mánudagur, 28. júlí 2008
La vita bella
Fórum til Húsavíkur í gær (lau) á Mærudaga og það var nú aldeilis ljúft. Hitinn um eða yfir 20 stig og það var notalegt að sitja í sólinni með einn kaldan á Bakkanum, en þar er nýtt veitingahús sem Skuld heitir. Við röltum um bryggjuna og bæinn og hittum ansi marga sem þurfti að spjalla við. "Ætliði ekki bara að flytja aftur austur?" Hitti líka marga gamla nemendur mína úr FSH sem sumir hverjir eru orðnir þrítugir eða og rúmlega það. Stútungskallar og kellingar með tvö börn og háskólanám að baki. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Borðuðum svo á Sölku, út á stétt og ekkert lát varð á blíðunni. Stemningin þarna var eins og einhvers staðar í útlöndum og væri bara óskandi að maður fengi að njóta fleiri svona daga hér á klakanum.
Dagurinn í dag var ekki síðri veðurfarslega, hitinn aftur um eða yfir 20 stig. Fórum í sund á Hrafnagili og svo auðvitað hið skylduga jólahús sem Helena er farin að kveinka sér undan, segist hata þetta jólahús, sérstaklega á sumrin. Nú, taka verður tillit til gelgjunnar sem farin er að krauma í henni af fullum þunga, þannig að við stoppuðum stutt og keyrðum svo því næst Eyjafjarðarhringinn. Síðan heim í Snægilið í sól og næsheit á svölunum með bók og kaffi.
Já, mikið er lífið ljúft þegar blessuð sólin skín, allt verður miklu betra, geðið og annað lyftist upp og manni þykir, á svona dögum, jafnvel örlítið vænt um Björn Bjarnason!! Best að hætta núna áður en ég fer að lýsa yfir ást minni á Davíð Oddssyni, Sigurði Kára og Bush og fleirum, það er stórhætta á því, enda veðurspáin með eindæmum hagstæð næstu daga.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli