Þessi geðþekki maður heitir Ólafur Þór Hauksson og var í janúar sl. skipaður í embætti Sérstaks saksóknara eins og það heitir. Hann og embættið með einum fjórum starfsmönnum á að fara ofan í saumana á efnhagshruninu og rannsaka og ljóstra upp um aðdraganda og orsakir þess og koma upp um refsiverða háttsemi í tengslum við það mál allt saman, hafi verið um slíkt að ræða.
Það er nú gott og blessað. En það er alveg makalaust að þetta skyldi ekki hafa verið gert fyrr en þrír og hálfur mánuður var liðinn frá hruninu. Þeir sem sök eiga á því hafa haft allan þennan tíma til að koma peningum undan í skattaskjól, tæta pappíra og gera hvaðeina til að hylja slóð sína. Svo finnst mér Ólafur þessi ansi rólegur í tíðinni. Hann var skipaður í embættið um miðjan janúar og tók til starfa 1. feb. og enn er ekki byrjað að yfirheyra.
Ólafur sagði í viðtali um daginn að þeir væru nú bara nýfluttir inn í eitthvert húsnæði og eru að koma sér fyrir. Hvar eigum við að hafa kaffikönnuna strákar? Það er gríðarlega mikilvægt að vanda vel til verka segir Ólafur og fyrst er að átta sig á umfangi málsins. Það mun taka einhverjar vikur að átta sig á því býst ég við. Ekki er hægt að handtaka menn nema fyrir liggi rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi sem mér finnst að Séstakur saksóknari efist um og leggur mikla áherslu á að fara sér hægt. Efnahagslífið hrundi hér bara, bankarnir fóru á hausinn og fólk missti sparifé sitt. Með öðrum orðum: Bankarnir með sína óhæfu stjórnendur rændu þúsundir Íslendinga, stórum hluta af ævisparnaði fólks og það á að telja manni trú um að ekki liggi fyrir rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi!? Þegar bandaríska risafyrirtækið Enron fór á hausinn voru stjórnendur þess leiddir út í handjárnum, enda höfðu þeir gerst sekir um hluti sem minna ansi mikið á þetta hrun bankakerfisins hér. Þar voru menn dæmdir fyrir ólögleg innherjaviskipti, brot á hlutafélagalögum, fjárdrátt og meinsæri.
Er ekki búið að benda á þetta allt saman hér? Vilhjálmur Bjarnason, var hann ekki að vinna mál fyrir dómi þar sem banki braut á honum og hundruðum öðrum hluthöfum hlutafélagalög? Erlendir bankar hafa upplýst um gríðarlega fjármagnsflutninga frá landinu vikurnar fyrir hrunið? Eignum stjórnenda var komið undan í skjól osfrv. Enginn hefur verið yfirheyrður, enginn hefur sætt ábyrgð, en þjóðin á að borga brúsann og verka upp skítinn eftir bankasóðana.
"Shit happens".
miðvikudagur, 18. febrúar 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli