Ég held að aðeins ein leið sé fær í stjórnamyndun fram að kosningum. Sú stjórn verður að reyna að bjarga því sem hægt er að bjarga þessa fáu mánuði sem til stefnu eru. Þetta verður stjórn Vinstri grænna og Samfylkingar með stuðniingi Framsóknarflokksins sem ver hana falli. Mín tillaga um ráðherraskipan er svona. Athugið að ég hef fækkað ráðherrum um tvo (til sparnaðar fyrir ríkissjóð!). Kirkjumál flytjast til forsætisráðuneytis, dómsmál til samgönguráðuneytis og iðnaðarráðuneyti fer til viðskiptaráðuneytis þar sem umhverfismálin verða líka
- Steingrímur J. Sigfússon, Vg, forsætisráðherra og ráðherra hagstofu og kirkjumála
- Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, S. utanríkisráðherra
- Össur Skarphéðinsson, S. fjármálaráðherra (hann tekur að sér utanríkismálin þegar Inga Bogga fer í veikindafrí í mánuð)
- Katrín Jakobsdóttir, Vg, menntamálaráðherra
- Jóhanna Sigurðardóttir, S, félags- og tryggingamálaráðherra
- Ögmundur Jónasson, Vg, iðnaðar-, viðskipta- og umhverfisráðherra
- Kristján Möller, S, samgöngu- og dómsmálaráðherra
- Kolbrún Halldórsdóttir, Vg, heilbrigðisráðherra
Þarna eru jafn margir frá hvorum flokki, kynjahlutfall er jafnt, suðvesturhornið fær að vísu sex ráðherra og landsbyggð tvo, en á móti kemur að forsætisráðuneytið fellur í hlut landsbyggðar séu menn eitthvað að spá í það mál. Óþarfi er að taka Frjálslynda flokkinn með, hann getur stutt þessa stjórn ef hann vill gegn formennsku í tveimur fastanefndum eða svo.
Hvurninn líst ykkur á?
1 ummæli:
Þetta lítur vel út og sýnist mér valinn maður vera í hverju rúmi. Helst að maður setji spurningarmerki við Möllerinn :)
Það er góð vinstri slagsíða á þessum lista, sem sannfærir mig enn einu sinni um að þú ert góður og gegn vinstrimaður og ættir að vera í vinstriflokki!
Sakna að vísu landbúnaðarráðuneytis og sjávarútvegsráðuneytis en þau verða kannski óþörf þegar ESB verður farið að stýra þessum málum.
Annars hallast ég að byltingu í þessum málum eins og ýmsum öðrum. Stokka upp þessi ráðuneyti og fækka þeim. Ráðherrar eiga ekki að vera þingmenn. Ef þingmenn veljast til ráðherradóms þá eiga varamenn að taka sæti þeirra á þingi.
Og það er til fullt af hæfu fagfólki sem getur stýrt flestum ráðuneytunum betur en pólitíkusar. Slíkt fólk ætti að nýta.
Kosningakerfinu þarf að breyta. Leggja af raðaða lista. Kjósendur merki við flokk og nafn/nöfn.
Best að láta þetta duga í bili! En það eru spennandi dagar framundan.
Skrifa ummæli