fimmtudagur, 3. júlí 2008

Góður dagur

Þessi dagur er búinn að vera góður. Vaknaði um 7.30 og skutlaði Frau Blucher í vinnuna og í þessari líka blíðu. Hún hefði nú bara getað gengið þennan stutta spöl eða tekið strætó sem ekkert þarf að greiða fyrir og leyft mér að sofa áfram. Það verður hugsanlega einhver breyting á þessu því konan vill nú taka bílpróf á gamals aldri. Væntanlegur ökukennari hennar verður ekki öfundsverður af því hlutskifti, því konan er farin að reskjast og viðbrögð orðin hæg. Ekki sér hún heldur vel frekar en margir aðrir í ætt hennar og spurning um að hún fái að æfa sig fyrst á Melgerðismelum áður en óhætt er að hleypa henni á götur bæjarins.

Svo fór Nikulás á fótboltaæfingu og ég fékk mér kríu á meðan. Eftir hádegi var aðallega setið úti á svölum í blíðunni með kaffi, blöð og bók og reyndar einn ískaldan Carlsberg líka sem rann óvenju ljúflega niður í hitanum. Svo eftir kvöldmat var farið í Brynju og ís sleiktur og svolgraður á meðan við röltum um innbæinn í stafalogni og mollu. Að lokum fórum við í Byggðaveg og fengum kaffi og köku og ekki nóg með það, heldur fengum við Helena reiðhjól upp í hendurnar sem Halli kom með. Þetta voru hjól sem skilin höfðu verið eftir af eigendum sínum á stúdentagörðum og stóð til að henda. Ekkert var að þeim annað en loftlaus dekk og því er búið að bjarga. Þannig að nú fer maður að hjóla eins og brjálæðingur og sýnir bara puttann þegar farið verður framhjá glæpabúllunum sem selja bensín og olíu. "Já, eigiði bara ykkar helvítis bensín sjálfir!" En, þetta var góður dagur sem sagt.

Engin ummæli: