þriðjudagur, 28. apríl 2009

Sigurvegari kosninganna

Ég heyrði ágætis kenningu um hverjir það eru sem geta talist sigurvegarar kosninganna. Það er Sjálfstæðisflokkurinn. Þegar horft er til þess að flokkurinn, nánast aleinn og óstuddur, með glórulausri "reiðareksstefnu" í efnahagsmálum sem komið hefur landinu í þvílíkan botnlausan skít að þess finnast engin dæmi meðal lýðræðisríkja í heiminum, skuli þrátt fyrir það fá 16 þingmenn. Það hlýtur að teljast varnarsigur, ef ekki bara stórsigur. Flokkurinn hefði átt að þurrkast út eins og Frjálslyndi flokkurinn ef allt væri hér með felldu. En, eins og menn vita, er ekki allt með felldu hér. Og ég skal lofa ykkur því að í næstu kosningum, hvenær sem þær verða, mun Flokkurinn eini og sanni endurheimta megnið af því fylgi sem hann tapaði nú.

miðvikudagur, 22. apríl 2009

Borgarahreyfingin?

Samkvæmt könnun á mbl.is samrýmast pólitískar skoðanir mínar best við Borgarahreyfinguna. Er þá ekki einboðið að kjósa þá ágætu hreyfingu? Svona lítur þetta annars út hjá mér samkvæmt þessum strangvísindalega samanburði á skoðunum mínum og stefnu flokkanna.

Flokkur/samsvörun:

Borgarahreyfingin (O) 88%
Samfylkingin (S) 80%
Framsóknarflokkur (B) 71%
Frjálslyndi flokkurinn (F) 69%
Vinstrihreyfingin - grænt framboð (V) 67%
Lýðræðishreyfingin (P) 67%
Sjálfstæðisflokkur (D) 46%

Sem betur fer varð Sjálfstæðisflokkurinn neðstur í þessari könnun, en hins vegar er athyglisvert að Vg lendir í 5. sæti, og ég sem hef hugleitt að kjósa þann flokk! Mér hugnast mörg stefnumál þeirra og Vg virðist vera laus við styrkjaspillinguna sem viðgengst í hinum flokkunum þremur. Steinunn Valdís að þiggja milljónir frá Baugi og fleiri fyrirtækjum fyrir prófkjörsbaráttu sína er algjörlega siðlaust og ömurlegt innlegg í lokasprettinn á kosningabaráttu Samfylkingarinnar.

Hins vegar stendur eitt mál á milli mín og Vg og það er Evrópusambandið. Ef Skallagrímur og co myndu nú breyta afstöðu sinni til þessa lang, langbrýnasta máls okkar Íslendinga myndi ég ekki hika við að kjósa þá. En á meðan Vg gerir það ekki kýs ég ekki þennan flokk, svo einfalt er það. Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla er arfavitlaus hugmynd, að kjósa um það hvort við eigum að hefja aðildarviðræður. Ef þjóðin myndi nú hafna því að fara í viðræður, þá munum við ekkert komast að því hvað aðildarsamningur hefði í för með sér og öll umræða um kosti og galla aðildar því marklaus, því enginn veit hverjir þeir eru eða hefðu orðið. Ef þjóðin hins vegar samþykkir að hefja aðildarviðræður, nú þá hefjum við þær og atkvæðagreiðslan því óþörf, bara kostnaður upp á einhverjar tugmilljónir sem þetta lýðræðissport kostar.

Aðildarsamninginn sjálfan á svo að leggja í dóm þjóðarinnar sem hefur endanlegt úrskurðarvald, um það eru allir sammála og því er þessi hugmynd um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu vond að mínum dómi. Þjóðin fær að samþykkja eða hafna samningi. Þetta væri jafnvitlaust og ef kæmi fram á aðalfundi í félagi tillaga um að fara í atkvæðagreiðslu um hvort ætti að greiða atkvæði um eitthvert tiltekið mál, menn sjá að fyrri atkvæðagreiðslan er út í hött.

Ég hef lesið reiðinnar býsn af ESB-efni og sérstaklega nú undanfarið vegna kennslunnar í stjórnmálafræði, en ég ákvað að þessu sinni að gera þetta efni að stórum þætti í áfanganum. Og því meira sem ég les, því sannfærðari er ég um að kostirnir vegi margfaldlega upp ókosti aðildar fyrir Ísland. Fer nú samt ekki í þær pælingar hér.

Kosningarnar eftir tvo daga, þær verða spennandi. Tekst Borgarahreyfingunni að ná inn þremur mönnum , eða fjórum jafnvel, verður Vg stærsti sjórnmálaflokkur landsins á sunnudaginn, eða Samfylkingin? Kemst Stulli brjál inn á þing? Hversu stór verður niðurlæging Sjálfstæðisflokksins? Hversu stór verður varnarsigur framsóknar?

þriðjudagur, 21. apríl 2009

Skarfur kveður

Björn Bjarnason hefur verið sérstaklega svipljótur á Alþingi nú að undanförnu. Hann hrökklaðist úr ríkisstjórn í vetur og endaði þingmannsferil sinn í stjórnarandstöðu, nokkuð sem hann hafði ekki gert ráð fyrir. Sat bara út í sal eins og hver annar óbreyttur og undi hag sínum illa, það sást langar leiðir. Hann lætur af þingmennsku nú í vor í geðlægð mikilli og notaði tækifærið á heimasíðu sinni og kvaddi Alþingi með eins konar yfirliti yfir farinn veg. Þar fór hann yfir glæstan feril sinn og jós úr skálum geðvonsku sinnar yfir menn, bæði núverandi þingmenn og fyrrverandi. Gullkornin eru annars mörg í þessu fýlubloggi hans:

"Full ástæða er fyrir íslensku þjóðina að kvíða því, sem í vændum er, ef Jóhanna
heldur áfram sem forsætisráðherra að kosningum loknum með Steingrím J.
Sigfússon sem fjármálaráðherra sér við hlið. Hvorugt þeirra aðhyllist stjórnmálastefnu, sem mótar skynsamlega leið út úr þeim vanda, sem við er að
glíma. Þvermóðska Jóhönnu Sigurðardóttur gerði hana að forsætisráðherra.
Samfylkingarfólki þótti eina leiðin til að draga úr líkum á því, að hún
beitti sér fyrir óróa og klofningi í þeirra röðum, að „sparka henni upp á
við“ eins og sagt er og láta hana sitja með lokaábyrgðina á eigin herðum.
Steingrímur J. liggur síðan ekki á þeirri skoðun sinni, að hann viti í raun
allt best og þar með einnig hvernig eigi að taka á málum, Jóhanna átti sig
ekki á hinum flóknu viðfangsefnum. Hún þiggi ráð um þau frá sér."
Svona er hann geðvondur. Jóhanna varð forsætisráðherra vegna þvermóðsku sinnar! Hvað má þá segja um 13 ára forsætisráðherraferil Davíðs Oddssonar? Þvermóðska? Eða kannski bvara valdasýki? BB, svaraðu því! Grípum niður í meira, því þetta er í raun bráðgóður pistill hjá general BB King, enda pennafær maður. Hér kemur svona nett karlagrobb þar sem hann segir frá því hvernig hann gerðist formaður utanríkismálanefndar og hvað hann hefur nú verið duglegur að blogga:

"Hinn 23. apríl 1995, að loknum kosningum, varð ég menntamálaráðherra. Þá var ég tekinn til við að færa efni hér á síðuna og frá þeim tíma hef ég notað hana
til að segja frá því helsta, sem á daga mína hefur drifið, og vísa ég til
þess! Ég geri mér ekki grein fyrir, hve margar blaðsíður af efni ég hef
skrifað hér á síðuna á undanförnum 14 árum, en líklega skipta þær
þúsundum."
Svo agnúast Björn út í vinnulag þingsins og er að vonum mjög hróðugur yfir því að tókst að troða á lýðræðinu og vilja þjóðarinnar í stjórnarskrármálinu, en í hans anda kemur ómerkileg skýring á því hvers vegna stjórnin lagði kapp á að koma þessu þjóðþrifamáli í gegn:

"Einkennilegt er að verða vitni að því, að litið sé á það eins og næsta
sjálfsagt, að mál séu tekin fyrir og afgreidd á þingi í gustukaskyni eða
greiðasemi við einstaka þingmenn og þá gjarnan án tillits til hinnar vönduðu
málsmeðferðar, sem ávallt ber að krefjast. Í stjórnarskrármálinu var því
hreyft manna á meðal í þinginu, að það ætti nú að greiða fyrir afgreiðslu
þess, af því að Valgerði Sverrisdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, formanni
sérnefndarinnar yrði það gleðiefna vegna brottfarar sinnar af þingi."
Alveg er þetta nú í anda Björns Bjarnasonar. Ómerkilegur málflutningur frá ómerkilegum pólitíkus. Margir sjallar urðu reiðir þegar vændisfrumvarpið fór í gegnum þingið. Farin var hin svokallaða "sænska leið", en hún gerir vændiskaup refsiverð, ekki bara vændissölu. Þetta var tímabært mannréttindamál, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur lítinn áhuga á almennum mannréttindum ef og þegar þau skerða heilagar kýr eins og persónufrelsi, sbr. baráttu þeirra fyrir lokuðu bókhaldi hingað til uns þeir neyddust til að gera einhverja grein fyrir milljarðatugunum nú á dögunum til að bjarga því sem bjargað varð. Skemmtileg orðanotkun hjá Birni þegar hann talar í þessu samhengi um að "nauðga" frumvarpi í gegn:

"Atli Gíslason, þingmaður vinstri-grænna, nauðgaði vændisfrumvarpi sínu út úr
allsherjarnefnd og í gegnum þingið á lokadegi þess. Í fyrra tók hann
viðamiklar breytingar á almennum hegningarlögum í gislingu undir þinglok með
því að hengja þessi vændisákvæði á það frumvarp."

Þetta var smá úrval úr síðasta pistli Björns Bjarnasonar á heimasíðu sinni. Menn geta lesið bullið í heild sinni á bjorn.is en ég segi hins vegar að farið hefur fé betra af þingi. Þessi maður ástundaði ómerkilega pólitík sem einkenndist oftar en ekki af nöldri og sérlega mikilli illgirni út í ýmsa pólitíska andstæðinga. Far vel.

miðvikudagur, 15. apríl 2009

Kjartan og millurnar

Kjartan Gunnarsson er einhver skuggalegasta persónan í íslenskri pólitík síðustu ára og áratuga. Maðurinn sem stýrði Sjálfstæðisflokknum bak við tjöldin og hélt um alla þræði og kippti í þá og togaði þegar á þurfti að halda. Einkavinur Davíðs og húsbóndinn í Valhöll frá 1980, þessu vígi auðhyggju og samtryggingar nokkurra ætta, fyrirtækja og hagsmunasamtaka í okkar rótspillta landi. Kannski að Kjartan hafi verið valdamesti maðurinn á Íslandi undanfarin 25 ár. Hann lagði línurnar, hvíslaði í eyru Foringjans, skipulagði innra flokksstarf og aflaði Flokknum peninga. Hann var alla tíð músin sem læddist. Skugglegur í útliti og ef hann brosti þá var það flærðarglott á vör, fannst manni allavega.

Kjartan er nú hættur sem Don í Flokknum og kornungur maður tók við sem látinn var hætta vegna milljónanna frá FL og Landsbankanum. Kjartan hefur lélegt minni nú orðið, hann man ekki hvort hann vissi af styrkjunum til flokksins og hafði enga meðalgöngu um þá. Kjarri sat að vísu í bankaráði Landsbankans á þessum tíma og var enn með annan fótinn í Valhöll, sagður hafa verið prókúruhafi á þeim tíma sem styrkirnir voru veittir. En, hann vissi ekkert. Þessi lýgi er borin á borð og okkur gert að kyngja henni eins og öðru úr þessari átt.

mánudagur, 13. apríl 2009

Páskar

Þökk sé smiðssyninum frá Nazaret að við fáum gott frí um þessar mundir. Ef ekki væri fyrir kristindóminn, þá væri þetta bara venjuleg helgi. Og þó. Menn finna sér alltaf einhver tilefni til að fagna, t.d. fæðingu nýs árs, uppskerunni á haustin og fleira. Heiðnir menn blótuðu við ýmis tækifæri og ekki síst um jólaleytið þegar dagur er stystur á norðurhveli jarðar. Þá fögnuðu menn því að daginn tók aftur að lengja.

Samkvæmt fræðunum eru 2005 til 2015 ár síðan Jesús Jósefsson fæddist í fjárhúsi í Betlehem og hann er sagður hafa lifað í 33 ár. Hann lét lífið á krossinum á Golgatahæð í Jerúsalem eftir stuttan starfsferil, eða aðeins þrjú ár sem kennari og heilari. (prédikari og kraftaverkamaður). Ekki er vitað nákvæmlega hvenær Jesús fæddist, en fræðimenn telja að það hafi verið á árabilinu 4 f. Kr. til 6 e. Kr. Tímatal okkar er miðað við fæðingu hans og það var fyrst gert snemma á 6. öld af Díonysosi Exiguus, rómversk-kaþólskum fræðimanni í Róm. Löngu síðar drógu menn útreikninga Exiguus í efa og í staðinn fyrir að rugla í tímatalinu var fæðingu frelsarans flýtt um nokkur ár - eða seinkað eins og sumir vildu. Þannig að ef við miðum við fæðingu frelsarans þá gæti ég sagt að ég sé 45 til 55 ára gamall!!


Hvað um það, páskarnir liðu hér í Snægilinu í ró og spekt. Aðeins unnið og mikið etið, t.d. voru fimm páskaegg falin í íbúðinni og ég held að Nikulás hafi slegið alla við í þeim efnum. Í hans hlut kom að fela páskaeggið mitt sem var af minnstu sort með gulum unga. Hann tróð því ofan í pakka af Weetox morgunkorni og á endanum varð ég að fá hjálp til að finna það! Og málshátturinn var í góðu samhengi við þessa hátíðardaga og í þessum kristilega anda sem hér hefur svifið yfir hesthúsinu: "Drýgst er það sem Drottinn gefur".

fimmtudagur, 9. apríl 2009

Skírdagur

Í dag minnumst vér sannkristnir menn síðustu kvöldmáltíðar frelsara vors og lærisveinanna hans. Jafnframt er þetta dagur iðrunar ásamt öskudeginum frá fornu fari. Lýsingarorðið skír merkir hreinn og tengist því að Kristur þvoði fætur lærisveinanna. Í yfirfærðri merkingu táknar það svo hreinsun sálarinnar og ekki veitir manni nú af. Allir hafa gott af iðrun og yfirbót og andlegri hreinsun.

Myndin hér til hliðar sýnir Jesú lauga bífurnar á einum lærisveinanna sinna og má eflaust fara út í langt mál núna um guðfræðina sem þarna er að baki. T.d. um sjálfskipaða "lægingu" guðs, það að holdgervast með fæðingu frelsarans og ekki síst með fórnardauða hans og kvölum á krossinum. Allt í okkar aumra og dauðlegra manna þágu. Guðdómurinn nálgaðist okkur svo að við megum nálgast hann. Einhvern veginn svona ef ég skildi þær pælingar rétt sem ég var að lesa á netinu

En, þetta er skemmtilegur siður sem ýmsar kirkjudeildir viðhafa enn þann dag í dag. Ég rakst á eftirfarandi auglýsingu frá Boðunarkirkjunni:

Á Skírdag verður hinstu kvöldmáltíðar Drottins með lærisveinunum minnst með sérstökum hætti í Boðunarkirkjunni. Ath! kl. 20:00
Áður en samkomugestir meðtaka brauðið og bikarinn, munu þeir
þvo hver öðrum um fæturna eins og Drottinn bauð öllum að gera svo oft sem þeir minnast krossdauða hans.(Sjá jóh. 13, 1-17)
Þetta er ákaflega innihaldsrík athöfn sem reynist öllum eftirminnileg. Tilv. lýkur.

Eftirminnileg já. Maður getur rétt ímyndað sér táfýluna sem gosið hefur upp þarna í kirkjunni hjá þeim. Aldrei gæti ég þvegið súrar tær ókunnugs fólks, fætur sem búnir eru að vera lokaðir í skóm heilan dag, löðrandi í sveppum, kartnöglum og viðbjóði. En það er nú bara út af því hvað ég er takmarkaður á allan hátt og með óvenjulágan klígjuþröskuld. Ég gæti enn síður farið úr skónum fyrir framan prest eða hvern sem er til að láta hann þvo fætur mína. En ég gæti nú alveg látið nudda mig upp úr olíu af mjúkum höndum eins og Stefán, enda er það víst allt annað mál.

þriðjudagur, 7. apríl 2009

Búúúinn!

Las þá gleðilegu frétt áðan að loksins er Belginn búinn að skíta dópinu sem hann hafði innvortis við komuna til landsins. Þokkalegar móttökur eða hitt þó heldur. Handtekinn í Leifsstöð, færður á sjúkrahús, strauk þaðan og aftur handtekinn og nú berháttaður og látinn laxera. Svo hafa einhverjir haft þann ánægjulega starfa að fylgjast með hægðum Belgans í nokkra daga sem væntanlega hefur gert sín stykki í kopp svo að sönnunargögnin glötuðust ekki og rótað síðan í þeim með múrskeið eins fornleifafræðingar. Það liggur við að ég vorkenni þessum ræfli, að þurfa að skíta í kopp í nokkra daga í viðurvist lögreglu og hjúkrunarfólks. Hann vonandi hefur lært eitthvað af þessu.

miðvikudagur, 1. apríl 2009

Kátur

Frau Blucher náði þessari mynd af undirrituðum þegar hann var að skoða textavarpið og sá að Derby County hafði náð jafntefli við Screwsbury United. Mínum mönnum gengur afleitlega og eru við botninn á B-deildinni og ef fer sem horfir fara þeir lóðbeint niður í C-deild í vor. En þarna náðist stig og því er ég svona kátur á myndinni. Þetta stig getur reynst dýrmætt og ég fagna þeim öllum innilega.

Ef þið hafið ekki horft á Hrafnaþing á ÍNN, þá auðvitað mæli ég með því að þið gerið það, því svona lítur Yngvi Hrafn út í fiskabúrinu, nema bara aðeins ljótari auðvitað!

sunnudagur, 29. mars 2009

Að loknum landsfundum


Landsfundir stjórnmálaflokka eru í eðli sínu hallelújasamkomur. Mestu máli skiptir að sýna eindrægni og samstöðu um menn og málefni því kastljós fjölmiðla beinist mjög að þessum samkomum. Vinstri grænir héldu sinn fund nú nýlega þar sem mikil eindrægni ríkti og þá ekki síst um foringjann sem var kosinn með 110% atkvæða. Steingrímur J. er ungur og efnilegur stjórnmálamaður frá Þistilfirði sem er bara rétt að byrja sinn formannsferil (1999) og mun ríkja a.m.k. jafn lengi og Castro á Kúbu, en hann sló öll met þjóðarleiðtoga í heiminum og sat á valdastóli frá byltingunni 1959 til 2005 eða 6. Samfylkingin hélt sinn fund nú um helgina og þar kom heilög Jóhanna, bæði sá og sigraði með aðeins 97% atkvæða í valdastól sinn.

Ræður voru fremur slepjulegar hjá Samfó og sjöllum, en ég fylgdist með báðum fundum nokkuð reglulega. Þangað til í gær, en þá kvaddi sér hljóðs Davíð nokkur Oddsson og flutti einhverja þá geggjuðustu ræðu sem ég hef heyrt lengi. Nú ætla ég ekkert að segja um innihald þessarar dæmalausu ræðu, hún ber vitni um mann í algerri afneitun og var í raun bara sorglegt að sjá þennan fyrrum mikla stjórnmálaleiðtoga leggjast svona lágt. En það sem vakti athygli mína var það hversu hjarðmennskan er yfirgengileg í þessum flokki. Menn stóðu upp og klöppuðu margoft fyrir hverri þvælunni sem upp úr DO kom og allir í einu, því enginn þorir að skera sig úr. Menn voru eins og hlýðnar kindur á þessum landsfundi. Líka þegar Geir Haarde svaraði DO í dag og gagnrýndi hann fyrir uppistandið í gær. Svo fékk maður nettan aulahroll þegar Þorgerður Katrín sagði að loknum formannskosningum í dag og lét það verða sín síðustu orð: " Bjarni, við verðum að klára þetta dæmi. Koma svo, áfram Ísland, við verðum að berjast, berjast, berjast!" Sagði hún að íþróttasið og uppskar gífurleg fagnaðarlæti (jarm) kindanna í Laugardalsfjárhúsinu.

Segi bara eins og einhver bloggarinn í dag: "Plíís Þorgerður, ekki klára dæmið, þið eruð búin að gera nóg af ykkur!"

fimmtudagur, 26. mars 2009

Ylrækt

Löggan lokar heilu verksmiðjunum þessa dagana. Sveitir svartstakka æða út um borg og bí og ráðast inn í yfirgefin iðnaðarhúsnæði, íbúðir og gróðurhús þar sem framleiðslan er gerð upptæk og dyr eru innsiglaðar. Ylræktarbændur missa atvinnu sína og lifibrauð. Öll sú óhemju fyrirhöfn við að koma þessum kannabisverksmiðjum af stað er fyrir bí. Þúsundum platna á misjöfnu þroskaskeiði undir háþróuðum ljósabúnaði og vökvunarsystemi verður hent á haugana og verða aldrei að jónum.

Til eru fræ. Sem betur fer verða þau ekki öll að blómum og vonandi að þessir dugmiklu ræktendur með svona líka græna fingur fái eitthvað verðugra að gera í framtíðinni en að hassvæða landann, hann er held ég alveg nógu mikið bilaður fyrir. Hassið er kannski fínt í einhverjum tilvikum til að lina þrautir, td. hjá krabbameinssjúklingum og þá mættu læknar ávísa þessu efni þegar þannig stendur á. Aðrir hafa ekkert með þetta að gera, nema þeir vilji vera flatir og latir, hirðulausir, andfélagslegir og sama um allt eins og pólitík t.d. Ekki furða að sumir frjálshyggjupostular séu fylgjandi því að gefa þetta allt saman frjálst, fyrst markaðurinn er til. Ef eftirspurn er, þá á að fullnægja henni, það er ein kennisetningin þeirra. Það væri auðvitað yfirstéttinni og misréttisöflunum í hag að sem fæstir nenntu að hugsa um stjórnmál og sætu bara í sínu kannabisskýi og segðu "peace". Það þyrfti þá ekki að hafa áhyggjur af því liði á meðan.

mánudagur, 23. mars 2009

Aðeins um pólitíkina

Á landsfundi Vg um helgina var a.m.k. tvennt ályktað sem mér finnst merkilegt og í raun gleðilegt. Önnur var um að útiloka samstarf með Sjálfstæðisflokknum að loknum kosningum í vor, nokkuð sem Samfylkingin ætti líka að gera á sínum landsfundi og hin að útiloka hvorki aðildarviðræður né inngöngu í ESB á næsta kjörtímabili, enda þótt þeir hafi í sömu ályktun sagt að best sé fyrir okkur að standa utan sambandsins. Þjóðin eigi að ráða þessu.

Mér finnst þetta einmitt mjög mikilvægt og Vg er fyrir sitt leyti að greiða fyrir því að núverandi stjórn haldi áfram eftir kosningar. Samfylkingin verður þá líka að koma til móts við Vg, hún getur þá ekki krafist aðildarviðræðna án þess að þjóðin samþykki það fyrst. Svo verður samfó að fara að ákveða sig hvort hún vill vera virkjanaflokkur eða friðunarflokkur. Samfó er beggja blands í þeim málum og það virkar einhvern veginn illa pólitískt séð. Hreinna er að vera annað hvort, þá vita kjósendur betur fyrir hvað flokkurinn stendur í þeim efnum. En, þetta er ekki bara óákveðni og vindhanaháttur, ég held að meirihluti Íslendinga sé einmitt á þessari línu, að virkja fyrir orkufrekan iðnað, en það er bara ekki sama hvar það er gert og hvernig. Flokkarnir verða að ná saman um þessi mál. Báðir þessir flokkar hafa svipaðar áherslur í velferðarmálum.

Að lokum er mjög mikilvægt að vinstri flokarnir nái hreinum meirihluta og Framsókn verði gefið langt nef og sent í stjórnarandstöðu með sjöllum. Sigmundur Davíð ástundar undarlega pólitík og er bara hreint furðulegur maður. Hann er að leika eitthvert guðföðurhlutverk og þykist þess umkominn að setja ofan í við hana þegar hentar, til að minna á sig sennilega, skammar og talar eins og hann viti allt, en er bara uppfullur af helvítis hroka. Enga framsókn eftir kosningar takk!

þriðjudagur, 17. mars 2009

Sjónvarpsveisla

Þetta var fínt sjónvarpskvöld. Ég nennti ekki að fara yfir verkefni, þau voru bara áfram óhreyfð í töskunni minni og verða að bíða betri tíma. Eftir ýmis konar skyldustörf við matartilbúning, frágang og aðstoð við heimanám barnanna og lestur upp í rúmi, var komið að dekurkvöldi hjá mér. Gunna farin á gospel og ég beið ekki boðanna og stillti á Omega sem ég geri oft. Þar var tárvotur prédikari sem hélt svo innblásna ræðu að ég hef sjáldan séð annað eins. Manninum lá við sturlun, tilfinningarnar beljuðu úr honum eins stórfljót. Þeir eru margir ansi áhrifamiklir þarna, með margra ára þjálfun í ræðumennsku og sannfæringarkrafturinn er þvílíkur að ég efast ekki eitt augnablik um að þeir eru að segja satt! Það eru nokkrir þarna í uppáhaldi hjá mér. Einn er alltaf grátbólginn og með ægilegum ekkasogum segir hann frá kærleika Kriss. Hann er alveg ekta, getur bara ekki verið að feika neitt, enginn er svona góður leikari. Annar er svartur og feitur sem æðir um sviðið með djúpum drunum og látum og vitnar um kærleiksverk guðs. Svitinn prelar á enni og æðisglampinn í augum fer ekki framhjá neinum.

Úff. Það tekur jafnvel á að skrifa þetta. Maður lifir sig inn í samkomuna og fer að hrópa hósíanna og hallelúja fyrr en varir. Svo skipti ég yfir á hina uppáhaldsstjóvarpsstöð mína, en það er ÍNN. Þar ræður ríkjum Ingvi Hrafn sem gerður er út frá Valhöll, eða það hlýtur að vera miðað við þá pólitísku slagsíðu sem er á mörgum þáttanna. Ég hló mig máttlausan í kvöld, eins og í gærkvöldi og fyrrakvöld, yfir þætti sem heitir heimastjórnin eða eitthvað álíka. Þarna eru sjallar með saltfisk í hjartastað, menn eins og Óli Björn, Jón Kristinn Snæhólm, Ármann Ólafsson og Hallur Halls að tala við tölvu upp á borði og í henni syndir hausinn á Ingva Hrafni, allur bjagaður og óhugnanlegur. Web cameran greinilega of nálægt nefinu á honum. Hann þykist vera að tala frá Florida, en það er haugalygi, hann er bara í næsta herbergi eða í mesta lagi heima hjá sér og finnst þetta flott. Hljóðið er á eftir myndinni, eða öfugt og svo vellur alls konar þvæla upp úr þessu klónaða fríki sem eins og svífur í formalíni í fiskabúri. Stundum held ég að hann sé á einhverju, svo ótrúlegt er bullið í manninum. En, stórskemmtilegt sjónvarpsefni.

miðvikudagur, 11. mars 2009

Draugar

Gamall uppvakningur barst okkur í gegnum bréfalúguna í gær. Hið fornfræga Akureyrarblað Íslendingur í bláum sjallalit í blaðhaus eins og vera ber. Það þýðir bara eitt, kosningar eru í nánd. Það eru myndir af frambjóðendum flokksins á forsíðu, sem eru hver öðrum glæsilegri og af þessu fólki streymir heiðarleikinn, festan og viljinn til góðra verka.

Ætli þetta góða fólk trúi því í alvöru að slagorðin sem það hefur valið sér hafi eitthvað að segja í því hörmungarástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu? Að háttvirtir kjósendur kaupi þau? Alltaf þegar ég les svona slagorð, hvort sem um er að ræða frambjóðanda áðurnefnds flokks eða samfó, Vg eða annarra flokka, það skiptir ekki máli, fer um mig einhver ónotatilfinning. Mér finnst óheiðarleikinn og stærilætin skína af orðunum. Margt af þessu fólki vill ábyggilega vel, vill láta gott af sér leiða, en mér finnst samt að meirihlutinn sé í framboði til að þjóna einhverjum persónulegum hagsmunum og framapoti.

Fyrirsjáanleg er töluverð endurnýjun á Alþingi í vor og er það vel. En margir núverandi þingmenn ætla að gefa kost á sér áfram, eru bara gleiðir og jafnvel þeir sem hafa stutt þá stefnu einarðlega sem hefur komið þjóðinni á hausinn. Til dæmis hefur einn frambjóðandinn í Íslendingi og núverandi þingmaður valið sér orðin áræði, dugnaður og þor, áfram sem sagt, sem dugði okkur svo helvíti vel á undanförnum árum!

Aðrir draugar munu svo fljótlega líta dagsins ljós og smjúga inn um bréfalúgur okkar. Norðurland og fleiri pésar. Þeir sneplar verða líka uppfullir af áræði og dugnaði og gott ef ekki kjarki, trausti og heiðarleika líka. Gallinn við þetta allt saman, eins og ég sagði áðan, er að margt fólk þarna vill vel, en má sín lítils vegna flokksagans og þessa flokksræðis sem hér ríkir. Ríkisstjórnin er þó að rembast við að koma fram breytingum á stjórnarskránni í tæka tíð fyrir kosningar í því skyni að auka áhrif kjósenda varðandi persónukjör. Um það hefur verið sterk krafa í þjóðfélaginu, en Sjálfstæðisflokkurinn, einn flokka, stendur gegn því og heldur uppi málþófi og sakar stjórnina um leið að engin mál komist í gegn! Þetta er nú meiri þjóðþrifaflokkurinn eða hitt þó heldur.

laugardagur, 7. mars 2009

Á þessum degi...

Hver og einn dagur ársins er merkilegur, því eitthvað hefur gerst þann dag í sögunni. Örlagaatburðir áttu sér stað, stórmenni fæddust og merkar uppgötvanir gerðar. Það er gaman að skoða síðuna This Day in History og dagurinn í dag, 7. mars er auðvitað merkilegur eins og allir aðrir dagar ársins. Alexander Graham Bell hringdi fyrsta símtalið t.d. á þessum degi árið 1876, Hitler tók Rínarhéruðin af Frökkum árið 1936 og Carter USA forseti hitti þá Sadat og Rabin árið 1977, en þær viðræður leiddu til Camp David samkomulagsins árið eftir og nóbelsverðlauna þeirra tveggja síðasttöldu ári síðar. Og ótal aðrir atburðir, t.d. hófst "febrúarbyltingin í Rússlandi árið 1917 á þessum degi (ath. annað tímatal þar!) sem leiddi til aðalbyltingarinnar síðar sama ár sem leiddi til stofnunar Sovétríkjanna sem aftur leiddi til merkilegrar samvinnu kommúnista og kapítalista í síðari heimsstyrjöldinni og síðar til kalda stríðsins og koll af kolli...

fimmtudagur, 5. mars 2009

Lok, lok og læs og allt í stáli

Mikið var það gott hjá dómsmálaráðuneytinu að grípa til lagaheimilda, sem Schengen-samkomulagið veitir okkur, til þess að reka tvo tattúveraða mótorhjólafávita frá Noregi aftur til síns heima. Feitur og sveittur miðaldra leðurjakkarumpulýður með tagl aftan á hálfsköllóttum haus á ekkert erindi hingað. Þeim Hell´s Angels limum var bara snúið við á staðnum og fengu vonandi ekkert að versla í fríhöfninni.
Björg dómsmálaráðherra fær sannarlega prik hjá mér. Hell´s Angels eru glæpasamtök sem kunnugt er og fáránlegt hefði verið að hleypa þessu liði inn í landið athugasemdarlaust. Glæpaklíka þessi er öflug á Norðurlöndum og lætin í Kaupmannahöfn undanfarið tengjast þessum samtökum sem eru að berjast um eiturlyfjamarkaðinn þar. Svo skjóta þeir á innflytjendur líka. Já, veriði bara heima hjá ykkur og skjótið hvern annan, ekki saklausa borgara.