mánudagur, 11. ágúst 2008

Aftur í hversdagslífið

Við erum komin heim eftir fína viku á Laugarvatni. Nokkuð heppin með veður, suma daga skein sólin og hitinn um 20 gráður þegar best lét. Fórum víða um Suðurlandið, en náðum samt að slappa vel af og sofa mikið. Það fór enginn á fætur fyrir kl. 10 þessa daga, enda ástæðulaust þegar maður er í fríi og meiningin að slaka á. Fórum tvisvar niður á Selfoss og fórum í bíó og tókum hús á vinum okkar þar sem buðu í mat og ég fékk sérstakan sightseeing um plássið frá Kjartani fyrrum kollega sem segir að Selfoss sé bær í sókn og líklega er það rétt hjá honum, a.m.k. virðist meiri uppbygging þar og fjölgun íbúa heldur en hér á eyrinni.

Við skoðuðum flesta skylduga túristastaði þarna um slóðir, Geysi og Gullfoss, Þingvelli og Skálholt og einn daginn fórum við niður á "Stokkseyrarbakka" eins og segir í einum Stuðmannatexta. Svo var líka bara fínt að vera á Laugarvatni. Fórum í sund flesta daga og einu sinni leigðum við báta og rérum út á vatnið. Busluðum líka í vatninu og tókum jafnvel sundsprett, enda vatnið á köflum nokkuð hlýtt. Við sötruðum hvítvín á kvöldin og spiluðum alls kyns fjölskylduspil, lásum, spjölluðum og rifumst lítið. Sem sagt, allt ákaflega huggulegt og kristilegt nánast. Gaman líka að vera öll saman fjölskyldan, því Kata kom með, bað raunar um það (öðruvísi mér áður brá!), en það var frábært að hafa hana með.

Á laugardaginn var "Hýrark" eða Gay pride gangan í Reykjavík (ekki á laugarvatni!) og ég sá það fyrirbæri nú í fyrsta skipti og var skíthræddur um að ég myndi uppgötva hommann í mér við að sjá öll herlegheitin, en sem betur fór gerðist ekkert slíkt. En þetta var nú meira fríksjóið, þessi ganga og á einhvern hátt bjánaleg finnst mér. Hef samt ekkert á móti samkynhneigðum og styð réttindabaráttu þeirra af heilum hug. Þetta er samt þeirra dagur og það er hið besta mál. Svo um kvöldið fórum við til Stokkseyrar, á uppáhaldsresturantinn hans Ólafs Ragnars, ásamt Höllu sem útskrifaðist fyrr um daginn frá Keili, Stínu chick afmælisbarni, Þóru tengdamúttu, Pétri og Ellen. Þar gröðkuðum við í okkur humar sem var mikið hnossgæti og mátti líka vera það, enda var þetta andskotanum dýrara! Keyrðum svo til Ak. í gær og lífið strax orðið hversdagslegt sem er auðvitað ágætt líka. Kannski ekki svo hversdaglegt, því það er mikið um að vera í sjónvarpinu þesa dagana. Ég ætla að horfa á nokkra handboltaleiki og ekki má ég heldur láta hjá líða að sjá nokkra spennandi leiki í strandblaki kvenna, þeirri göfugu íþrótt, en það er einmitt leikur í nótt, kl. 03.30. Góðar stundir.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já, ég var líka dreginn nauðugur viljugur í hýrarkið en slapp tiltölulega óskaddaður frá þessu karnivali. Helst að Palli og co á bleika vagninum ógnuðu hljóðhimnunum en kynhneigðin stóðst álagið. En það var frábært að heyra hvað gekk vel hjá ykkur að hafa það gaman saman á Suðurlandinu.