miðvikudagur, 14. janúar 2009

13. jan.

Frau Blucher átti afmæli í gær, hún varð 41 árs og var nú eitt og annað gert af því tilefni. Hún lét mig gefa sér í afmælisgjöf eitthvað sem hún pantaði af lista fyrir löngu og svo ætlaði ég að leysa það út á pósthúsinu og færa henni með viðhöfn, enda spenntur orðinn að sjá hvað ég hefði gefið henni. En þá var búið að loka pósthúsinu. Í staðinn bauð ég henni upp á pönnsur í Laxagötu sem tengdó var búin að baka. Þar fékk afmælisbarnirð vasa að gjöf frá móður sinni, alveg sérstaklega hannaðan vasa undir Híasintur. Sem ég er svo að rífa í mig 5 eða 6. pönnsuna svo löðrandi í sykri, laust niður í hausinn á mér snilldarhugmynd. Nú læt ég börnin gefa mömmu sinni umrædda jurt og við Helena stormum inn í blómabúð inn í miðbæ. Þar kom kona aðvífandi og spurði hvort hún gæti aðstoðað. Já, ég hélt það nú, og var bara brattur eins og ég hefði eittthvert vit á þessu. Áttu Histesíu? Konan hváði og mundi ekki eftir þeirri jurt eða hver andskotinn það væri yfirleitt! En þá hló Helena að gamla manninum og sagði afgreiðslukonunni hvað það var sem hann vanhagaði um.

Jæja, Híasintuna fékk ég og allir urðu glaðir og sáttir á endanum. Í kvöldmat var svo ekkert slor, grjónagrautur og lifrarpylsa, enda gerist matur varla betri. Þannig var nú þessi ágæti dagur.

Engin ummæli: