skíta dópinu sem hann hafði innvortis við komuna til landsins. Þokkalegar móttökur eða hitt þó heldur. Handtekinn í Leifsstöð, færður á sjúkrahús, strauk þaðan og aftur handtekinn og nú berháttaður og látinn laxera. Svo hafa einhverjir haft þann ánægjulega starfa að fylgjast með hægðum Belgans í nokkra daga sem væntanlega hefur gert sín stykki í kopp svo að sönnunargögnin glötuðust ekki og rótað síðan í þeim með múrskeið eins fornleifafræðingar. Það liggur við að ég vorkenni þessum ræfli, að þurfa að skíta í kopp í nokkra daga í viðurvist lögreglu og hjúkrunarfólks. Hann vonandi hefur lært eitthvað af þessu.

miðvikudagur, 1. apríl 2009

Kátur

Frau Blucher náði þessari mynd af undirrituðum þegar hann var að skoða textavarpið og sá að Derby County hafði náð jafntefli við Screwsbury United. Mínum mönnum gengur afleitlega og eru við botninn á B-deildinni og ef fer sem horfir fara þeir lóðbeint niður í C-deild í vor. En þarna náðist stig og því er ég svona kátur á myndinni. Þetta stig getur reynst dýrmætt og ég fagna þeim öllum innilega.

Ef þið hafið ekki horft á Hrafnaþing á ÍNN, þá auðvitað mæli ég með því að þið gerið það, því svona lítur Yngvi Hrafn út í fiskabúrinu, nema bara aðeins ljótari auðvitað!