Þá er skólinn byrjaður og lífið brátt að falla í réttar skorður. Maður hefur aðeins verið að trappa sig niður í áti síðustu dagana, búinn að hafa fisk einu sinni sem var sérlega ljúffengur og guði sé lof þá eru smákökurnar að klárast, kannski svona fjórar fimm eftir sem ég klára þegar ég vakna til þeirra í nótt.
Útsölurnar byrjaðar á fullu, sem eru auðvitað tómt svindl og blekkingarleikur ef marka má neytendafrömuðinn dr. Gunna. Það eru grunsamlega miklar lækkanir núna sem gefa manni tilefni til að halda að óvenju mikið og á sérlega ósvífinn hátt hafi verið okrað á okkur fyrir áramót. Ég sá t.d. í Fréttablaðinu í dag auglýsingu frá Rómantík.is sem er vefverslun með kynlífstæki fyrir þá sem ekki vissu, að þráðlausu eggin, þessi vatnsheldu sem draga 20 m. kosta nú aðeins 3995 kr. í stað 11.995 kr. Kanínutitrarinn með áfasta egginu kostar nú bara 2995 kr. í stað 6995 kr. áður. Og hjúkkubúningarnir eru líka komnir niður í tæpar 3000 kr. Hinar ýmsu starfsstéttir eiga sína búninga þarna og þeir eru reyndar með aðeins öðru sniði en maður á að venjast.
Já, ég fylgist vel með, enda verið að líta eftir því að þessi verslun og ámóta fari nú að bjóða upp á iðjuþjálfabúninga og yrði fróðlegt að sjá hvernig hann liti út. Eða íslenskukennarinn? Skyldi t.d. vera munur á sögukennarabúningi og íslenskukennarabúningi? Eða kerfisstjóra?
Eins og venjulega sté ég á stokk og strengdi heit um áramótin og öll voru þau heit á kunnuglegu nótunum og verða ekki frekar rædd hér. Allt við sinn vanagang í VMA, þar hafa menn engu gleymt í jólafríinu og eru byrjaðir að tala um kreppuna í hverri kaffistofu. Svolítið niðurdrepandi og að lokum þá var það lagt á mig nú í ársbyrjun að verða langömmubróðir. Ábyrgð þessa fólks er eigi lítil, en ég óska Auði frænku minni og Styrmi innilega til hamingju og líka ömmu Boggu og afa Stefáni sömuleiðis með þeirri ósk að þau fái oft að passa krílið í framtíðinni!
miðvikudagur, 7. janúar 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli