föstudagur, 19. desember 2008

Ungu anarkistarnir

Halda áfram að mótmæla, þeir krefjast afsagnar ráðamanna í ríkisstjórn, seðlabanka og fjármálaeftirliti. Þeir vilja að hreinsað verði úr skilanefndunum, en þar starfa ýmsir sem voru á bólakafi í spillingunni í gömlu bönkunum og eiga núna að véla um öll þau glæpaverk sín og vina sinna. Ungu anarkistarnir eru farnir að brjóta rúður. Hvað ég styð þá heilshugar! Það tjón er næstum óendanlega minna en bankarnir og allt hitt dótið sem ég nefndi áðan hafa valdið þjóðinni mörg ár fram í tímann.

Mér líður eins og ég sé staddur í súrrealískri mynd eftir Fellini, ástandið er óraunverulegt og fáránlegt. Til dæmis það að enginn, ekki nokkur einasti maður, hefur séð hina minnstu ástæðu til að segja af sér. Reikningurinn vegna Ice-save málsins og skyldra mála hefur verið sendur þjóðinni og hann er á annað þúsund milljarða! Hér er stofnun sem heitir Fjármálaeftirlitið og yfir henni er einn af flokkshundum Sjálfstæðisflokksins, Jónas Fr. Jónsson. Ætli honum finnist ekki vont að vera yfir stofnun sem heitir svo gegnsæju nafni? Eftirlit með hverjum andskotanum?

Engin ummæli: