Það eru merkileg tímamót núna. Á þriðjudaginn nk. verður Barack Hussein Obama settur inn í embætti sem 44. forseti BNA. Kjör hans markaði þau tímamót að í fyrsta sinn mun svartur maður gegna þessu mikilvæga embætti, og það sem meira er og jafnvel enn merkilegra, að í fyrsta sinn verður forseti Bandaríkjanna yngri maður en undirritaður!
Mikið má Obama reynast slæmur ef hann verður verri en fráfarandi forseti. W. Bush er samkvæmt könnunum, og þurfti þær svo sem ekki til, óvinsælasti forseti Bandaríkjanna frá upphafi. Hann toppar jafnvel Herbert Hoover sem gerði lítið til að afstýra kreppunni miklu sem hófst árið 1929, safnaði um sig hjörð af já-bræðrum sem spiluðu bara golf á sveitasetrinu hans meðan allt var að fara til fjandans. Bush er óvinsælli en Andrew Johnson, sá sem tók við af Lincoln myrtum árið 1865. Johnson þótti ekki standa vel að enduruppbyggingu ríkisins eftir borgarastyrjöldina. W. Bush er líka óvinsælli en Warren G. Harding sem ætíð skorar hátt í óvinsældakönnunum. Harding var forseti á árunum 1920 til 1923, og þótti stjórn hans gjörspillt. Jafnvel var Harding bendlaður við Ku klux klan, allavega óð sú hreyfing uppi á forsetatíð hans og lítið var gert til að koma í veg fyrir öll þau glæpaverk gegn blökkumönnum og fleirum í Suðurríkjunum. Harding virðist hafa verið illa menntaður og samkvæmt lýsingum hálfgerður þurs sem talaði og skrifaði verstu ensku allra forseta Bandaríkjanna, frægur líka fyrir mismæli sín eins og W. Richard M. Nixon sló öll met í óvinsældum þegar hann hrökklaðist úr embætti vegna Watergate-hneykslisins 1974. En Georg Walker hefur saltað "Tricky Dick" örugglega, manninn sem horfði brúnaþungur framan í sjóvarpsvélarnar og sagði: "I´m not a crook". Þar með stimplaðist orðið "þrjótur" inn í hausinn á þeim sem horfðu.
W. skilur eftir sig efnahag í rúst, glatað orðspor á alþjóðavettvangi, eyðileggingu og dauða í Afganistan og Írak. Þessi stríð geta Bandaríkin ekki unnið með hefðbundnum vopnum, ekki frekar en í Víetnam forðum. Lexían úr því hörmungarstríði var ekki lærð í Hvíta húsinu þegar Bush-stjórnin tók við. En nú fer hann vonandi bara heim til Texas og getur núna dedúað eitthvað á búgarði Bush-klansins og hugsað hvers lags hörmung það var og vonbrigði að ekki skyldu finnast gereyðingarvopn í Írak, en tilvist þeirra var víst meginástæða innrásarinnar. Obama á hins vegar ekki létt verk fyrir höndum, vonandi tekst honum þó vel til.
sunnudagur, 18. janúar 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli