þriðjudagur, 30. desember 2008

Árið gert upp

2008. Annus horribilis. Árið sem mér var tilkynnt að ég yrði langömmubróðir!! Annað eftirminnilegt var að Guðrún útskrifaðist með láði frá HA í vor og ekki mátti á milli sjá hvort okkar var fegnara. Skin og skúrir skiptust á eins og gengur. Pabbi dó óvænt í september, maður átti alls ekki von á því þótt ekkert væri hann unglamb lengur, en ég hélt einhvern veginn að hann ætti eftir nokkur góð ár enn.

Þetta var árið sem 20 til 30 manns settu þjóðfélagið á hausinn. Allt það ömurlegasta við íslenskt samfélag hefur skotið upp kollinum á undanförnum mánuðum, nú er það flest orðið sýnilegt sem margan grunaði áður. Gjörspillt flokksræði og kunningjapólitík í bland við siðblindu, græðgi og hroka viðskiptalífsins. Ónýt stjórnvöld og lamaðar eftirlitsstofnanir, gagnslaust og niðurlægt Alþingi. Árið sem ég missti trúna á stjórnmálaflokkunum.

Samt stend ég fastar á því en fótunum að hér á landi býr upp til hópa gott fólk, vinnusamt, fólk með gott hjartalag, skapandi fólk og listrænt, dálítið óheflað og villt að vísu og við erum hreint ofboðslegir plebbar oft á tíðum, en góðir plebbar samt, og ágætlega gefnir þrátt fyrir heimskulega hegðun. En bernsk er þjóðin, það hefur hún sýnt og sannað svo margoft og illa siðmenntuð yfirhöfuð, enda stutt síðan fólk almennt var grálúsugt með hor í nös og bjó á tvist og bast útum allar sveitir, afdali og heiðar í hrörlegum og saggafullum torfbæjum. Venjulegar framfarir urðu ekki hér eins og víðast hvar annars staðar, við urðum bara allt í einu rík og var kippt inn í einhvern nútíma og hlupum yfir menningarskeið sem vörðu í aldir annars staðar. borgir og hellulögð stræti og torg. Sporvagnar og járnbrautir 19. aldar. Við hins vegar vorum bara á hestbaki alveg þangað til bíllinn kom sem síðan hefur átt hug okkar allan.

Nóg um það. Nú koma niðurstöður mínar:

Klúður ársins: Ríkisstjórnin, Davíð og Jónas FR.

Sjónvarpsþáttur ársins: Kastljós með Davíð og sjónvarpsávarp Geirs til þjóðarinnar 6. okt.

Hrollur ársins: "Guð blessi íslenska þjóð". Þarna varð ég hræddur, þetta minnti mig óþyrmilega á leiðtoga í ríkjum þar sem trúarofstæki og pólitík blandast saman sbr. í Bandaríkjunum, Íran og víðar.

Kjánahrollur ársins: Heimkoma silfurdrengjanna

Afrek ársins: Silfrið og kvennalandsliðið í fótbolta

Vonbrigði ársins: Samfylkingin, fyrir að vera sú drusla að fylgja ekki eftir innantómum hótunum um að víkja beri seðlabankastjórn og að láta Sjálfstæðisflokkinn stela af sér frumkvæði í ESB-málunum. Ekkert mun heldur breytast hér, sama liðið heldur áfram að véla um öll okkar ráð hér eftir sem hingað til

Skúrkar ársins: Allt heila helv. draslið; Seðlabankinn, Sjálfstæðisflokkurinn, ríkisstjórnin, Fjármálaeftirlitið, bankarnir og viðskiptadúddarnir

Hneyksli ársins: Að Davíð hefur enn ekki verið rekinn. Jónas Fr. hefur enn ekki verið rekinn, ríkisstjórnin situr enn, að enginn þykist bera ábyrgð, Hannes Hólmsteinn Gissurarson gengur ennþá laus

Græðgi ársins: Viðskiptadúddarnir og bankastjórarnir, árangurstengdu launin, svikamyllurnar við fyrirtækjakaup, kaupréttarsamningarnir osfrv.

Spámenn ársins, bæði í sínu föðurlandi og annars staðar: Þorvaldur Gylfason sem ítrekað benti á hvert við værum að sigla með þessa skrípamynd af kapítalisma allt þetta ár og það síðasta líka í fjölmörgum greinum í Fréttablaðinu. Danski blaðamaðurinn hjá Ekstrablaðinu sem hakkaði útrásarvíkingana í sig og sagði þá tóma djöfulsins svindlara sem þeir reyndust svo vera

Undrun ársins: Ekki enn búið að reka Davíð og Jónas Fr. og fleiri og Hannes Hólmsteinn gengur ennþá laus.

Hroki ársins: Davíð Oddsson, ræðan á fundi Verslunarráðsins

Fylgisspekt ársins: Fylgisspekt Geirs við Davíð snýst ekki um pólitík, heldur er dulsálfræðileg stúdía

Staurblinda og afneitun ársins: Geir og Davíð

Taktleysi ársins: Stulli brjál og trukkaramótmælin. Athyglissjúkur vörubílstjóri og kollegar hans reyndust aðeins vera að mótmæla því að fá ekki að keyra stanslaust og hvíldarlasut um þjóðvegi landsins á annað hundrað kólómetra hraða á klukkustund, já engar helv. ESB-reglur hér!! Og líka þegar þessir hálfvitar mættu á þingpalla til að baula, en þá óvart voru Alþingismenn að samþykkja að auka þróunaraðstoð við fátækan heim.

Nöldrari ársins: Ég

Kommentari ársins í hesthúsinu: Stína

Ég er samt ekki sú rót að ég óski ekki landsmönnum öllum árs og friðar og það geri ég af hjartans einlægni, líka þeim Davíð, Hannesar jafna og Hannesi Hólmsteini og öllum hinum. Guð blessi ykkur!

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heill og sæll og kærar þakkir fyrir liðið ár. Ekki er útlit fyrir það að hún Gunna blessunin, rétt fertug, þurfi að sofa hjá langömmubróður á þessu ári og ég slepp við að ganga til sængur með ömmu. Svo vonum við bara það besta á nýju ári.

Nafnlaus sagði...

Má signa at eg hopi ikki,at figgjarstödan í Island verdur so ring, sum spátt er, so tad er eitt ynski fra mær fyri allar islendsingar, at tit mugu klara tykkjum og hava nokk til dagin og vegin: eg vil takka fyri skjótt farna árid, og gott vælsignad nyggjár.

p.p.

Nafnlaus sagði...

jei ég fæ verðlaun er það ekki? heyrru annars ég gleymdi bingóvinninginum Mikks hjá mömmu þú kannski geymir hann fyrir mig þar til við sjáumst hress næst;)... híhí
bestu kv. kvaran