Hreiðurdrúturinn fagnaði 8 ára afmæli sínu í dag og bauð til sín fjölda gesta. Sem betur fer áttu ekki allir heimangengt og því voru bara 8 eða 9 strákar hér. Það var ansi fjörugt og á köflum fullmikill hávaði fyrir minn smekk, enda hótaði ég því að henda þeim öllum út þegar þeir fóru að rífast um leikjatölvuna. Veitingar voru hinar bestu. Móðir afmælisbarnsins og eldri systir hans stóðu í ströngu kvöldið áður við að baksa og baka svo á endanum sýndist mér þetta stefna í þokkalega fermingarveislu. Hvernig veður þetta þegar hann verður 10 ára?
Ætli sé ekki best þá að gera grein fyrir fyrirsögninni. Frau Blucher er ekki með barni svo vitað sé. það er þá allavega ekki fyrir minn tilverknað, enda hafa læknavísindin því fyrir komið með þartilgerðri aðgerð á undirrituðum fyrir nokkrum árum að örðugt yrði um vik. Katrín er kona einsömul að því er ég best veit og það er heldur enginn verulega óléttur í fjölskyldunni samkvæmt mínum upplýsingum. Hins vegar flutti inn á okkur í dag lítill stubbur sem ég líklega ættleiði á endanum. Hann heitir Birkir og er stökkmús úr dýrabúðinni í Húsasmiðjunni. Kvikyndið fékk Nikulás sem sagt í afmælisgjöf frá Árna og Kötu og menn geta rétt ímyndað sér hversu glaður væntanlegur afi varð, þ.e. ég. Fyrir er auðvitað naggrís að nafni Yasmin og ég hélt að það væri nóg. Nikulás valdi þetta undarlega músarnafn, ekki veit ég hvers vegna, en hann var ákveðinn, Birkir skal hann heita. Nú veit enginn hvers kyns músin er, enda er þetta bara örlítið kríli og ekki að búast við að nokkuð sjáist þarna undir honum í bráð. En til að flækja þetta ekki sögðum við að þetta væri "strákur".
Ekki nenni ég að tjá mig um Reykjavíkurpólitík hér eða annað, þetta er bara að verða að einhverju sjálflægu heimilisbloggi, enda er það sjálfsagt það sem vinir og ættingjar vilja lesa, ekki enn eina greinina um það hversu mikið fífl ég telji að þessi eða hinn sé. Bráðum fer ég að halda dagbók um hægðir mínar og ég efa ekki að menn (og konur) myndu fylgjast spennt með. Maður fer hvort sem er að nálgst þann aldur þegar lífshamingjan snýst um það hversu góðar og vel formaðar hægðir maður hefur.
En ykkur er velkomið að heilsa upp á Birki hvenær sem er og kjá framan í hann og "sjá hvað hann er dætur".
laugardagur, 16. ágúst 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Hæ pabbi! Synd...mig langar svo mikið í eitt annað sistkyna kríli! Þú ert nú bara 48 ára, það er ekkert!
hæ Dortmund
svona blogg finnst mér skemmtilegt, ég sit allavega við tölvuna og les hérna með bros á vör á sunnudagskvöldi. þú kannt svo sannarlega að kæta mann;)
kv. Kvaran
Skrifa ummæli