þriðjudagur, 21. apríl 2009

Skarfur kveður

Björn Bjarnason hefur verið sérstaklega svipljótur á Alþingi nú að undanförnu. Hann hrökklaðist úr ríkisstjórn í vetur og endaði þingmannsferil sinn í stjórnarandstöðu, nokkuð sem hann hafði ekki gert ráð fyrir. Sat bara út í sal eins og hver annar óbreyttur og undi hag sínum illa, það sást langar leiðir. Hann lætur af þingmennsku nú í vor í geðlægð mikilli og notaði tækifærið á heimasíðu sinni og kvaddi Alþingi með eins konar yfirliti yfir farinn veg. Þar fór hann yfir glæstan feril sinn og jós úr skálum geðvonsku sinnar yfir menn, bæði núverandi þingmenn og fyrrverandi. Gullkornin eru annars mörg í þessu fýlubloggi hans:

"Full ástæða er fyrir íslensku þjóðina að kvíða því, sem í vændum er, ef Jóhanna
heldur áfram sem forsætisráðherra að kosningum loknum með Steingrím J.
Sigfússon sem fjármálaráðherra sér við hlið. Hvorugt þeirra aðhyllist stjórnmálastefnu, sem mótar skynsamlega leið út úr þeim vanda, sem við er að
glíma. Þvermóðska Jóhönnu Sigurðardóttur gerði hana að forsætisráðherra.
Samfylkingarfólki þótti eina leiðin til að draga úr líkum á því, að hún
beitti sér fyrir óróa og klofningi í þeirra röðum, að „sparka henni upp á
við“ eins og sagt er og láta hana sitja með lokaábyrgðina á eigin herðum.
Steingrímur J. liggur síðan ekki á þeirri skoðun sinni, að hann viti í raun
allt best og þar með einnig hvernig eigi að taka á málum, Jóhanna átti sig
ekki á hinum flóknu viðfangsefnum. Hún þiggi ráð um þau frá sér."
Svona er hann geðvondur. Jóhanna varð forsætisráðherra vegna þvermóðsku sinnar! Hvað má þá segja um 13 ára forsætisráðherraferil Davíðs Oddssonar? Þvermóðska? Eða kannski bvara valdasýki? BB, svaraðu því! Grípum niður í meira, því þetta er í raun bráðgóður pistill hjá general BB King, enda pennafær maður. Hér kemur svona nett karlagrobb þar sem hann segir frá því hvernig hann gerðist formaður utanríkismálanefndar og hvað hann hefur nú verið duglegur að blogga:

"Hinn 23. apríl 1995, að loknum kosningum, varð ég menntamálaráðherra. Þá var ég tekinn til við að færa efni hér á síðuna og frá þeim tíma hef ég notað hana
til að segja frá því helsta, sem á daga mína hefur drifið, og vísa ég til
þess! Ég geri mér ekki grein fyrir, hve margar blaðsíður af efni ég hef
skrifað hér á síðuna á undanförnum 14 árum, en líklega skipta þær
þúsundum."
Svo agnúast Björn út í vinnulag þingsins og er að vonum mjög hróðugur yfir því að tókst að troða á lýðræðinu og vilja þjóðarinnar í stjórnarskrármálinu, en í hans anda kemur ómerkileg skýring á því hvers vegna stjórnin lagði kapp á að koma þessu þjóðþrifamáli í gegn:

"Einkennilegt er að verða vitni að því, að litið sé á það eins og næsta
sjálfsagt, að mál séu tekin fyrir og afgreidd á þingi í gustukaskyni eða
greiðasemi við einstaka þingmenn og þá gjarnan án tillits til hinnar vönduðu
málsmeðferðar, sem ávallt ber að krefjast. Í stjórnarskrármálinu var því
hreyft manna á meðal í þinginu, að það ætti nú að greiða fyrir afgreiðslu
þess, af því að Valgerði Sverrisdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, formanni
sérnefndarinnar yrði það gleðiefna vegna brottfarar sinnar af þingi."
Alveg er þetta nú í anda Björns Bjarnasonar. Ómerkilegur málflutningur frá ómerkilegum pólitíkus. Margir sjallar urðu reiðir þegar vændisfrumvarpið fór í gegnum þingið. Farin var hin svokallaða "sænska leið", en hún gerir vændiskaup refsiverð, ekki bara vændissölu. Þetta var tímabært mannréttindamál, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur lítinn áhuga á almennum mannréttindum ef og þegar þau skerða heilagar kýr eins og persónufrelsi, sbr. baráttu þeirra fyrir lokuðu bókhaldi hingað til uns þeir neyddust til að gera einhverja grein fyrir milljarðatugunum nú á dögunum til að bjarga því sem bjargað varð. Skemmtileg orðanotkun hjá Birni þegar hann talar í þessu samhengi um að "nauðga" frumvarpi í gegn:

"Atli Gíslason, þingmaður vinstri-grænna, nauðgaði vændisfrumvarpi sínu út úr
allsherjarnefnd og í gegnum þingið á lokadegi þess. Í fyrra tók hann
viðamiklar breytingar á almennum hegningarlögum í gislingu undir þinglok með
því að hengja þessi vændisákvæði á það frumvarp."

Þetta var smá úrval úr síðasta pistli Björns Bjarnasonar á heimasíðu sinni. Menn geta lesið bullið í heild sinni á bjorn.is en ég segi hins vegar að farið hefur fé betra af þingi. Þessi maður ástundaði ómerkilega pólitík sem einkenndist oftar en ekki af nöldri og sérlega mikilli illgirni út í ýmsa pólitíska andstæðinga. Far vel.

Engin ummæli: