Vg er samkvæmt Gallup orðinn stærsti stjórnmálaflokkur landsins! Skallagrímur gat heldur ekki leynt brosinu, enda er hann örugglega sama marki brenndur og aðrir stjórnmálamenn í hinum flokkunum sem hugsa um flokkshag fremur en þjóðarhag. Hér er nefnilega ekki lýðræði, heldur flokksræði. Öll pólitík hér á landi snýst um flokka og flokkslínur, flokksaga og flokksterror. Spillingin á sér farveg í gegnum flokkana sem veita henni skjól. Fyrirgreiðslur og frami í samfélaginu verður fyrir tilstilli flokkanna sem eru eins og frímúrarareglur með leynifundum í reykfylltum bakherbergjum þar sem ekkert má fréttast. Sumir stjórnmálaflokkar eru vissulega verri en aðrir hvað þetta varðar.
En Steingrímur má vel við una og flokkur hans. Ég held að þetta sé nú fyrst og fremst óánægjufylgi sem er að sópast að Vg, ekki að menn séu svo mikið hrifnir af þeim flokki, heldur fyrst og fremst hundóánægðir með stjórnarflokkana.
Það lá við að ég léti skrá mig í Vg hérna um árið þegar Steingrímur kallaði Davíð "druslu og gungu", og ekki minnkaði hrifning mín á honum um daginn þegar hann gekk ógnandi að Birni Bjarna sem var eitthvað að gjamma í ræðustól og var heldur ógnandi í framkomu svo að Birni fipaðist heldur betur og bjóst við að fá á lúðurinn. Þá hló ég, Björn svona skíthræddur í ræðustól og tafsaði bara eitthvað með sköllótta brjálæðinginn frá Þistilfirði beint fyrir framan sig. Bara að hann hefði látið það eftir sér og barið hrokann ofan í dómsmálaráðherrann í staðinn fyrir að ýta við Haarde.
En, það verður fróðlegt að fylgjast með fylgi flokkanna á næstunni, þeir eru flestir að snúast á sveif með Samfylkingu í Evrópumálunum, jafnvel Vg líka. (Ögmundur nú síðast ásamt um og yfir 50% af stuðningsfólki flokksins samkvæmt nýlegri skoðanakönnun) Þó ekki Steingrímur sem ennþá lemur skallanum við stein og vill ekki, ekki frekar en Davíð og Geir, einu sinni kanna möguleika okkar í samstarfi 27 Evrópuþjóða sem flestar, ef ekki allar, sjá hag sínum betur borgið innan sambandsins en að standa utan þess. Það er ótrúleg þrjóska og í raun ófyrirleitin skammsýni að hafna því fyrirfram að okkur muni vegna betur með aðild að Evrópusambandinu. Við vitum ekki hvaða kostir bjóðast okkur fyrr en að loknum aðildarviðræðum, hvað tillit verður tekið til séraðstæðna okkar osfrv. Allar umræður um kosti og galla verða marklausar í raun þangað til menn láta af þessu trúaratriði, að vilja ekki ræða þessi mál.
mánudagur, 1. desember 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli