föstudagur, 25. júlí 2008

Ólaf fyrir forseta - áfram!


Það er tímabært að ég spjalli örlítið um forseta vorn, herra Ólaf Ragnar Grímsson, sem guð varðveiti og geymi. Ég fagna því að hann ætli að sitja fjórða körtímabil sitt, enda hefur hann staðið sig afburða vel í þessu vandasama embætti. Ég er ekki með neina kaldhæðni hér, það er bara staðreynd sem mörgum andskotum hans svíður undan. Þess vegna er farið út í lágkúru eins og nú um daginn þegar Jón Magnússon, frjálslyndur rasisti, fann að því að forsetahjónin hefðu farið út að borða með kellingu að nafni Martha Stewart. Það væri bara alls ekki við hæfi. Hún er svona “rich bitch” þarna í Ameríku og hefur skrifað margar bækur og verið með sjónvarpsþætti sem fjalla um lífstíl, eitthvað sem kaninn elskar og reyndar fleiri. Hún veit ekki aura sinna tal og svo varð hún uppvís að skattasvindli fyrir nokkrum árum og hlaut dóm eins og vera ber. Nú vill svo til að Marta blessunin er vinkona Frú Grimsson-Mussajeff og við því er fjandakornið ekkert að gera. Þær vilja fara út að borða, vinkonurnar, og eru svo elskulegar að taka Óla með sem annars hefði bara verið einn að gaufa á Bessastöðum yfir “Everwood” eða einhverju.

Ólafur er bara orginal snillingur. Hann er eini maðurinn sem ég þekki sem er fyndinn, bæði án þess að ætla sér það eða hafa hugmynd um það. Röddin, fasið og stelling handanna, allt er þetta vel þekkt og maðurinn því himnasending fyrir eftirhermur á borð við Jóhannes Kristjánsson sem nær honum svo frábærlega að hann er eiginlega líkari Ólafi en Ólafur sjálfur! Hann flytur ræður við hvers kyns tilefni. Kvenfélagssamband Íslands fagnar 60 ára afmæli og Ólafur fjallar, blaðalaust auðvitað, um það hvernig frumherjarnir á sviði kvenfrelsis hafi með kjarki sínum og staðfestu búið í haginn fyrir konur í dag og hvað við stöndum í mikilli þakkarskuld við þær merku fósturlandsins freyjur og so videre. Búnaðarþing og Óli ræðir um gildi landbúnaðar, Slysavarnarfélag Íslands, Rauði krossinn, iðnrekendur og verslunarráðið, bara nefndu það, alls staðar kemur forsetinn og kann að segja nákvæmlega réttu orðin við hvert tilefni. Framhaldsskólinn á Húsavík fagnaði 20 ára afmæli sínu á síðasta ári og efnt var til fagnaðar á Hótel Húsavík. Ólafur náttúrulega mættur og hélt 20 mín. langa ræðu í það minnsta. Hann talaði blaðalaust, aldrei tafs, engin hikorð eins og eh, uh, hérna. Allan tímann horfði hann fram í salinn og framan í fólk. Þetta var í raun mjög sérstakt að upplifa þetta. Nú innihald ræðunnar var bara eins og vera ber við svona tímamót; gildi menntunar, þýðingu skólans fyrir byggðarlagið, kjarkur frumherjanna, tækifærin til sóknar á nýrri öld… Heyra mátti saumnál detta því hann náði augum og eyrum viðstaddra svo rækilega að ég hef aldrei séð annað eins.

Ég man líka eftir forsetaheimsókn einhvers staðar út á landi fyrir nokkrum árum og sjónvarpið náði viðtali við Ólaf. Þetta var svona skuð á Vestfjörðum þar sem allt var á leið til andskotans, flestir voru farnir og allt á hausnum og bara eymd og drungi yfir öllu. Aðspurður um það hvernig sér litist á plássið svaraði forseti vor því píreygur og með sannfæringarglotti að maður nánast trúði honum. Ólafur: “Það er merkilegt, í raun alveg sérstakt, hversu mikill kraftur er í fólki hér og ég hef tekið eftir því að unga fólkið hér á Skuðseyri er opið, lífsglatt og bjartsýnt á möguleika þess til að skapa sér framtíð með ýmis konar nýsköpun. Það sér tækifæri til sóknar og við sem stöndum í forystu í samfélaginu verðum að búa svo um hnútana og þessi mikli sköpunarkraftur sem býr í æsku þessa lands fái notið sín.” Þetta er nú ekki haft orðrétt eftir forseta vorum, en eitthvað í þessa veru samt.

Fréttamynd 21. aldarinnar er líka af Ólafi Ragnari Grímssyni. Hún birtist í Séð og heyrt (já viðurkenni það bara að ég las allavega það eintak!). Myndin var harmræn í meira lagi, Ólafur lá sem dauður væri einhvers staðar í óbyggðum með svona ljótan knapahjálm á hausnum handleggsbrotinn og Dorriett á hnjánum hlúði að honum með tár á hvarmi. Þau höfðu sem sagt brugðið sér í reiðtúr og undir Ólaf var sett ótemja sem gáði ekki að því hversu tiginn sá var sem í hnakknum sat. Ólafur féll af baki með þessum afleiðingum þótt ódrukkinn væri. Viðbúnaður var mikill, forsetinn vafinn inn í teppi og mátti sig ekki hræra meðan beðið var eftir þyrlunni. Þá fóru illar tungur að tala um “Séð og heyrt-væðingu forsetaembættisins” eins og það væri því eða Ólafi að kenna. Þetta er nú bara tíðarandinn því miður kannski, að elta fræga fólkið og þessir sneplar nærast á svona efni.

Stína, ef þú ert enn að lesa, þá held ég að nú sé vel við hæfi að leggja hönd á brjóst og hrópa: “Heill forseta vorum og fósturjörð. Húrra, húrra, húrraaaaah!”

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sir Dortmund
ég tók undir af heilum hug og ég er sammála þér með ólaf að hann kitlar mínar hláturstaugar en það er allt á góðlegu nótunum. ég segi bara eitt, ef við fáum tækifæri til að hitta hann í eigin persónu, skulum við hneigja okkur eins og almúginn myndi bukta sig og beyja fyrir konung sinn. því ef það væri til íslenskir aðalsmenn þá væri Ólafur Ragnar Grímsson fremstur þeirra tignu manna.
kv. Kvaran