sunnudagur, 29. mars 2009

Að loknum landsfundum


Landsfundir stjórnmálaflokka eru í eðli sínu hallelújasamkomur. Mestu máli skiptir að sýna eindrægni og samstöðu um menn og málefni því kastljós fjölmiðla beinist mjög að þessum samkomum. Vinstri grænir héldu sinn fund nú nýlega þar sem mikil eindrægni ríkti og þá ekki síst um foringjann sem var kosinn með 110% atkvæða. Steingrímur J. er ungur og efnilegur stjórnmálamaður frá Þistilfirði sem er bara rétt að byrja sinn formannsferil (1999) og mun ríkja a.m.k. jafn lengi og Castro á Kúbu, en hann sló öll met þjóðarleiðtoga í heiminum og sat á valdastóli frá byltingunni 1959 til 2005 eða 6. Samfylkingin hélt sinn fund nú um helgina og þar kom heilög Jóhanna, bæði sá og sigraði með aðeins 97% atkvæða í valdastól sinn.

Ræður voru fremur slepjulegar hjá Samfó og sjöllum, en ég fylgdist með báðum fundum nokkuð reglulega. Þangað til í gær, en þá kvaddi sér hljóðs Davíð nokkur Oddsson og flutti einhverja þá geggjuðustu ræðu sem ég hef heyrt lengi. Nú ætla ég ekkert að segja um innihald þessarar dæmalausu ræðu, hún ber vitni um mann í algerri afneitun og var í raun bara sorglegt að sjá þennan fyrrum mikla stjórnmálaleiðtoga leggjast svona lágt. En það sem vakti athygli mína var það hversu hjarðmennskan er yfirgengileg í þessum flokki. Menn stóðu upp og klöppuðu margoft fyrir hverri þvælunni sem upp úr DO kom og allir í einu, því enginn þorir að skera sig úr. Menn voru eins og hlýðnar kindur á þessum landsfundi. Líka þegar Geir Haarde svaraði DO í dag og gagnrýndi hann fyrir uppistandið í gær. Svo fékk maður nettan aulahroll þegar Þorgerður Katrín sagði að loknum formannskosningum í dag og lét það verða sín síðustu orð: " Bjarni, við verðum að klára þetta dæmi. Koma svo, áfram Ísland, við verðum að berjast, berjast, berjast!" Sagði hún að íþróttasið og uppskar gífurleg fagnaðarlæti (jarm) kindanna í Laugardalsfjárhúsinu.

Segi bara eins og einhver bloggarinn í dag: "Plíís Þorgerður, ekki klára dæmið, þið eruð búin að gera nóg af ykkur!"

Engin ummæli: