föstudagur, 30. janúar 2009

Skilyrði framsóknar

Framsóknarflokkurinn tefur myndun nýrrar ríkisstjórnar sem mest hann má og setur ný skilyrði fyrir stuðningi við hana á degi hverjum. Flest af þeim eru nú hvort sem er hluti af fyrirhuguðum aðgerðum sem bæði samfó og vg ætla að fara í eins og að reka Davíð og co. Framsókn sér alla meinbugi á því að frysta eigur auðmanna og svo hafa fleiri talað á þeim nótum, stutt sé þá í mannréttindabrot osfrv. Það er ekki eins og það sé eitthvað nýtt í sögunni að frysta eigur manna ef grunur leikur á refsverðri háttsemi, það er ekki verið að tala um að gera eigur upptækar, heldur frysta þær, a.m.k. tímabundið. Guð má vita hversu margir milljarðar runnu úr landi vikurnar fyrir og fyrstu dagana eftir hrunið.

Ég hef annars illan bifur á þessum ætlaða stuðningi Framsóknarflokksins, honum er ekki treystandi núna þrátt fyrir andlitslyftingu, þetta er bara rótgróinn spillingarflokkur sem hefur þrotið erindið í stjórnmálum fyrir löngu síðan og er bara til ennþá vegna valdafíknar. Það er vont fyrir þessa stjórn vinstri flokkanna að eiga sitt stutta líf undir honum.

Nýjasta skilyrði framsóknar er að reist verði 30 metra bronsstytta af Halldóri Ásgrímssyni á Lækjartorgi, svona stalínsk stytta með voldugri undirstöðu. Steingrímur J. var víst nokkuð hrifinn af hugmyndinni sem slíkri en ekki er einhugur í flokki hans um þann sem styttan á að vera af. Samfó mun funda í kvöld og örugglega fram á nótt um málið. Ég hef hlerað að flokkarnir hafi sammælst um málamiðlunartillögu til framsóknar. Hún er sú að styttan mikla verði ekki af Halldóri, heldur Steingrími Hermannssyni sem var mun meira til vinstri en Dóri og auk þess landsfaðir mikill og elskaður af alþýðu manna, svo mjög að honum fyrirgafst hvert klúðrið á fætur öðru. Steingrímur var heiðarlegur og kunni að tala til þjóðarinnar, hann var líka algjörlega laus við hroka og stærilæti. Sagði bara: "Já, ég gerði mistök". Denni kallinn, það gengur bara betur næst, sögðu menn og þótti jafnvel enn vænna um hann en áður. Nú er bara að sjá hvort framsókn samþykkir Denna.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Æ, skiptir þetta nokkru? Hefur nokkuð breyst í raun? Ætlar ekki hátt í helmingur þjóðarinnar að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum eins og vanalega? Hinn nýi Framsóknarflokkur hlýtur svo að flýta sér í stjórn með stóra bróður. Svona virðist pólitíkin vera hér á landi.