mánudagur, 13. apríl 2009

Páskar

Þökk sé smiðssyninum frá Nazaret að við fáum gott frí um þessar mundir. Ef ekki væri fyrir kristindóminn, þá væri þetta bara venjuleg helgi. Og þó. Menn finna sér alltaf einhver tilefni til að fagna, t.d. fæðingu nýs árs, uppskerunni á haustin og fleira. Heiðnir menn blótuðu við ýmis tækifæri og ekki síst um jólaleytið þegar dagur er stystur á norðurhveli jarðar. Þá fögnuðu menn því að daginn tók aftur að lengja.

Samkvæmt fræðunum eru 2005 til 2015 ár síðan Jesús Jósefsson fæddist í fjárhúsi í Betlehem og hann er sagður hafa lifað í 33 ár. Hann lét lífið á krossinum á Golgatahæð í Jerúsalem eftir stuttan starfsferil, eða aðeins þrjú ár sem kennari og heilari. (prédikari og kraftaverkamaður). Ekki er vitað nákvæmlega hvenær Jesús fæddist, en fræðimenn telja að það hafi verið á árabilinu 4 f. Kr. til 6 e. Kr. Tímatal okkar er miðað við fæðingu hans og það var fyrst gert snemma á 6. öld af Díonysosi Exiguus, rómversk-kaþólskum fræðimanni í Róm. Löngu síðar drógu menn útreikninga Exiguus í efa og í staðinn fyrir að rugla í tímatalinu var fæðingu frelsarans flýtt um nokkur ár - eða seinkað eins og sumir vildu. Þannig að ef við miðum við fæðingu frelsarans þá gæti ég sagt að ég sé 45 til 55 ára gamall!!


Hvað um það, páskarnir liðu hér í Snægilinu í ró og spekt. Aðeins unnið og mikið etið, t.d. voru fimm páskaegg falin í íbúðinni og ég held að Nikulás hafi slegið alla við í þeim efnum. Í hans hlut kom að fela páskaeggið mitt sem var af minnstu sort með gulum unga. Hann tróð því ofan í pakka af Weetox morgunkorni og á endanum varð ég að fá hjálp til að finna það! Og málshátturinn var í góðu samhengi við þessa hátíðardaga og í þessum kristilega anda sem hér hefur svifið yfir hesthúsinu: "Drýgst er það sem Drottinn gefur".

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hehe elska fréttir úr snægili :) ást til ykkar í A.K City
kv. Kvaran