miðvikudagur, 11. mars 2009

Draugar

Gamall uppvakningur barst okkur í gegnum bréfalúguna í gær. Hið fornfræga Akureyrarblað Íslendingur í bláum sjallalit í blaðhaus eins og vera ber. Það þýðir bara eitt, kosningar eru í nánd. Það eru myndir af frambjóðendum flokksins á forsíðu, sem eru hver öðrum glæsilegri og af þessu fólki streymir heiðarleikinn, festan og viljinn til góðra verka.

Ætli þetta góða fólk trúi því í alvöru að slagorðin sem það hefur valið sér hafi eitthvað að segja í því hörmungarástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu? Að háttvirtir kjósendur kaupi þau? Alltaf þegar ég les svona slagorð, hvort sem um er að ræða frambjóðanda áðurnefnds flokks eða samfó, Vg eða annarra flokka, það skiptir ekki máli, fer um mig einhver ónotatilfinning. Mér finnst óheiðarleikinn og stærilætin skína af orðunum. Margt af þessu fólki vill ábyggilega vel, vill láta gott af sér leiða, en mér finnst samt að meirihlutinn sé í framboði til að þjóna einhverjum persónulegum hagsmunum og framapoti.

Fyrirsjáanleg er töluverð endurnýjun á Alþingi í vor og er það vel. En margir núverandi þingmenn ætla að gefa kost á sér áfram, eru bara gleiðir og jafnvel þeir sem hafa stutt þá stefnu einarðlega sem hefur komið þjóðinni á hausinn. Til dæmis hefur einn frambjóðandinn í Íslendingi og núverandi þingmaður valið sér orðin áræði, dugnaður og þor, áfram sem sagt, sem dugði okkur svo helvíti vel á undanförnum árum!

Aðrir draugar munu svo fljótlega líta dagsins ljós og smjúga inn um bréfalúgur okkar. Norðurland og fleiri pésar. Þeir sneplar verða líka uppfullir af áræði og dugnaði og gott ef ekki kjarki, trausti og heiðarleika líka. Gallinn við þetta allt saman, eins og ég sagði áðan, er að margt fólk þarna vill vel, en má sín lítils vegna flokksagans og þessa flokksræðis sem hér ríkir. Ríkisstjórnin er þó að rembast við að koma fram breytingum á stjórnarskránni í tæka tíð fyrir kosningar í því skyni að auka áhrif kjósenda varðandi persónukjör. Um það hefur verið sterk krafa í þjóðfélaginu, en Sjálfstæðisflokkurinn, einn flokka, stendur gegn því og heldur uppi málþófi og sakar stjórnina um leið að engin mál komist í gegn! Þetta er nú meiri þjóðþrifaflokkurinn eða hitt þó heldur.

Engin ummæli: