Í dag minnumst vér sannkristnir menn síðustu kvöldmáltíðar frelsara vors og lærisveinanna hans. Jafnframt er þetta dagur iðrunar ásamt öskudeginum frá fornu fari. Lýsingarorðið skír merkir hreinn og tengist því að Kristur þvoði fætur lærisveinanna. Í yfirfærðri merkingu táknar það svo hreinsun sálarinnar og ekki veitir manni nú af. Allir hafa gott af iðrun og yfirbót og andlegri hreinsun.
Myndin hér til hliðar sýnir Jesú lauga bífurnar á einum lærisveinanna sinna og má eflaust fara út í langt mál núna um guðfræðina sem þarna er að baki. T.d. um sjálfskipaða "lægingu" guðs, það að holdgervast með fæðingu frelsarans og ekki síst með fórnardauða hans og kvölum á krossinum. Allt í okkar aumra og dauðlegra manna þágu. Guðdómurinn nálgaðist okkur svo að við megum nálgast hann. Einhvern veginn svona ef ég skildi þær pælingar rétt sem ég var að lesa á netinu
En, þetta er skemmtilegur siður sem ýmsar kirkjudeildir viðhafa enn þann dag í dag. Ég rakst á eftirfarandi auglýsingu frá Boðunarkirkjunni:
Á Skírdag verður hinstu kvöldmáltíðar Drottins með lærisveinunum minnst með sérstökum hætti í Boðunarkirkjunni. Ath! kl. 20:00
Áður en samkomugestir meðtaka brauðið og bikarinn, munu þeir
þvo hver öðrum um fæturna eins og Drottinn bauð öllum að gera svo oft sem þeir minnast krossdauða hans.(Sjá jóh. 13, 1-17)
Þetta er ákaflega innihaldsrík athöfn sem reynist öllum eftirminnileg. Tilv. lýkur.
Eftirminnileg já. Maður getur rétt ímyndað sér táfýluna sem gosið hefur upp þarna í kirkjunni hjá þeim. Aldrei gæti ég þvegið súrar tær ókunnugs fólks, fætur sem búnir eru að vera lokaðir í skóm heilan dag, löðrandi í sveppum, kartnöglum og viðbjóði. En það er nú bara út af því hvað ég er takmarkaður á allan hátt og með óvenjulágan klígjuþröskuld. Ég gæti enn síður farið úr skónum fyrir framan prest eða hvern sem er til að láta hann þvo fætur mína. En ég gæti nú alveg látið nudda mig upp úr olíu af mjúkum höndum eins og Stefán, enda er það víst allt annað mál.
fimmtudagur, 9. apríl 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli