Flokkur/samsvörun:
Borgarahreyfingin (O) 88%
Samfylkingin (S) 80%
Framsóknarflokkur (B) 71%
Frjálslyndi flokkurinn (F) 69%
Vinstrihreyfingin - grænt framboð (V) 67%
Lýðræðishreyfingin (P) 67%
Sjálfstæðisflokkur (D) 46%
Sem betur fer varð Sjálfstæðisflokkurinn neðstur í þessari könnun, en hins vegar er athyglisvert að Vg lendir í 5. sæti, og ég sem hef hugleitt að kjósa þann flokk! Mér hugnast mörg stefnumál þeirra og Vg virðist vera laus við styrkjaspillinguna sem viðgengst í hinum flokkunum þremur. Steinunn Valdís að þiggja milljónir frá Baugi og fleiri fyrirtækjum fyrir prófkjörsbaráttu sína er algjörlega siðlaust og ömurlegt innlegg í lokasprettinn á kosningabaráttu Samfylkingarinnar.
Hins vegar stendur eitt mál á milli mín og Vg og það er Evrópusambandið. Ef Skallagrímur og co myndu nú breyta afstöðu sinni til þessa lang, langbrýnasta máls okkar Íslendinga myndi ég ekki hika við að kjósa þá. En á meðan Vg gerir það ekki kýs ég ekki þennan flokk, svo einfalt er það. Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla er arfavitlaus hugmynd, að kjósa um það hvort við eigum að hefja aðildarviðræður. Ef þjóðin myndi nú hafna því að fara í viðræður, þá munum við ekkert komast að því hvað aðildarsamningur hefði í för með sér og öll umræða um kosti og galla aðildar því marklaus, því enginn veit hverjir þeir eru eða hefðu orðið. Ef þjóðin hins vegar samþykkir að hefja aðildarviðræður, nú þá hefjum við þær og atkvæðagreiðslan því óþörf, bara kostnaður upp á einhverjar tugmilljónir sem þetta lýðræðissport kostar.
Aðildarsamninginn sjálfan á svo að leggja í dóm þjóðarinnar sem hefur endanlegt úrskurðarvald, um það eru allir sammála og því er þessi hugmynd um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu vond að mínum dómi. Þjóðin fær að samþykkja eða hafna samningi. Þetta væri jafnvitlaust og ef kæmi fram á aðalfundi í félagi tillaga um að fara í atkvæðagreiðslu um hvort ætti að greiða atkvæði um eitthvert tiltekið mál, menn sjá að fyrri atkvæðagreiðslan er út í hött.
Ég hef lesið reiðinnar býsn af ESB-efni og sérstaklega nú undanfarið vegna kennslunnar í stjórnmálafræði, en ég ákvað að þessu sinni að gera þetta efni að stórum þætti í áfanganum. Og því meira sem ég les, því sannfærðari er ég um að kostirnir vegi margfaldlega upp ókosti aðildar fyrir Ísland. Fer nú samt ekki í þær pælingar hér.
Kosningarnar eftir tvo daga, þær verða spennandi. Tekst Borgarahreyfingunni að ná inn þremur mönnum , eða fjórum jafnvel, verður Vg stærsti sjórnmálaflokkur landsins á sunnudaginn, eða Samfylkingin? Kemst Stulli brjál inn á þing? Hversu stór verður niðurlæging Sjálfstæðisflokksins? Hversu stór verður varnarsigur framsóknar?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli