Ég er eyðilagður maður núna. Missti af messunni í morgun, en við Helena ætluðum að mæta fjórða sunnudaginn í röð til að hlýða á guðsorð og fagran söng. Já, maður hefur verið sérlega trúrækinn þennan mánuðinn og þessar stundir hafa bara verið ágætar. Að vísu villtumst við óvart inn á uppskeruhátíð sunnudagsskóla Akureyrarkirkju síðustu helgi. Við hugðum að þar færi fram messa með hefðbundnu sniði, forspil og "náðin sé með yður", sálmar, fyrir og eftir ritningarlestur, trúarjátningin og faðirvorið í lokin. Þannig var þetta í messunum í Glerárkirkju, fyrst hjá síra Gunnlaugi og svo hjá Síra Arnaldi.
Í Akureyrarkirkju mætti okkur mikill fjöldi fólks og börn í áberandi meirihluta. Hva, voða aðsókn er þetta? Heyrðu, er þetta ekki Valur frændi þarna prúðbúinn á kirkjkubekk með sálmabók í hönd? Jú, ekki bar á öðru og Hafdís með honum. Detti mér nú allar dauðar lýs úr höfði! Auðvitað var eðlileg skýring á þessu. Snædís Ylva var þarna með kór Lundarskóla sem söng engilblítt og svo fór nú gamanið að kárna. Séra Sólveig Halla leiddi þessa samkomu og hún var ekki einu sinni í búning (hempu) og þá fór mér að skiljast hvar ég var lentur. Æi nei, hún ætlar að taka "Ég vil líkjast Daníel og ég vil líkjast Rut" með viðeigandi fíflagangi. Karlmenn standa upp og vilja líkjast Daníel af því að hann er fylltur hetjumóð og svo sest maður niður og kvenfólk stendur upp því það vill líkjast Rut af því að hún er svo sæt og góð (hugguleg sýn á kynhlutverkin eða hitt þó!) Svona gekk þetta í drjúga stund, upp og niður og mér leið asnalega, er hreint ekki fyrir svona fyrirgang. Helena hló að mér því hún sá hvernig mér leið. En ég gat nú hlegið að henni líka loks þegar þessari samkomu var lokið. Hún spurði mig nefnilega hvers vegna Valur hefði verið þarna. Hafði einhvern tímann frétt af því að hann væri ekki í Þjóðkirkjunni og jafnvel ekki kristinn heldur. Nei, nei, hann er það ekki segi ég. Hún: "Bíddu, er hann þá gyðingur"?
Ekki veit ég hvað Valur segir um þetta, en hann er örugglega ekki gyðingur og verður það aldrei, en gyðingatrúar gæti hann verið eða orðið en tel það afar ósennilegt. Það er gaman að þessu, hún segir alltaf eitthvað á hverjum degi sem kætir mig. Um daginn var hún að rifja upp nafnið á hljómsveitinni Hvanndalsbræður og mundi það ekki. "Æi, hvað heita þeir nú aftur, jú þarna, eh, Betlehemsbræður já"!
sunnudagur, 21. desember 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Hehe, nei ég verð sennilega seint gyðinglegrar trúar; ætli væri ekki bara skást að blóta þá Þór og Óðin og félaga ef maður fyndi einhvern tímann hjá sér hvöt til að ákalla "eitthvað". Mín afstaða til trúarbragða er ljós, þótt ég stundi enga sérstaka boðun á henni.
Og ég lét reyndar Daníels/Rutarleikinn framhjá mér fara þarna á sunnudaginn og taldi það ekki meira guðlast en fussið og sveiið í eldri hjónunum fyrir aftan mig þegar Heims um ból var á dagskrá :)
Skrifa ummæli