mánudagur, 23. mars 2009

Aðeins um pólitíkina

Á landsfundi Vg um helgina var a.m.k. tvennt ályktað sem mér finnst merkilegt og í raun gleðilegt. Önnur var um að útiloka samstarf með Sjálfstæðisflokknum að loknum kosningum í vor, nokkuð sem Samfylkingin ætti líka að gera á sínum landsfundi og hin að útiloka hvorki aðildarviðræður né inngöngu í ESB á næsta kjörtímabili, enda þótt þeir hafi í sömu ályktun sagt að best sé fyrir okkur að standa utan sambandsins. Þjóðin eigi að ráða þessu.

Mér finnst þetta einmitt mjög mikilvægt og Vg er fyrir sitt leyti að greiða fyrir því að núverandi stjórn haldi áfram eftir kosningar. Samfylkingin verður þá líka að koma til móts við Vg, hún getur þá ekki krafist aðildarviðræðna án þess að þjóðin samþykki það fyrst. Svo verður samfó að fara að ákveða sig hvort hún vill vera virkjanaflokkur eða friðunarflokkur. Samfó er beggja blands í þeim málum og það virkar einhvern veginn illa pólitískt séð. Hreinna er að vera annað hvort, þá vita kjósendur betur fyrir hvað flokkurinn stendur í þeim efnum. En, þetta er ekki bara óákveðni og vindhanaháttur, ég held að meirihluti Íslendinga sé einmitt á þessari línu, að virkja fyrir orkufrekan iðnað, en það er bara ekki sama hvar það er gert og hvernig. Flokkarnir verða að ná saman um þessi mál. Báðir þessir flokkar hafa svipaðar áherslur í velferðarmálum.

Að lokum er mjög mikilvægt að vinstri flokarnir nái hreinum meirihluta og Framsókn verði gefið langt nef og sent í stjórnarandstöðu með sjöllum. Sigmundur Davíð ástundar undarlega pólitík og er bara hreint furðulegur maður. Hann er að leika eitthvert guðföðurhlutverk og þykist þess umkominn að setja ofan í við hana þegar hentar, til að minna á sig sennilega, skammar og talar eins og hann viti allt, en er bara uppfullur af helvítis hroka. Enga framsókn eftir kosningar takk!

Engin ummæli: