sunnudagur, 6. júlí 2008

Í sól og sumaryl

Fórum í dag fram í Leyningshóla með nesti og alles. Þetta var ekta suðrænn pikknikk með teppi og þar til gerðum bastkörfum með ýmsu góðgæti í. Safar og kex, ilmandi brauð í Bakaríinu við brúna sem við smurðum heima, súkkulaði og kaffi auðvitað. Vantaði bara rauðvínið og ostana. Sól skein í heiði og það var virkilega heitt þarna í skóginum. Löbbuðum heilmikið og svo var fótboltinn með í för. Ég og Helena yfirgáfum svo liðið til að fara á KA-leik sem við hefðum betur látið ógert. Gunna, tengdó, Kata, Árni og Nikulás urðu eftir.

Fjandans leikurinn var hundleiðinlegur og KA mönnum hefndist rækilega fyrir síðasta leik, en þá skoruðu þeir sigurmark á móti Þór í uppbótartíma. Það sama gerðist í dag, nema það var bara hitt liðið sem skoraði. Við hefðum bara átt að vera lengur fram í firði í blíðunni heldur en að húka yfir þessum leik. Ekkert er eins tilgangslaust peningaaustur eins og að fara á leik sem tapast og ég tala nú ekki um þegar kalt er í veðri. Leikirnir verða ekki fleiri hjá mér í sumar, búinn að sjá tvo og það er meira en nóg.

Engin ummæli: