Gott að geta hengt sig í svona samkomulag til að fría sig allri ábyrgð á flóttamannsræfli sem þar að auki er biksvartur. Skítt með það að viðkomandi vann með íslenskum hjálparsamtökum að þróunarverkefnum í heimalandi sínu Keníu. Þar er lýðræðið lítt þróaðra en í Zimbawbe og eftir að hafa boðið sig fram í kosningum gegn stjórnarsinna og tapað var reynt að drepa hann fyrir ósvífnina og því aðeins einn kostur í stöðunni, að flýja land. Hingað hafði hann komið áður og datt þess vegna í hug að sækja um hæli hérna, enda þekkti hann orðið nokkra mörlanda sem kannski hafa sagt honum að hér væri allt svo gott, engin spilling, mildir stjórnarherrar, hreint loft, besta vatn í heimi og Íslendingar væru bara æðislegir, svo umburðarlyndir og víðsýnir heimsborgarar með einstaklega þroskaða borgaravitund og fleira svona bull. Því miður er ekkert beint flug frá Kenía til Íslands og þess vegna lenti hann á Ítalíu og kom hingað þaðan til allrar guðsblessunar fyrir helvítis rasistana hjá Útlendingastofnun. Þá kom Dyflinarsamkomulagið til skjalanna og því var hægt að handtaka manninn og rífa burt frá eiginkonu og nýfæddri dóttur og senda til Ítalíu, í það bananalýðveldi Berlusconis.
Farið var að reglum í þessu máli segir Sigurður Kári sem er voðalega hræddur við fordæmisgildið sem fælist í því að veita þessum manni hæli. Vill nú ekki einhver góðviljaður maður taka það þjóðþrifaverkefni að sér að rasskella þingmanninn fyrir þessi orð? Mannúð og mildi eiga ekki upp á pallborðið hjá stjórnvöldum í þessu máli, það gæfi ekki gott fordæmi. Ömurleg vinnubrögð Útlendingastofnunar birtast í því að fjalla ekki um mál mannsins þrátt fyrir beiðni þar um og reka hann síðan úr landi frá fjölskyldu sinni út í algera óvissu um það hvað Ítalir svo gera. Þeir gætu vísað honum til síns heima, í barbaríið þar og ef Paul Ramse verður svo drepinn þangað kominn vona ég bara að Sigurður Kári, forstjóri Útlendingastofnunar, Björn Bjarnason og fleiri sofi vært eftir sem áður, sennilega eru þeir of hrokafullir allir til að viðurkenna klúðrið, heimsku sína og mannvonsku.
Ljóst er að stjórnvöld eru að brjóta ýmsa mannréttindasáttmála í máli þessu eins og lögfræðingur þeirra hjóna benti á í Kastljósþætti í kvöld, m.a. Mannréttindayfirlýsingu S.þ. og Barnasáttmála S.þ. Einhvers staðar segir í lögum um flóttamenn að þá eigi ekki að senda til baka ef hætta er talin á að slíkt muni geta ógnað lífi viðkomandi og þá geta menn, ef þeir vilja, horft framhjá þeirri heimild sem Dyflinnarsamkomulagið veitir stjórnvöldum. En nú skilst mér að utanríkisráðuneytið sé að þrýsta á einhverja takka og best að sjá hverju það skilar. Það flæktist ekki fyrir okkur að veita Duranona ríkisborgararétt, enda kunni hann handbolta og var líklegur til að auka hróður okkar á alþjóðavettvangi, en hann hafði flúið pólitískt ófrelsi á Kúbu og var þó að ég held ekki í neinni lífshættu. Bobby Fischer fékk sömuleiðis hæli hér og þá var vísað í mannúðarástæður með ábúðarfullum hætti og ráðamenn voru þá ansi drjúgir með sig og fannst þeir sjálfir vera voða næs. Af hverju mátti það ekki núna?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli