þriðjudagur, 28. apríl 2009
Sigurvegari kosninganna
miðvikudagur, 22. apríl 2009
Borgarahreyfingin?
Flokkur/samsvörun:
Borgarahreyfingin (O) 88%
Samfylkingin (S) 80%
Framsóknarflokkur (B) 71%
Frjálslyndi flokkurinn (F) 69%
Vinstrihreyfingin - grænt framboð (V) 67%
Lýðræðishreyfingin (P) 67%
Sjálfstæðisflokkur (D) 46%
Sem betur fer varð Sjálfstæðisflokkurinn neðstur í þessari könnun, en hins vegar er athyglisvert að Vg lendir í 5. sæti, og ég sem hef hugleitt að kjósa þann flokk! Mér hugnast mörg stefnumál þeirra og Vg virðist vera laus við styrkjaspillinguna sem viðgengst í hinum flokkunum þremur. Steinunn Valdís að þiggja milljónir frá Baugi og fleiri fyrirtækjum fyrir prófkjörsbaráttu sína er algjörlega siðlaust og ömurlegt innlegg í lokasprettinn á kosningabaráttu Samfylkingarinnar.
Hins vegar stendur eitt mál á milli mín og Vg og það er Evrópusambandið. Ef Skallagrímur og co myndu nú breyta afstöðu sinni til þessa lang, langbrýnasta máls okkar Íslendinga myndi ég ekki hika við að kjósa þá. En á meðan Vg gerir það ekki kýs ég ekki þennan flokk, svo einfalt er það. Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla er arfavitlaus hugmynd, að kjósa um það hvort við eigum að hefja aðildarviðræður. Ef þjóðin myndi nú hafna því að fara í viðræður, þá munum við ekkert komast að því hvað aðildarsamningur hefði í för með sér og öll umræða um kosti og galla aðildar því marklaus, því enginn veit hverjir þeir eru eða hefðu orðið. Ef þjóðin hins vegar samþykkir að hefja aðildarviðræður, nú þá hefjum við þær og atkvæðagreiðslan því óþörf, bara kostnaður upp á einhverjar tugmilljónir sem þetta lýðræðissport kostar.
Aðildarsamninginn sjálfan á svo að leggja í dóm þjóðarinnar sem hefur endanlegt úrskurðarvald, um það eru allir sammála og því er þessi hugmynd um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu vond að mínum dómi. Þjóðin fær að samþykkja eða hafna samningi. Þetta væri jafnvitlaust og ef kæmi fram á aðalfundi í félagi tillaga um að fara í atkvæðagreiðslu um hvort ætti að greiða atkvæði um eitthvert tiltekið mál, menn sjá að fyrri atkvæðagreiðslan er út í hött.
Ég hef lesið reiðinnar býsn af ESB-efni og sérstaklega nú undanfarið vegna kennslunnar í stjórnmálafræði, en ég ákvað að þessu sinni að gera þetta efni að stórum þætti í áfanganum. Og því meira sem ég les, því sannfærðari er ég um að kostirnir vegi margfaldlega upp ókosti aðildar fyrir Ísland. Fer nú samt ekki í þær pælingar hér.
Kosningarnar eftir tvo daga, þær verða spennandi. Tekst Borgarahreyfingunni að ná inn þremur mönnum , eða fjórum jafnvel, verður Vg stærsti sjórnmálaflokkur landsins á sunnudaginn, eða Samfylkingin? Kemst Stulli brjál inn á þing? Hversu stór verður niðurlæging Sjálfstæðisflokksins? Hversu stór verður varnarsigur framsóknar?
þriðjudagur, 21. apríl 2009
Skarfur kveður
"Full ástæða er fyrir íslensku þjóðina að kvíða því, sem í vændum er, ef JóhannaSvona er hann geðvondur. Jóhanna varð forsætisráðherra vegna þvermóðsku sinnar! Hvað má þá segja um 13 ára forsætisráðherraferil Davíðs Oddssonar? Þvermóðska? Eða kannski bvara valdasýki? BB, svaraðu því! Grípum niður í meira, því þetta er í raun bráðgóður pistill hjá general BB King, enda pennafær maður. Hér kemur svona nett karlagrobb þar sem hann segir frá því hvernig hann gerðist formaður utanríkismálanefndar og hvað hann hefur nú verið duglegur að blogga:
heldur áfram sem forsætisráðherra að kosningum loknum með Steingrím J.
Sigfússon sem fjármálaráðherra sér við hlið. Hvorugt þeirra aðhyllist stjórnmálastefnu, sem mótar skynsamlega leið út úr þeim vanda, sem við er að
glíma. Þvermóðska Jóhönnu Sigurðardóttur gerði hana að forsætisráðherra.
Samfylkingarfólki þótti eina leiðin til að draga úr líkum á því, að hún
beitti sér fyrir óróa og klofningi í þeirra röðum, að „sparka henni upp á
við“ eins og sagt er og láta hana sitja með lokaábyrgðina á eigin herðum.
Steingrímur J. liggur síðan ekki á þeirri skoðun sinni, að hann viti í raun
allt best og þar með einnig hvernig eigi að taka á málum, Jóhanna átti sig
ekki á hinum flóknu viðfangsefnum. Hún þiggi ráð um þau frá sér."
"Hinn 23. apríl 1995, að loknum kosningum, varð ég menntamálaráðherra. Þá var ég tekinn til við að færa efni hér á síðuna og frá þeim tíma hef ég notað hanaSvo agnúast Björn út í vinnulag þingsins og er að vonum mjög hróðugur yfir því að tókst að troða á lýðræðinu og vilja þjóðarinnar í stjórnarskrármálinu, en í hans anda kemur ómerkileg skýring á því hvers vegna stjórnin lagði kapp á að koma þessu þjóðþrifamáli í gegn:
til að segja frá því helsta, sem á daga mína hefur drifið, og vísa ég til
þess! Ég geri mér ekki grein fyrir, hve margar blaðsíður af efni ég hef
skrifað hér á síðuna á undanförnum 14 árum, en líklega skipta þær
þúsundum."
"Einkennilegt er að verða vitni að því, að litið sé á það eins og næstaAlveg er þetta nú í anda Björns Bjarnasonar. Ómerkilegur málflutningur frá ómerkilegum pólitíkus. Margir sjallar urðu reiðir þegar vændisfrumvarpið fór í gegnum þingið. Farin var hin svokallaða "sænska leið", en hún gerir vændiskaup refsiverð, ekki bara vændissölu. Þetta var tímabært mannréttindamál, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur lítinn áhuga á almennum mannréttindum ef og þegar þau skerða heilagar kýr eins og persónufrelsi, sbr. baráttu þeirra fyrir lokuðu bókhaldi hingað til uns þeir neyddust til að gera einhverja grein fyrir milljarðatugunum nú á dögunum til að bjarga því sem bjargað varð. Skemmtileg orðanotkun hjá Birni þegar hann talar í þessu samhengi um að "nauðga" frumvarpi í gegn:
sjálfsagt, að mál séu tekin fyrir og afgreidd á þingi í gustukaskyni eða
greiðasemi við einstaka þingmenn og þá gjarnan án tillits til hinnar vönduðu
málsmeðferðar, sem ávallt ber að krefjast. Í stjórnarskrármálinu var því
hreyft manna á meðal í þinginu, að það ætti nú að greiða fyrir afgreiðslu
þess, af því að Valgerði Sverrisdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, formanni
sérnefndarinnar yrði það gleðiefna vegna brottfarar sinnar af þingi."
"Atli Gíslason, þingmaður vinstri-grænna, nauðgaði vændisfrumvarpi sínu út úr
allsherjarnefnd og í gegnum þingið á lokadegi þess. Í fyrra tók hann
viðamiklar breytingar á almennum hegningarlögum í gislingu undir þinglok með
því að hengja þessi vændisákvæði á það frumvarp."
Þetta var smá úrval úr síðasta pistli Björns Bjarnasonar á heimasíðu sinni. Menn geta lesið bullið í heild sinni á bjorn.is en ég segi hins vegar að farið hefur fé betra af þingi. Þessi maður ástundaði ómerkilega pólitík sem einkenndist oftar en ekki af nöldri og sérlega mikilli illgirni út í ýmsa pólitíska andstæðinga. Far vel.
miðvikudagur, 15. apríl 2009
Kjartan og millurnar
mánudagur, 13. apríl 2009
Páskar
fimmtudagur, 9. apríl 2009
Skírdagur
Myndin hér til hliðar sýnir Jesú lauga bífurnar á einum lærisveinanna sinna og má eflaust fara út í langt mál núna um guðfræðina sem þarna er að baki. T.d. um sjálfskipaða "lægingu" guðs, það að holdgervast með fæðingu frelsarans og ekki síst með fórnardauða hans og kvölum á krossinum. Allt í okkar aumra og dauðlegra manna þágu. Guðdómurinn nálgaðist okkur svo að við megum nálgast hann. Einhvern veginn svona ef ég skildi þær pælingar rétt sem ég var að lesa á netinu
En, þetta er skemmtilegur siður sem ýmsar kirkjudeildir viðhafa enn þann dag í dag. Ég rakst á eftirfarandi auglýsingu frá Boðunarkirkjunni:
Á Skírdag verður hinstu kvöldmáltíðar Drottins með lærisveinunum minnst með sérstökum hætti í Boðunarkirkjunni. Ath! kl. 20:00
Áður en samkomugestir meðtaka brauðið og bikarinn, munu þeir
þvo hver öðrum um fæturna eins og Drottinn bauð öllum að gera svo oft sem þeir minnast krossdauða hans.(Sjá jóh. 13, 1-17)
Þetta er ákaflega innihaldsrík athöfn sem reynist öllum eftirminnileg. Tilv. lýkur.
Eftirminnileg já. Maður getur rétt ímyndað sér táfýluna sem gosið hefur upp þarna í kirkjunni hjá þeim. Aldrei gæti ég þvegið súrar tær ókunnugs fólks, fætur sem búnir eru að vera lokaðir í skóm heilan dag, löðrandi í sveppum, kartnöglum og viðbjóði. En það er nú bara út af því hvað ég er takmarkaður á allan hátt og með óvenjulágan klígjuþröskuld. Ég gæti enn síður farið úr skónum fyrir framan prest eða hvern sem er til að láta hann þvo fætur mína. En ég gæti nú alveg látið nudda mig upp úr olíu af mjúkum höndum eins og Stefán, enda er það víst allt annað mál.
þriðjudagur, 7. apríl 2009
Búúúinn!
miðvikudagur, 1. apríl 2009
Kátur
Ef þið hafið ekki horft á Hrafnaþing á ÍNN, þá auðvitað mæli ég með því að þið gerið það, því svona lítur Yngvi Hrafn út í fiskabúrinu, nema bara aðeins ljótari auðvitað!
sunnudagur, 29. mars 2009
Að loknum landsfundum
Ræður voru fremur slepjulegar hjá Samfó og sjöllum, en ég fylgdist með báðum fundum nokkuð reglulega. Þangað til í gær, en þá kvaddi sér hljóðs Davíð nokkur Oddsson og flutti einhverja þá geggjuðustu ræðu sem ég hef heyrt lengi. Nú ætla ég ekkert að segja um innihald þessarar dæmalausu ræðu, hún ber vitni um mann í algerri afneitun og var í raun bara sorglegt að sjá þennan fyrrum mikla stjórnmálaleiðtoga leggjast svona lágt. En það sem vakti athygli mína var það hversu hjarðmennskan er yfirgengileg í þessum flokki. Menn stóðu upp og klöppuðu margoft fyrir hverri þvælunni sem upp úr DO kom og allir í einu, því enginn þorir að skera sig úr. Menn voru eins og hlýðnar kindur á þessum landsfundi. Líka þegar Geir Haarde svaraði DO í dag og gagnrýndi hann fyrir uppistandið í gær. Svo fékk maður nettan aulahroll þegar Þorgerður Katrín sagði að loknum formannskosningum í dag og lét það verða sín síðustu orð: " Bjarni, við verðum að klára þetta dæmi. Koma svo, áfram Ísland, við verðum að berjast, berjast, berjast!" Sagði hún að íþróttasið og uppskar gífurleg fagnaðarlæti (jarm) kindanna í Laugardalsfjárhúsinu.
Segi bara eins og einhver bloggarinn í dag: "Plíís Þorgerður, ekki klára dæmið, þið eruð búin að gera nóg af ykkur!"
fimmtudagur, 26. mars 2009
Ylrækt
Til eru fræ. Sem betur fer verða þau ekki öll að blómum og vonandi að þessir dugmiklu ræktendur með svona líka græna fingur fái eitthvað verðugra að gera í framtíðinni en að hassvæða landann, hann er held ég alveg nógu mikið bilaður fyrir. Hassið er kannski fínt í einhverjum tilvikum til að lina þrautir, td. hjá krabbameinssjúklingum og þá mættu læknar ávísa þessu efni þegar þannig stendur á. Aðrir hafa ekkert með þetta að gera, nema þeir vilji vera flatir og latir, hirðulausir, andfélagslegir og sama um allt eins og pólitík t.d. Ekki furða að sumir frjálshyggjupostular séu fylgjandi því að gefa þetta allt saman frjálst, fyrst markaðurinn er til. Ef eftirspurn er, þá á að fullnægja henni, það er ein kennisetningin þeirra. Það væri auðvitað yfirstéttinni og misréttisöflunum í hag að sem fæstir nenntu að hugsa um stjórnmál og sætu bara í sínu kannabisskýi og segðu "peace". Það þyrfti þá ekki að hafa áhyggjur af því liði á meðan.
mánudagur, 23. mars 2009
Aðeins um pólitíkina
Mér finnst þetta einmitt mjög mikilvægt og Vg er fyrir sitt leyti að greiða fyrir því að núverandi stjórn haldi áfram eftir kosningar. Samfylkingin verður þá líka að koma til móts við Vg, hún getur þá ekki krafist aðildarviðræðna án þess að þjóðin samþykki það fyrst. Svo verður samfó að fara að ákveða sig hvort hún vill vera virkjanaflokkur eða friðunarflokkur. Samfó er beggja blands í þeim málum og það virkar einhvern veginn illa pólitískt séð. Hreinna er að vera annað hvort, þá vita kjósendur betur fyrir hvað flokkurinn stendur í þeim efnum. En, þetta er ekki bara óákveðni og vindhanaháttur, ég held að meirihluti Íslendinga sé einmitt á þessari línu, að virkja fyrir orkufrekan iðnað, en það er bara ekki sama hvar það er gert og hvernig. Flokkarnir verða að ná saman um þessi mál. Báðir þessir flokkar hafa svipaðar áherslur í velferðarmálum.
Að lokum er mjög mikilvægt að vinstri flokarnir nái hreinum meirihluta og Framsókn verði gefið langt nef og sent í stjórnarandstöðu með sjöllum. Sigmundur Davíð ástundar undarlega pólitík og er bara hreint furðulegur maður. Hann er að leika eitthvert guðföðurhlutverk og þykist þess umkominn að setja ofan í við hana þegar hentar, til að minna á sig sennilega, skammar og talar eins og hann viti allt, en er bara uppfullur af helvítis hroka. Enga framsókn eftir kosningar takk!
þriðjudagur, 17. mars 2009
Sjónvarpsveisla
Úff. Það tekur jafnvel á að skrifa þetta. Maður lifir sig inn í samkomuna og fer að hrópa hósíanna og hallelúja fyrr en varir. Svo skipti ég yfir á hina uppáhaldsstjóvarpsstöð mína, en það er ÍNN. Þar ræður ríkjum Ingvi Hrafn sem gerður er út frá Valhöll, eða það hlýtur að vera miðað við þá pólitísku slagsíðu sem er á mörgum þáttanna. Ég hló mig máttlausan í kvöld, eins og í gærkvöldi og fyrrakvöld, yfir þætti sem heitir heimastjórnin eða eitthvað álíka. Þarna eru sjallar með saltfisk í hjartastað, menn eins og Óli Björn, Jón Kristinn Snæhólm, Ármann Ólafsson og Hallur Halls að tala við tölvu upp á borði og í henni syndir hausinn á Ingva Hrafni, allur bjagaður og óhugnanlegur. Web cameran greinilega of nálægt nefinu á honum. Hann þykist vera að tala frá Florida, en það er haugalygi, hann er bara í næsta herbergi eða í mesta lagi heima hjá sér og finnst þetta flott. Hljóðið er á eftir myndinni, eða öfugt og svo vellur alls konar þvæla upp úr þessu klónaða fríki sem eins og svífur í formalíni í fiskabúri. Stundum held ég að hann sé á einhverju, svo ótrúlegt er bullið í manninum. En, stórskemmtilegt sjónvarpsefni.
miðvikudagur, 11. mars 2009
Draugar
Ætli þetta góða fólk trúi því í alvöru að slagorðin sem það hefur valið sér hafi eitthvað að segja í því hörmungarástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu? Að háttvirtir kjósendur kaupi þau? Alltaf þegar ég les svona slagorð, hvort sem um er að ræða frambjóðanda áðurnefnds flokks eða samfó, Vg eða annarra flokka, það skiptir ekki máli, fer um mig einhver ónotatilfinning. Mér finnst óheiðarleikinn og stærilætin skína af orðunum. Margt af þessu fólki vill ábyggilega vel, vill láta gott af sér leiða, en mér finnst samt að meirihlutinn sé í framboði til að þjóna einhverjum persónulegum hagsmunum og framapoti.
Fyrirsjáanleg er töluverð endurnýjun á Alþingi í vor og er það vel. En margir núverandi þingmenn ætla að gefa kost á sér áfram, eru bara gleiðir og jafnvel þeir sem hafa stutt þá stefnu einarðlega sem hefur komið þjóðinni á hausinn. Til dæmis hefur einn frambjóðandinn í Íslendingi og núverandi þingmaður valið sér orðin áræði, dugnaður og þor, áfram sem sagt, sem dugði okkur svo helvíti vel á undanförnum árum!
Aðrir draugar munu svo fljótlega líta dagsins ljós og smjúga inn um bréfalúgur okkar. Norðurland og fleiri pésar. Þeir sneplar verða líka uppfullir af áræði og dugnaði og gott ef ekki kjarki, trausti og heiðarleika líka. Gallinn við þetta allt saman, eins og ég sagði áðan, er að margt fólk þarna vill vel, en má sín lítils vegna flokksagans og þessa flokksræðis sem hér ríkir. Ríkisstjórnin er þó að rembast við að koma fram breytingum á stjórnarskránni í tæka tíð fyrir kosningar í því skyni að auka áhrif kjósenda varðandi persónukjör. Um það hefur verið sterk krafa í þjóðfélaginu, en Sjálfstæðisflokkurinn, einn flokka, stendur gegn því og heldur uppi málþófi og sakar stjórnina um leið að engin mál komist í gegn! Þetta er nú meiri þjóðþrifaflokkurinn eða hitt þó heldur.
laugardagur, 7. mars 2009
Á þessum degi...
fimmtudagur, 5. mars 2009
Lok, lok og læs og allt í stáli
þriðjudagur, 3. mars 2009
Kominn aftur
Svo nú get ég haldið áfram að ausa úr mér, ef ég nenni þar að segja. Skólinn tekur sífellt meiri tíma, verkefnin hlaðast upp og áður en maður veit af er komið að prófum. Svo það er spurning hversu mikið ég get mokað flórinn í Hesthúsinu nú á næstunni. Af nógu er að taka svo sem. Til dæmis mætti hella sér yfir Sigmund Davíð og vitleysisganginn í honum nú undanfarið, en ég nenni því ekki núna. Kannski á morgun, já kannski ég skrifi um það þrítuga gamalmenni sem Jón Baldvin kallaði svo!
sunnudagur, 22. febrúar 2009
miðvikudagur, 18. febrúar 2009
Sérstakur saksóknari
Það er nú gott og blessað. En það er alveg makalaust að þetta skyldi ekki hafa verið gert fyrr en þrír og hálfur mánuður var liðinn frá hruninu. Þeir sem sök eiga á því hafa haft allan þennan tíma til að koma peningum undan í skattaskjól, tæta pappíra og gera hvaðeina til að hylja slóð sína. Svo finnst mér Ólafur þessi ansi rólegur í tíðinni. Hann var skipaður í embættið um miðjan janúar og tók til starfa 1. feb. og enn er ekki byrjað að yfirheyra.
Ólafur sagði í viðtali um daginn að þeir væru nú bara nýfluttir inn í eitthvert húsnæði og eru að koma sér fyrir. Hvar eigum við að hafa kaffikönnuna strákar? Það er gríðarlega mikilvægt að vanda vel til verka segir Ólafur og fyrst er að átta sig á umfangi málsins. Það mun taka einhverjar vikur að átta sig á því býst ég við. Ekki er hægt að handtaka menn nema fyrir liggi rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi sem mér finnst að Séstakur saksóknari efist um og leggur mikla áherslu á að fara sér hægt. Efnahagslífið hrundi hér bara, bankarnir fóru á hausinn og fólk missti sparifé sitt. Með öðrum orðum: Bankarnir með sína óhæfu stjórnendur rændu þúsundir Íslendinga, stórum hluta af ævisparnaði fólks og það á að telja manni trú um að ekki liggi fyrir rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi!? Þegar bandaríska risafyrirtækið Enron fór á hausinn voru stjórnendur þess leiddir út í handjárnum, enda höfðu þeir gerst sekir um hluti sem minna ansi mikið á þetta hrun bankakerfisins hér. Þar voru menn dæmdir fyrir ólögleg innherjaviskipti, brot á hlutafélagalögum, fjárdrátt og meinsæri.
Er ekki búið að benda á þetta allt saman hér? Vilhjálmur Bjarnason, var hann ekki að vinna mál fyrir dómi þar sem banki braut á honum og hundruðum öðrum hluthöfum hlutafélagalög? Erlendir bankar hafa upplýst um gríðarlega fjármagnsflutninga frá landinu vikurnar fyrir hrunið? Eignum stjórnenda var komið undan í skjól osfrv. Enginn hefur verið yfirheyrður, enginn hefur sætt ábyrgð, en þjóðin á að borga brúsann og verka upp skítinn eftir bankasóðana.
"Shit happens".
sunnudagur, 15. febrúar 2009
Lífið er ósanngjarnt!
sunnudagur, 8. febrúar 2009
Übermench
Tök hans á flokknum voru (og eru?) slík að lýsa mætti þeim sem stalínskum að frátöldum "hreinsunum miklu". Davíð lét aldrei drepa neinn, en "bláu höndinni" beitti hann óspart á þá sárafáu sem voguðu sér að hafa aðrar skoðanir. Jón Magnússon, til skamms tíma frjálslyndur, veit ekki hvað hann er núna og Ólafur Magnússon fyrrv. borgarstjóri hafa báðir lýst því hvernig þeir voru settir út af sakramentinu í flokknum þegar þeir misstigu sig og viku út af flokkslínunni. Skoðanaskipti tíðkuðust heldur ekki árum saman í Sjálfstæðisflokknum, hann var bara til fyrir Davíð. Landsfundir voru bara ein hallelújasamkoma foringjanum til dýrðar og minntu á trúarsamkomur. Sjálfstæðisflokkurinnn var Davíð og Davíð var Sjálfstæðisflokkurinn. Og Sjálfstæðisflokkurinn átti Ísland. Nú er þetta farið að minna mig óþyrmilega á Joseph Göbbels, áróðursráðherra Hitlers sem æpti á einu flokksþingi nasista í þúsundáraríkinu: "Hitler ist Deutschland und Deutschland ist Hitler, Sieg Heil!" Menn voru ekkert með einhverja andstöðu á þeim fundum, en heldur ekki í Flokknum hér heima.
Davíð var jafnan fljótari en aðrir að greina aðalatriði frá aukaatriðum, kom sér alltaf beint að efninu og faldi aldrei skoðun sína í fræðilegan búning eða orðskrúð. Hann einhvern veginn talaði þannig að menn skildu hvað hann var að fara, hvort sem menn voru sammála honum eða ekki. Hann var orðheppnari en flestir aðrir og snöggur að slá vopnin úr höndum andstæðinga. Davíð hafði einfaldlega sterkari áru en aðrir stjórnmálamenn. Hörðustu fréttamenn bognuðu ætíð í návíst hans, viðtöl við Davíð voru alltaf drottningarviðtöl.
Davíð er einstakur snillingur, það verður bara að viðurkennast og ég bara nenni ekki að lasta hann núna, búinn að gera það nógu oft, nenni ekki að tala um skítlega eðlið, illgirnina eða hefnigirnina, hitt er mér af einhverjum ástæðum ofar í huga núna.
Já, ég er greinilega aðdáandi Davíðs hafi það farið framhjá einhverjum (þetta er ekki kaldhæðni), en hann hefur svo sem líka gert herfilega hluti ef út í það er farið. Og nú hefur Jóhanna fengið bréf, hún er hugsi yfir því sem og ríkisstjórnin öll. Nú munu lögfræðingar fara yfir málið og spá í það hvernig megi losna við Davíð án þess að gera allt vitlaust. En það er einmitt það sem hann vill, hann fer ekki hávaðalaust út úr bankanum og er sjálfur með her af lögfræðingum til að finna vankanta á öllu þessu máli. Davíð fer aldrei út úr bankanum nema þá lágréttur. Þúsundir fyrir utan seðalbankann hendandi eggjum og grjóti sem æpa "norður og niður með Davíð" mun ekki fá á hann. Aðrir mundu bogna og brotna, en ekki Davíð Oddsson af því að hann er einfaldlega sterkari en þeir. Davíð er mikilmenni og snillingur, að vísu brjálaður snillingur...
föstudagur, 6. febrúar 2009
Seðlabankinn
Sjálfstæðisflokkurinn var með uppistand á Alþingi í dag. Einn brandarakallinn úr þeirra röðum sakaði ríkisstjórnina um að vera með "pólitísk afskipti af seðlabankanum". Ha, ha, ha, he, he, Væntanlega hefur fylgt með vanlætingarsvipur sem ég því miður missti af, en ég efast ekki um að leikurinn hafi verið góður. Enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið með pólitísk afskipti af seðlabankanum, alltaf hefur hann látið fagleg sjónarmið ráða för þegar hann hefur endurunnið ónothæfa pólitíkusa úr sínum röðum og sent í bankann eins og son sólarinnar, Kim il Oddsson. Mann með lögfræðimenntun en mjög líklega ekki hundsvit á hagtölum og peningum frekar en ég.
Svo fékk hann bréf frá heilagri Jóhönnu nú nýlega, það var nú ekkert ástarbréf og hún bíður eftir svari - og þjóðin öll í ofvæni
mánudagur, 2. febrúar 2009
Fífl
Hannes Hólmsteinn hefur auðvitað lengi verið í þessu liði, Jón Steinar Gunnlaugsson, Davíð Oddsson, Halldór Blöndal og erkifíflið hann Ingvi Hrafn Jónsson sem er sjónvarpsstjóri á sinni ömurlegu og aumkunarverðu sjónvarpsstöð ÍNN. By the way, hvað þýðir þessi skammstöfun? Var þetta ekki einhvers konar brandari, tilvísun í CNN? Ég hef verið að horfa aðeins á þessa stöð og það er rannsóknarefni hvað Ingvi Hrafn er leiðinlegur náungi og liðið sem kemur í þáttinn eru eintómir já-bræður úr Flokknum sem guð af sinni miskunnsemi hefur komið í stjórnarandstöðu loks eftir 18 ár.
Í Silfri Egils gjammaði Agnes alls konar bull og þvælu um forsetann og gerði sig að fífli um leið. Hún er sár og svekkt yfir því að vinstri stjórn er komin á og elsku flokkurinn hennar farinn frá völdum. Forsetinn tók þátt í útrásarbullinu, hampaði auðkýfingum og af hverju mætir fólk ekki á Bessastaði og hrópar hann niður spyr hún? Já, bankahrunið var svo mikið Ólafi að kenna!! Agnes spurði líka í heimsku sinni og bræði af hverju forsetinn talaði ekki við fólkið í landinu? En þá var hún upplýst um það að Ólafur fór út um allt land og talaði við þúsundir Íslendinga á öllum aldri. Það gerði hann aðeins nokkrum vikum eftir hrunið, fór í fjölmarga skóla og stappaði stálinu í fólk, fór á fjölmarga vinnustaði og ræddi við fólk. Á einum morgni ræddi hann við á annað þúsund manns í tveimur heimsóknum hér á Akureyri. Í VMA og Giljaskóla. Í hinum fyrrnefnda hélt hann ekki bara drottningarræðu, heldur spjallaði við marga nemndur og kennara og var hinn alþýðlegasti!
Það er sumsé kjaftæði í kellingunni að forsetinn skipti sér ekki af venjulegu fólki, enginn fyrirrennara Ólafs í embætti hefur verið í jafnmiklu sambandi og hann við "fólkið í landinu" eins og það er kallað. Hann hefur að vísu sinnt auðmönnum og útrásarfyrirtækjum líka, greitt fyrir viðskiptasamningum o.s.frv., en það er ekki síst vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á íslensku samfélagi og það var ætlast til af forsetanum að hann kæmi fram fyrir Íslands hönd og leggði fyrirtækjum og útrásargæjunum lið. Hvað hefði verið sagt ef hann hefði gefið skít í þá hina sömu aðila? Ekki var forsetanum kunnugt um þær skýjaborgir sem menn voru að reisa og svikamyllurnar út um allt, hann var hafður að fífli eins og þjóðin öll.
Agnes hermdi svo eftir Ólafi og ætlaði kannski að vera fyndin, en eftirherman var léleg og vonandi lætur hún Jóhannesi Kristjánssyni og Pálma Gestssyni það eftir í framtíðinni.
Annað varðandi forsetann. Hann lagði línurnar fyrir stjórnarmyndunarviðræðurnar, sagði einfaldlega skoðun sína á því hver ættu að vera forgangsmál verðandi ríkisstjórnar. Það var gott hjá honum og í orðum hans endurrómuðu kröfur fólksins í landinu um umbætur, meira lýðræði, björgun heimila og atvinnulífs og stjórnlagaþing. Jú, forsetinn hafði nefnilega verið að fylgjast með (kannski legið í bloggsíðum daginn út og inn) og skynjaði nákvæmlega hvaða straumar lágu í loftinu. Hann var ekkert að skipa ríkisstjórninni væntanlegu fyrir eins og hann sjálfur tók fram, en þetta væru þau verkefni sem þyrfti að fara í. Það hefur enda gengið eftir. Þetta segist nýja stjórnin ætla að gera, nákvæmlega það sem Ólafur lagði til. Ábúðarfullir stjórnmálafræðingar sögðu "mjög óvenjulegt, fáheyrt, án fordæma" og supu hveljur eins og Baldur Þórhallsson. Aðrir eins og Gunnar Helgi sögðu þetta vissulega óvenjulegt, en auðvitað væri forsetinn í fullum rétti til að tjá þessar skoðanir sínar.
En Agnes, þessi leiðinda kelling, ætti að skammast sín, fyrir eftirhermuna og sjálfa sig.
föstudagur, 30. janúar 2009
Skilyrði framsóknar
Ég hef annars illan bifur á þessum ætlaða stuðningi Framsóknarflokksins, honum er ekki treystandi núna þrátt fyrir andlitslyftingu, þetta er bara rótgróinn spillingarflokkur sem hefur þrotið erindið í stjórnmálum fyrir löngu síðan og er bara til ennþá vegna valdafíknar. Það er vont fyrir þessa stjórn vinstri flokkanna að eiga sitt stutta líf undir honum.
Nýjasta skilyrði framsóknar er að reist verði 30 metra bronsstytta af Halldóri Ásgrímssyni á Lækjartorgi, svona stalínsk stytta með voldugri undirstöðu. Steingrímur J. var víst nokkuð hrifinn af hugmyndinni sem slíkri en ekki er einhugur í flokki hans um þann sem styttan á að vera af. Samfó mun funda í kvöld og örugglega fram á nótt um málið. Ég hef hlerað að flokkarnir hafi sammælst um málamiðlunartillögu til framsóknar. Hún er sú að styttan mikla verði ekki af Halldóri, heldur Steingrími Hermannssyni sem var mun meira til vinstri en Dóri og auk þess landsfaðir mikill og elskaður af alþýðu manna, svo mjög að honum fyrirgafst hvert klúðrið á fætur öðru. Steingrímur var heiðarlegur og kunni að tala til þjóðarinnar, hann var líka algjörlega laus við hroka og stærilæti. Sagði bara: "Já, ég gerði mistök". Denni kallinn, það gengur bara betur næst, sögðu menn og þótti jafnvel enn vænna um hann en áður. Nú er bara að sjá hvort framsókn samþykkir Denna.
þriðjudagur, 27. janúar 2009
Hin rauðgræna ríkisstjórn
En að öllu gamni slepptu, þá verð ég að segja, að það óhemju óréttláta kerfi sem hér tíðkast í auðlindastjórnun má svo sannarlega missa sín. Það hefur fært dauða yfir byggðir landsins, hrakandi fiskistofna, meiri auðsöfnun og eignatilfærslu í samfélaginu allar götur frá 15. öld. Svo er látið heita að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar! Það er kjaftæði, enda megum við ekki koma nálægt þeim nema á frístundabát með veiðistöng. Aðgangur að auðlindinni var afhentur örfáum einstaklingum sem rökuðu til sín milljörðum vegna þeirra forréttinda. Þetta kerfi hefur Sjálfstæðisflokkurinn varið af hörku, enda flokkur sérhagsmunagæslu og auðmanna. Gjörspilltur og siðlaus flokkur sem ver gjörspillt og siðlaust kerfi.
Svo hafa fjölmiðlar aðeins verið að velta sér upp úr samkynhneigð verðandi forsætisráðherra og ábyggilega mun það vekja athygli víða annars staðar þar sem meiri íhaldssemi ríkir um þessa hluti. Í raun fáránlegt að minnast á kynhneigð í þessu sambandi. Hún kemur málinu ekkert við, nema menn séu hræddir um að Jóhanna fari að leita á Kollu Halldórs (sem mér finnst ólíklegt) eða Katrínu Jakobs og mundi ég frekar skilja það! Þetta minnir mig á fyrirsögn í DV fyrir margt löngu sem var eitthvað á þessa leið: "Lesbískur leigubílstjóri tekinn á ofsahraða". Kynhneigð viðkomandi kom fréttinni ekkert við. Ekki frekar en að sagt hefði verið um Björn Bjarnason þegar hann tók við dóms- og kirkjumálunum: "Fyrsti BDSM kirkjumálaráðherrann", eða Árni Matt sem, segjum hefði haft fetish fyrir trjám og runnum (það er til!). "Fyrsti umhverfisráðherrann sem alltaf hefur feikað fullnægingu", "Fyrsti landbúnaðarráðherrann sem aðeins örvast kynferðislega af rauðhærðum konum", o.s.frv. Er ekki hægt að halda þessum hlutum aðskildum, því þeir koma okkur ekki við?
En, þessi ríkisstjórn verður örugglega ekki verri en sú síðasta. Ég hefði samt haft gaman af því að sjá sköllótta brjálæðinginn frá Gunnarsstöðum í Þistilfirði sem utanríkisráðherra og hefði komið vel á vondan. Sitjandi fundi hernaðarhaukanna í NATO, hann hefði verið flottur þar!
Ný ríkisstjórn
Ég held að aðeins ein leið sé fær í stjórnamyndun fram að kosningum. Sú stjórn verður að reyna að bjarga því sem hægt er að bjarga þessa fáu mánuði sem til stefnu eru. Þetta verður stjórn Vinstri grænna og Samfylkingar með stuðniingi Framsóknarflokksins sem ver hana falli. Mín tillaga um ráðherraskipan er svona. Athugið að ég hef fækkað ráðherrum um tvo (til sparnaðar fyrir ríkissjóð!). Kirkjumál flytjast til forsætisráðuneytis, dómsmál til samgönguráðuneytis og iðnaðarráðuneyti fer til viðskiptaráðuneytis þar sem umhverfismálin verða líka
- Steingrímur J. Sigfússon, Vg, forsætisráðherra og ráðherra hagstofu og kirkjumála
- Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, S. utanríkisráðherra
- Össur Skarphéðinsson, S. fjármálaráðherra (hann tekur að sér utanríkismálin þegar Inga Bogga fer í veikindafrí í mánuð)
- Katrín Jakobsdóttir, Vg, menntamálaráðherra
- Jóhanna Sigurðardóttir, S, félags- og tryggingamálaráðherra
- Ögmundur Jónasson, Vg, iðnaðar-, viðskipta- og umhverfisráðherra
- Kristján Möller, S, samgöngu- og dómsmálaráðherra
- Kolbrún Halldórsdóttir, Vg, heilbrigðisráðherra
Þarna eru jafn margir frá hvorum flokki, kynjahlutfall er jafnt, suðvesturhornið fær að vísu sex ráðherra og landsbyggð tvo, en á móti kemur að forsætisráðuneytið fellur í hlut landsbyggðar séu menn eitthvað að spá í það mál. Óþarfi er að taka Frjálslynda flokkinn með, hann getur stutt þessa stjórn ef hann vill gegn formennsku í tveimur fastanefndum eða svo.
Hvurninn líst ykkur á?
föstudagur, 23. janúar 2009
Detox til Póllands
Ég hef verið að hneykslast á þessu, undanfarið og séð fyrir mér hroðalegar senur af þeim félögum liggjandi á bekk, fölbleika og hvapkennda með rumpinn tilbúinn fyrir rörið hennar Jónínu sem ristilskolar þá svo einn af öðrum. Ekki vildi ég vera síðastur í röðinni! Og hvað á þetta vatnsþamb að þýða? Áróðurinn um þindarlausa vatnsdrykkju, daginn út og inn fer í taugarnar á mér. Vatnið skolar út alls konar hroða er manni sagt, en milljarða ára þróun tegundarinnar hlýtur bara að hafa séð vel fyrir þessu. Við höfum líffæri til þess arna og eigum bara að drekka vatn þegar okkur þyrstir, annars látum við það vera. Þetta er mjög einfalt. Mannslíkaminn er tæknilegasta fyrirbæri undir sólinni og svo magnað að um leið og vefi og frumur skortir vökva fer viðbragðsáætlun í gang í stjórnstöðinni (heilanum), taugaboð fara út um allt og ljós blikka og manni er sagt að drekka með því að láta þorstatilfinningu gera vart við sig. Það er bara óeðli og misnotkun að þamba vatn þegar líkaminn hefur ekkert beðið um slíkt. Í Svíþjóð er þvagleki vaxandi vandamál og læknar segja að meginástæðan sé vegna ónauðsynlegs vatnsþambs manna. Ég er nú reyndar fráleitt heilagur í þessum efnum. Líkami minn bað t.d. aldrei um áfengi, nikótín eða 7. kaffibollann, hvað þá 8. kjötbolluna í gamla daga. Maður hefur oft misboðið honum, svo mikið er víst, en ég er að bæta mig í öllum þessum atriðum.
Ég veit annars ekki hvað Gunnar Birgisson er að gera á myndinni, ekki var honum boðið hingað, en kannski að þeir félagar áðurnefndir bjóði honum með sér til Póllands næst, mér sýnist að hann hefði gott af því. Ég hef verið að kynna mér allt þetta detox dæmi og skoðað detox.is og heimasíðu Jónínu Ben og dreg auðvitað flest til baka sem hér hefur verið sagt í hálfkæringi, þó ekki þetta um vatnið! Mér sýnist að þessar Detoxferðir séu hið mesta þarfaþing og reyndar er boðið upp á ýmislegt fleira í meðferðinni en tómar ristilskolanir. En dagsskammturinn af mat er bara 500 kaloríur! Hvernig gátu gæjar eins og Geiri Gold og Johnsen lifað það af? Þeir hljóta að hafa svindlað, stolist út á kvöldin í pylsur og drasl, enda léttist Geiri grunsamlega lítið eftir ferðina og engar spurnir hef um að eyjajarlinn hafi misst einhver grömm.
