Þetta var fínt sjónvarpskvöld. Ég nennti ekki að fara yfir verkefni, þau voru bara áfram óhreyfð í töskunni minni og verða að bíða betri tíma. Eftir ýmis konar skyldustörf við matartilbúning, frágang og aðstoð við heimanám barnanna og lestur upp í rúmi, var komið að dekurkvöldi hjá mér. Gunna farin á gospel og ég beið ekki boðanna og stillti á Omega sem ég geri oft. Þar var tárvotur prédikari sem hélt svo innblásna ræðu að ég hef sjáldan séð annað eins. Manninum lá við sturlun, tilfinningarnar beljuðu úr honum eins stórfljót. Þeir eru margir ansi áhrifamiklir þarna, með margra ára þjálfun í ræðumennsku og sannfæringarkrafturinn er þvílíkur að ég efast ekki eitt augnablik um að þeir eru að segja satt! Það eru nokkrir þarna í uppáhaldi hjá mér. Einn er alltaf grátbólginn og með ægilegum ekkasogum segir hann frá kærleika Kriss. Hann er alveg ekta, getur bara ekki verið að feika neitt, enginn er svona góður leikari. Annar er svartur og feitur sem æðir um sviðið með djúpum drunum og látum og vitnar um kærleiksverk guðs. Svitinn prelar á enni og æðisglampinn í augum fer ekki framhjá neinum.
Úff. Það tekur jafnvel á að skrifa þetta. Maður lifir sig inn í samkomuna og fer að hrópa hósíanna og hallelúja fyrr en varir. Svo skipti ég yfir á hina uppáhaldsstjóvarpsstöð mína, en það er ÍNN. Þar ræður ríkjum Ingvi Hrafn sem gerður er út frá Valhöll, eða það hlýtur að vera miðað við þá pólitísku slagsíðu sem er á mörgum þáttanna. Ég hló mig máttlausan í kvöld, eins og í gærkvöldi og fyrrakvöld, yfir þætti sem heitir heimastjórnin eða eitthvað álíka. Þarna eru sjallar með saltfisk í hjartastað, menn eins og Óli Björn, Jón Kristinn Snæhólm, Ármann Ólafsson og Hallur Halls að tala við tölvu upp á borði og í henni syndir hausinn á Ingva Hrafni, allur bjagaður og óhugnanlegur. Web cameran greinilega of nálægt nefinu á honum. Hann þykist vera að tala frá Florida, en það er haugalygi, hann er bara í næsta herbergi eða í mesta lagi heima hjá sér og finnst þetta flott. Hljóðið er á eftir myndinni, eða öfugt og svo vellur alls konar þvæla upp úr þessu klónaða fríki sem eins og svífur í formalíni í fiskabúri. Stundum held ég að hann sé á einhverju, svo ótrúlegt er bullið í manninum. En, stórskemmtilegt sjónvarpsefni.
þriðjudagur, 17. mars 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli