föstudagur, 30. janúar 2009

Skilyrði framsóknar

Framsóknarflokkurinn tefur myndun nýrrar ríkisstjórnar sem mest hann má og setur ný skilyrði fyrir stuðningi við hana á degi hverjum. Flest af þeim eru nú hvort sem er hluti af fyrirhuguðum aðgerðum sem bæði samfó og vg ætla að fara í eins og að reka Davíð og co. Framsókn sér alla meinbugi á því að frysta eigur auðmanna og svo hafa fleiri talað á þeim nótum, stutt sé þá í mannréttindabrot osfrv. Það er ekki eins og það sé eitthvað nýtt í sögunni að frysta eigur manna ef grunur leikur á refsverðri háttsemi, það er ekki verið að tala um að gera eigur upptækar, heldur frysta þær, a.m.k. tímabundið. Guð má vita hversu margir milljarðar runnu úr landi vikurnar fyrir og fyrstu dagana eftir hrunið.

Ég hef annars illan bifur á þessum ætlaða stuðningi Framsóknarflokksins, honum er ekki treystandi núna þrátt fyrir andlitslyftingu, þetta er bara rótgróinn spillingarflokkur sem hefur þrotið erindið í stjórnmálum fyrir löngu síðan og er bara til ennþá vegna valdafíknar. Það er vont fyrir þessa stjórn vinstri flokkanna að eiga sitt stutta líf undir honum.

Nýjasta skilyrði framsóknar er að reist verði 30 metra bronsstytta af Halldóri Ásgrímssyni á Lækjartorgi, svona stalínsk stytta með voldugri undirstöðu. Steingrímur J. var víst nokkuð hrifinn af hugmyndinni sem slíkri en ekki er einhugur í flokki hans um þann sem styttan á að vera af. Samfó mun funda í kvöld og örugglega fram á nótt um málið. Ég hef hlerað að flokkarnir hafi sammælst um málamiðlunartillögu til framsóknar. Hún er sú að styttan mikla verði ekki af Halldóri, heldur Steingrími Hermannssyni sem var mun meira til vinstri en Dóri og auk þess landsfaðir mikill og elskaður af alþýðu manna, svo mjög að honum fyrirgafst hvert klúðrið á fætur öðru. Steingrímur var heiðarlegur og kunni að tala til þjóðarinnar, hann var líka algjörlega laus við hroka og stærilæti. Sagði bara: "Já, ég gerði mistök". Denni kallinn, það gengur bara betur næst, sögðu menn og þótti jafnvel enn vænna um hann en áður. Nú er bara að sjá hvort framsókn samþykkir Denna.

þriðjudagur, 27. janúar 2009

Hin rauðgræna ríkisstjórn

Sumt virðist ætla að ganga eftir í spádómum mínum varðandi nýju rauðgrænu ríkisstjórnina sem er í burðarliðnum. Ég reyndar, eins og Valur benti á í kommenti, gleymdi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherranum. En, það er alveg rétt, við förum ekkert að spandera íslenskum ráðherra í það djobb, látum bara sjávarútvegsstjóra ESB stjórna þessu!

En að öllu gamni slepptu, þá verð ég að segja, að það óhemju óréttláta kerfi sem hér tíðkast í auðlindastjórnun má svo sannarlega missa sín. Það hefur fært dauða yfir byggðir landsins, hrakandi fiskistofna, meiri auðsöfnun og eignatilfærslu í samfélaginu allar götur frá 15. öld. Svo er látið heita að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar! Það er kjaftæði, enda megum við ekki koma nálægt þeim nema á frístundabát með veiðistöng. Aðgangur að auðlindinni var afhentur örfáum einstaklingum sem rökuðu til sín milljörðum vegna þeirra forréttinda. Þetta kerfi hefur Sjálfstæðisflokkurinn varið af hörku, enda flokkur sérhagsmunagæslu og auðmanna. Gjörspilltur og siðlaus flokkur sem ver gjörspillt og siðlaust kerfi.

Svo hafa fjölmiðlar aðeins verið að velta sér upp úr samkynhneigð verðandi forsætisráðherra og ábyggilega mun það vekja athygli víða annars staðar þar sem meiri íhaldssemi ríkir um þessa hluti. Í raun fáránlegt að minnast á kynhneigð í þessu sambandi. Hún kemur málinu ekkert við, nema menn séu hræddir um að Jóhanna fari að leita á Kollu Halldórs (sem mér finnst ólíklegt) eða Katrínu Jakobs og mundi ég frekar skilja það! Þetta minnir mig á fyrirsögn í DV fyrir margt löngu sem var eitthvað á þessa leið: "Lesbískur leigubílstjóri tekinn á ofsahraða". Kynhneigð viðkomandi kom fréttinni ekkert við. Ekki frekar en að sagt hefði verið um Björn Bjarnason þegar hann tók við dóms- og kirkjumálunum: "Fyrsti BDSM kirkjumálaráðherrann", eða Árni Matt sem, segjum hefði haft fetish fyrir trjám og runnum (það er til!). "Fyrsti umhverfisráðherrann sem alltaf hefur feikað fullnægingu", "Fyrsti landbúnaðarráðherrann sem aðeins örvast kynferðislega af rauðhærðum konum", o.s.frv. Er ekki hægt að halda þessum hlutum aðskildum, því þeir koma okkur ekki við?

En, þessi ríkisstjórn verður örugglega ekki verri en sú síðasta. Ég hefði samt haft gaman af því að sjá sköllótta brjálæðinginn frá Gunnarsstöðum í Þistilfirði sem utanríkisráðherra og hefði komið vel á vondan. Sitjandi fundi hernaðarhaukanna í NATO, hann hefði verið flottur þar!

Ný ríkisstjórn

Þá er stjórnin fallin og kemur ekki á óvart. Það moldviðri sem Sjálfstæðisflokkurinn er núna að búa til um að Samfó sé ekki samstarfshæf, sé í raun margir flokkar o.s.frv. er fyrirsláttur sem flestir vonandi sjá í gegnum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur dregið lappirnar í hverju málinu á fætur öðru og er ófær um að taka á málum, t.d. nauðsynlegum hreingerningum í stjórnkerfinu. Flokkurinn er auk þess dragbítur á framfarir í landinu og er argasta afturhald sem er fyrst og fremst umhugað um völd frekar en nokkuð annað.

Ég held að aðeins ein leið sé fær í stjórnamyndun fram að kosningum. Sú stjórn verður að reyna að bjarga því sem hægt er að bjarga þessa fáu mánuði sem til stefnu eru. Þetta verður stjórn Vinstri grænna og Samfylkingar með stuðniingi Framsóknarflokksins sem ver hana falli. Mín tillaga um ráðherraskipan er svona. Athugið að ég hef fækkað ráðherrum um tvo (til sparnaðar fyrir ríkissjóð!). Kirkjumál flytjast til forsætisráðuneytis, dómsmál til samgönguráðuneytis og iðnaðarráðuneyti fer til viðskiptaráðuneytis þar sem umhverfismálin verða líka

  1. Steingrímur J. Sigfússon, Vg, forsætisráðherra og ráðherra hagstofu og kirkjumála
  2. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, S. utanríkisráðherra
  3. Össur Skarphéðinsson, S. fjármálaráðherra (hann tekur að sér utanríkismálin þegar Inga Bogga fer í veikindafrí í mánuð)
  4. Katrín Jakobsdóttir, Vg, menntamálaráðherra
  5. Jóhanna Sigurðardóttir, S, félags- og tryggingamálaráðherra
  6. Ögmundur Jónasson, Vg, iðnaðar-, viðskipta- og umhverfisráðherra
  7. Kristján Möller, S, samgöngu- og dómsmálaráðherra
  8. Kolbrún Halldórsdóttir, Vg, heilbrigðisráðherra

Þarna eru jafn margir frá hvorum flokki, kynjahlutfall er jafnt, suðvesturhornið fær að vísu sex ráðherra og landsbyggð tvo, en á móti kemur að forsætisráðuneytið fellur í hlut landsbyggðar séu menn eitthvað að spá í það mál. Óþarfi er að taka Frjálslynda flokkinn með, hann getur stutt þessa stjórn ef hann vill gegn formennsku í tveimur fastanefndum eða svo.

Hvurninn líst ykkur á?

föstudagur, 23. janúar 2009

Detox til Póllands

Hversu fáránlegt er það að spreða 100.000 kalli í að panta sér flug til Póllands með Jónínu Ben til að éta þar grænmeti í hálfan mánuð og drekka vatn eins og brjálæðingur á milli þess sem legið er á bekk með rumpinn upp í loft og volgri haugsugu, beint úr Gunnari Birgissyni eða nafna hans í Krossinum, er stungið upp í óæðri endann og alls konar groms svo sogið úr manni? Þetta er kallað "Detox-meðferð". Málið er að "afeitra" mann, þess vegna eru allar þessar ristilskolanir í prógramminu. Ónáttúran á sér fá takmörk. Menn ímynda sér að líkamanum nægi ekki að kúka þegar náttúran svo býður, það hljóti alltaf eitthvað að vera eftir sem svo safnast fyrir. Já, þetta er hryllilegt, líkaminn fyllist af saur og viðbjóði og því verður að stinga röri upp í rahóið og dæla vatni þar inn og sjúga svo gumsið út. Gunnar í Krossinum, Geiri á Goldfinger, Árni Johnsen og Friðrik Ómar halda víst ekki vatni (saur, ætti kannski að segja!) yfir því hversu órtúlega magnað þetta er. Þetta sérkennilega kompaní fór með Jónínu til Póllands í afeitrun og líkaði svona stórvel. Geiri súlukóngur er víst allt annar maður í dag, allur eitthvað svo opinn og, eh, hvað meinar hann?

Ég hef verið að hneykslast á þessu, undanfarið og séð fyrir mér hroðalegar senur af þeim félögum liggjandi á bekk, fölbleika og hvapkennda með rumpinn tilbúinn fyrir rörið hennar Jónínu sem ristilskolar þá svo einn af öðrum. Ekki vildi ég vera síðastur í röðinni! Og hvað á þetta vatnsþamb að þýða? Áróðurinn um þindarlausa vatnsdrykkju, daginn út og inn fer í taugarnar á mér. Vatnið skolar út alls konar hroða er manni sagt, en milljarða ára þróun tegundarinnar hlýtur bara að hafa séð vel fyrir þessu. Við höfum líffæri til þess arna og eigum bara að drekka vatn þegar okkur þyrstir, annars látum við það vera. Þetta er mjög einfalt. Mannslíkaminn er tæknilegasta fyrirbæri undir sólinni og svo magnað að um leið og vefi og frumur skortir vökva fer viðbragðsáætlun í gang í stjórnstöðinni (heilanum), taugaboð fara út um allt og ljós blikka og manni er sagt að drekka með því að láta þorstatilfinningu gera vart við sig. Það er bara óeðli og misnotkun að þamba vatn þegar líkaminn hefur ekkert beðið um slíkt. Í Svíþjóð er þvagleki vaxandi vandamál og læknar segja að meginástæðan sé vegna ónauðsynlegs vatnsþambs manna. Ég er nú reyndar fráleitt heilagur í þessum efnum. Líkami minn bað t.d. aldrei um áfengi, nikótín eða 7. kaffibollann, hvað þá 8. kjötbolluna í gamla daga. Maður hefur oft misboðið honum, svo mikið er víst, en ég er að bæta mig í öllum þessum atriðum.

Ég veit annars ekki hvað Gunnar Birgisson er að gera á myndinni, ekki var honum boðið hingað, en kannski að þeir félagar áðurnefndir bjóði honum með sér til Póllands næst, mér sýnist að hann hefði gott af því. Ég hef verið að kynna mér allt þetta detox dæmi og skoðað detox.is og heimasíðu Jónínu Ben og dreg auðvitað flest til baka sem hér hefur verið sagt í hálfkæringi, þó ekki þetta um vatnið! Mér sýnist að þessar Detoxferðir séu hið mesta þarfaþing og reyndar er boðið upp á ýmislegt fleira í meðferðinni en tómar ristilskolanir. En dagsskammturinn af mat er bara 500 kaloríur! Hvernig gátu gæjar eins og Geiri Gold og Johnsen lifað það af? Þeir hljóta að hafa svindlað, stolist út á kvöldin í pylsur og drasl, enda léttist Geiri grunsamlega lítið eftir ferðina og engar spurnir hef um að eyjajarlinn hafi misst einhver grömm.

sunnudagur, 18. janúar 2009

Tímamót

Það eru merkileg tímamót núna. Á þriðjudaginn nk. verður Barack Hussein Obama settur inn í embætti sem 44. forseti BNA. Kjör hans markaði þau tímamót að í fyrsta sinn mun svartur maður gegna þessu mikilvæga embætti, og það sem meira er og jafnvel enn merkilegra, að í fyrsta sinn verður forseti Bandaríkjanna yngri maður en undirritaður!

Mikið má Obama reynast slæmur ef hann verður verri en fráfarandi forseti. W. Bush er samkvæmt könnunum, og þurfti þær svo sem ekki til, óvinsælasti forseti Bandaríkjanna frá upphafi. Hann toppar jafnvel Herbert Hoover sem gerði lítið til að afstýra kreppunni miklu sem hófst árið 1929, safnaði um sig hjörð af já-bræðrum sem spiluðu bara golf á sveitasetrinu hans meðan allt var að fara til fjandans. Bush er óvinsælli en Andrew Johnson, sá sem tók við af Lincoln myrtum árið 1865. Johnson þótti ekki standa vel að enduruppbyggingu ríkisins eftir borgarastyrjöldina. W. Bush er líka óvinsælli en Warren G. Harding sem ætíð skorar hátt í óvinsældakönnunum. Harding var forseti á árunum 1920 til 1923, og þótti stjórn hans gjörspillt. Jafnvel var Harding bendlaður við Ku klux klan, allavega óð sú hreyfing uppi á forsetatíð hans og lítið var gert til að koma í veg fyrir öll þau glæpaverk gegn blökkumönnum og fleirum í Suðurríkjunum. Harding virðist hafa verið illa menntaður og samkvæmt lýsingum hálfgerður þurs sem talaði og skrifaði verstu ensku allra forseta Bandaríkjanna, frægur líka fyrir mismæli sín eins og W. Richard M. Nixon sló öll met í óvinsældum þegar hann hrökklaðist úr embætti vegna Watergate-hneykslisins 1974. En Georg Walker hefur saltað "Tricky Dick" örugglega, manninn sem horfði brúnaþungur framan í sjóvarpsvélarnar og sagði: "I´m not a crook". Þar með stimplaðist orðið "þrjótur" inn í hausinn á þeim sem horfðu.

W. skilur eftir sig efnahag í rúst, glatað orðspor á alþjóðavettvangi, eyðileggingu og dauða í Afganistan og Írak. Þessi stríð geta Bandaríkin ekki unnið með hefðbundnum vopnum, ekki frekar en í Víetnam forðum. Lexían úr því hörmungarstríði var ekki lærð í Hvíta húsinu þegar Bush-stjórnin tók við. En nú fer hann vonandi bara heim til Texas og getur núna dedúað eitthvað á búgarði Bush-klansins og hugsað hvers lags hörmung það var og vonbrigði að ekki skyldu finnast gereyðingarvopn í Írak, en tilvist þeirra var víst meginástæða innrásarinnar. Obama á hins vegar ekki létt verk fyrir höndum, vonandi tekst honum þó vel til.

miðvikudagur, 14. janúar 2009

13. jan.

Frau Blucher átti afmæli í gær, hún varð 41 árs og var nú eitt og annað gert af því tilefni. Hún lét mig gefa sér í afmælisgjöf eitthvað sem hún pantaði af lista fyrir löngu og svo ætlaði ég að leysa það út á pósthúsinu og færa henni með viðhöfn, enda spenntur orðinn að sjá hvað ég hefði gefið henni. En þá var búið að loka pósthúsinu. Í staðinn bauð ég henni upp á pönnsur í Laxagötu sem tengdó var búin að baka. Þar fékk afmælisbarnirð vasa að gjöf frá móður sinni, alveg sérstaklega hannaðan vasa undir Híasintur. Sem ég er svo að rífa í mig 5 eða 6. pönnsuna svo löðrandi í sykri, laust niður í hausinn á mér snilldarhugmynd. Nú læt ég börnin gefa mömmu sinni umrædda jurt og við Helena stormum inn í blómabúð inn í miðbæ. Þar kom kona aðvífandi og spurði hvort hún gæti aðstoðað. Já, ég hélt það nú, og var bara brattur eins og ég hefði eittthvert vit á þessu. Áttu Histesíu? Konan hváði og mundi ekki eftir þeirri jurt eða hver andskotinn það væri yfirleitt! En þá hló Helena að gamla manninum og sagði afgreiðslukonunni hvað það var sem hann vanhagaði um.

Jæja, Híasintuna fékk ég og allir urðu glaðir og sáttir á endanum. Í kvöldmat var svo ekkert slor, grjónagrautur og lifrarpylsa, enda gerist matur varla betri. Þannig var nú þessi ágæti dagur.

föstudagur, 9. janúar 2009

Helförin á Gaza

Ísrael á bágt. Landið er undir stöðugum árásum Palestínumanna sem skjóta heimasmíðuðum rakettum frá Gaza á þorp og bæi í Ísrael. Þessar eldflaugar flokkast sem gereyðingarvopn, enda draga þær nokkra kólómetra og hafa að meðaltali drepið einn Ísraelsmann á ári undanfarin ár. Þeir voru eðlilega orðnir þreyttir á þessu og réðust þess vegna inn í Gaza með skriðdrekum og loftárásum sem þegar hafa skilað umtalsverðum árangri; hátt í þúsund manns liggja í valnum, þar af þriðjungur börn. Skriðdrekum er jafnvel beitt á skólahús! Glæpahyskinu í stjórn Ísraels er hjartanlega sama.

"Við viðurkennum rétt Ísraels til að verja sig" segja Bandaríkjamenn sem bundnir eru á klafa hins júðska fjármagns og undir oki hins sameiginlega trúararfs. Við það bætist svo hið evrópska samviskubit vegna helfararinnar. Hvaða helvítis vandræðagangur er þetta hjá ríkistjórninni okkar, má íslenska ríkið sem slíkt ekki fordæma aðfarir Ísraelsmanna? Ekki er hefð fyrir því segja Geir og Ingibjörg, en samt segir Ingibjörg að hún hafi fordæmt!? Þetta er bara ömurleg linkind. Ísrael hefur alla tíð fengið sérmeðferð hjá alþjóðasamfélaginu og getur hagað sér eins og því sýnist gagnvart nágrönnum sínum, hinni hernumdu þjóð, Palestínumönnum vegna skilyrðislauss stuðnings Bandaríkjanna sem ausa meira fjármagni til þeirra en sem nemur samanlagðri þróunaraðstoð þeirra til allra þróunarríkja heimsins!! (Heimild: Jón Ormur Halldórsson).

Helför gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni er smánarblettur á sögu mannkyns, en það er líka skeytingarleysi alþjóðasamfélagsins gagnvart Palestínumönnum og glæpaverk Ísraelsmanna allt frá árinu 1948, þegar fyrstu fjöldamorðin á þeirra vegum voru framin, sú saga er ljót og blóði drifin.

fimmtudagur, 8. janúar 2009

Hverjir...

eru bestir? Og mestir? Tími hverra fer senn að koma?

miðvikudagur, 7. janúar 2009

Útsölur og fleira

Þá er skólinn byrjaður og lífið brátt að falla í réttar skorður. Maður hefur aðeins verið að trappa sig niður í áti síðustu dagana, búinn að hafa fisk einu sinni sem var sérlega ljúffengur og guði sé lof þá eru smákökurnar að klárast, kannski svona fjórar fimm eftir sem ég klára þegar ég vakna til þeirra í nótt.

Útsölurnar byrjaðar á fullu, sem eru auðvitað tómt svindl og blekkingarleikur ef marka má neytendafrömuðinn dr. Gunna. Það eru grunsamlega miklar lækkanir núna sem gefa manni tilefni til að halda að óvenju mikið og á sérlega ósvífinn hátt hafi verið okrað á okkur fyrir áramót. Ég sá t.d. í Fréttablaðinu í dag auglýsingu frá Rómantík.is sem er vefverslun með kynlífstæki fyrir þá sem ekki vissu, að þráðlausu eggin, þessi vatnsheldu sem draga 20 m. kosta nú aðeins 3995 kr. í stað 11.995 kr. Kanínutitrarinn með áfasta egginu kostar nú bara 2995 kr. í stað 6995 kr. áður. Og hjúkkubúningarnir eru líka komnir niður í tæpar 3000 kr. Hinar ýmsu starfsstéttir eiga sína búninga þarna og þeir eru reyndar með aðeins öðru sniði en maður á að venjast.

Já, ég fylgist vel með, enda verið að líta eftir því að þessi verslun og ámóta fari nú að bjóða upp á iðjuþjálfabúninga og yrði fróðlegt að sjá hvernig hann liti út. Eða íslenskukennarinn? Skyldi t.d. vera munur á sögukennarabúningi og íslenskukennarabúningi? Eða kerfisstjóra?

Eins og venjulega sté ég á stokk og strengdi heit um áramótin og öll voru þau heit á kunnuglegu nótunum og verða ekki frekar rædd hér. Allt við sinn vanagang í VMA, þar hafa menn engu gleymt í jólafríinu og eru byrjaðir að tala um kreppuna í hverri kaffistofu. Svolítið niðurdrepandi og að lokum þá var það lagt á mig nú í ársbyrjun að verða langömmubróðir. Ábyrgð þessa fólks er eigi lítil, en ég óska Auði frænku minni og Styrmi innilega til hamingju og líka ömmu Boggu og afa Stefáni sömuleiðis með þeirri ósk að þau fái oft að passa krílið í framtíðinni!