sunnudagur, 18. janúar 2009
Tímamót
Mikið má Obama reynast slæmur ef hann verður verri en fráfarandi forseti. W. Bush er samkvæmt könnunum, og þurfti þær svo sem ekki til, óvinsælasti forseti Bandaríkjanna frá upphafi. Hann toppar jafnvel Herbert Hoover sem gerði lítið til að afstýra kreppunni miklu sem hófst árið 1929, safnaði um sig hjörð af já-bræðrum sem spiluðu bara golf á sveitasetrinu hans meðan allt var að fara til fjandans. Bush er óvinsælli en Andrew Johnson, sá sem tók við af Lincoln myrtum árið 1865. Johnson þótti ekki standa vel að enduruppbyggingu ríkisins eftir borgarastyrjöldina. W. Bush er líka óvinsælli en Warren G. Harding sem ætíð skorar hátt í óvinsældakönnunum. Harding var forseti á árunum 1920 til 1923, og þótti stjórn hans gjörspillt. Jafnvel var Harding bendlaður við Ku klux klan, allavega óð sú hreyfing uppi á forsetatíð hans og lítið var gert til að koma í veg fyrir öll þau glæpaverk gegn blökkumönnum og fleirum í Suðurríkjunum. Harding virðist hafa verið illa menntaður og samkvæmt lýsingum hálfgerður þurs sem talaði og skrifaði verstu ensku allra forseta Bandaríkjanna, frægur líka fyrir mismæli sín eins og W. Richard M. Nixon sló öll met í óvinsældum þegar hann hrökklaðist úr embætti vegna Watergate-hneykslisins 1974. En Georg Walker hefur saltað "Tricky Dick" örugglega, manninn sem horfði brúnaþungur framan í sjóvarpsvélarnar og sagði: "I´m not a crook". Þar með stimplaðist orðið "þrjótur" inn í hausinn á þeim sem horfðu.
W. skilur eftir sig efnahag í rúst, glatað orðspor á alþjóðavettvangi, eyðileggingu og dauða í Afganistan og Írak. Þessi stríð geta Bandaríkin ekki unnið með hefðbundnum vopnum, ekki frekar en í Víetnam forðum. Lexían úr því hörmungarstríði var ekki lærð í Hvíta húsinu þegar Bush-stjórnin tók við. En nú fer hann vonandi bara heim til Texas og getur núna dedúað eitthvað á búgarði Bush-klansins og hugsað hvers lags hörmung það var og vonbrigði að ekki skyldu finnast gereyðingarvopn í Írak, en tilvist þeirra var víst meginástæða innrásarinnar. Obama á hins vegar ekki létt verk fyrir höndum, vonandi tekst honum þó vel til.
miðvikudagur, 14. janúar 2009
13. jan.
Jæja, Híasintuna fékk ég og allir urðu glaðir og sáttir á endanum. Í kvöldmat var svo ekkert slor, grjónagrautur og lifrarpylsa, enda gerist matur varla betri. Þannig var nú þessi ágæti dagur.
föstudagur, 9. janúar 2009
Helförin á Gaza
"Við viðurkennum rétt Ísraels til að verja sig" segja Bandaríkjamenn sem bundnir eru á klafa hins júðska fjármagns og undir oki hins sameiginlega trúararfs. Við það bætist svo hið evrópska samviskubit vegna helfararinnar. Hvaða helvítis vandræðagangur er þetta hjá ríkistjórninni okkar, má íslenska ríkið sem slíkt ekki fordæma aðfarir Ísraelsmanna? Ekki er hefð fyrir því segja Geir og Ingibjörg, en samt segir Ingibjörg að hún hafi fordæmt!? Þetta er bara ömurleg linkind. Ísrael hefur alla tíð fengið sérmeðferð hjá alþjóðasamfélaginu og getur hagað sér eins og því sýnist gagnvart nágrönnum sínum, hinni hernumdu þjóð, Palestínumönnum vegna skilyrðislauss stuðnings Bandaríkjanna sem ausa meira fjármagni til þeirra en sem nemur samanlagðri þróunaraðstoð þeirra til allra þróunarríkja heimsins!! (Heimild: Jón Ormur Halldórsson).
Helför gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni er smánarblettur á sögu mannkyns, en það er líka skeytingarleysi alþjóðasamfélagsins gagnvart Palestínumönnum og glæpaverk Ísraelsmanna allt frá árinu 1948, þegar fyrstu fjöldamorðin á þeirra vegum voru framin, sú saga er ljót og blóði drifin.
fimmtudagur, 8. janúar 2009
miðvikudagur, 7. janúar 2009
Útsölur og fleira
Útsölurnar byrjaðar á fullu, sem eru auðvitað tómt svindl og blekkingarleikur ef marka má neytendafrömuðinn dr. Gunna. Það eru grunsamlega miklar lækkanir núna sem gefa manni tilefni til að halda að óvenju mikið og á sérlega ósvífinn hátt hafi verið okrað á okkur fyrir áramót. Ég sá t.d. í Fréttablaðinu í dag auglýsingu frá Rómantík.is sem er vefverslun með kynlífstæki fyrir þá sem ekki vissu, að þráðlausu eggin, þessi vatnsheldu sem draga 20 m. kosta nú aðeins 3995 kr. í stað 11.995 kr. Kanínutitrarinn með áfasta egginu kostar nú bara 2995 kr. í stað 6995 kr. áður. Og hjúkkubúningarnir eru líka komnir niður í tæpar 3000 kr. Hinar ýmsu starfsstéttir eiga sína búninga þarna og þeir eru reyndar með aðeins öðru sniði en maður á að venjast.
Já, ég fylgist vel með, enda verið að líta eftir því að þessi verslun og ámóta fari nú að bjóða upp á iðjuþjálfabúninga og yrði fróðlegt að sjá hvernig hann liti út. Eða íslenskukennarinn? Skyldi t.d. vera munur á sögukennarabúningi og íslenskukennarabúningi? Eða kerfisstjóra?
Eins og venjulega sté ég á stokk og strengdi heit um áramótin og öll voru þau heit á kunnuglegu nótunum og verða ekki frekar rædd hér. Allt við sinn vanagang í VMA, þar hafa menn engu gleymt í jólafríinu og eru byrjaðir að tala um kreppuna í hverri kaffistofu. Svolítið niðurdrepandi og að lokum þá var það lagt á mig nú í ársbyrjun að verða langömmubróðir. Ábyrgð þessa fólks er eigi lítil, en ég óska Auði frænku minni og Styrmi innilega til hamingju og líka ömmu Boggu og afa Stefáni sömuleiðis með þeirri ósk að þau fái oft að passa krílið í framtíðinni!