sunnudagur, 29. mars 2009

Að loknum landsfundum


Landsfundir stjórnmálaflokka eru í eðli sínu hallelújasamkomur. Mestu máli skiptir að sýna eindrægni og samstöðu um menn og málefni því kastljós fjölmiðla beinist mjög að þessum samkomum. Vinstri grænir héldu sinn fund nú nýlega þar sem mikil eindrægni ríkti og þá ekki síst um foringjann sem var kosinn með 110% atkvæða. Steingrímur J. er ungur og efnilegur stjórnmálamaður frá Þistilfirði sem er bara rétt að byrja sinn formannsferil (1999) og mun ríkja a.m.k. jafn lengi og Castro á Kúbu, en hann sló öll met þjóðarleiðtoga í heiminum og sat á valdastóli frá byltingunni 1959 til 2005 eða 6. Samfylkingin hélt sinn fund nú um helgina og þar kom heilög Jóhanna, bæði sá og sigraði með aðeins 97% atkvæða í valdastól sinn.

Ræður voru fremur slepjulegar hjá Samfó og sjöllum, en ég fylgdist með báðum fundum nokkuð reglulega. Þangað til í gær, en þá kvaddi sér hljóðs Davíð nokkur Oddsson og flutti einhverja þá geggjuðustu ræðu sem ég hef heyrt lengi. Nú ætla ég ekkert að segja um innihald þessarar dæmalausu ræðu, hún ber vitni um mann í algerri afneitun og var í raun bara sorglegt að sjá þennan fyrrum mikla stjórnmálaleiðtoga leggjast svona lágt. En það sem vakti athygli mína var það hversu hjarðmennskan er yfirgengileg í þessum flokki. Menn stóðu upp og klöppuðu margoft fyrir hverri þvælunni sem upp úr DO kom og allir í einu, því enginn þorir að skera sig úr. Menn voru eins og hlýðnar kindur á þessum landsfundi. Líka þegar Geir Haarde svaraði DO í dag og gagnrýndi hann fyrir uppistandið í gær. Svo fékk maður nettan aulahroll þegar Þorgerður Katrín sagði að loknum formannskosningum í dag og lét það verða sín síðustu orð: " Bjarni, við verðum að klára þetta dæmi. Koma svo, áfram Ísland, við verðum að berjast, berjast, berjast!" Sagði hún að íþróttasið og uppskar gífurleg fagnaðarlæti (jarm) kindanna í Laugardalsfjárhúsinu.

Segi bara eins og einhver bloggarinn í dag: "Plíís Þorgerður, ekki klára dæmið, þið eruð búin að gera nóg af ykkur!"

fimmtudagur, 26. mars 2009

Ylrækt

Löggan lokar heilu verksmiðjunum þessa dagana. Sveitir svartstakka æða út um borg og bí og ráðast inn í yfirgefin iðnaðarhúsnæði, íbúðir og gróðurhús þar sem framleiðslan er gerð upptæk og dyr eru innsiglaðar. Ylræktarbændur missa atvinnu sína og lifibrauð. Öll sú óhemju fyrirhöfn við að koma þessum kannabisverksmiðjum af stað er fyrir bí. Þúsundum platna á misjöfnu þroskaskeiði undir háþróuðum ljósabúnaði og vökvunarsystemi verður hent á haugana og verða aldrei að jónum.

Til eru fræ. Sem betur fer verða þau ekki öll að blómum og vonandi að þessir dugmiklu ræktendur með svona líka græna fingur fái eitthvað verðugra að gera í framtíðinni en að hassvæða landann, hann er held ég alveg nógu mikið bilaður fyrir. Hassið er kannski fínt í einhverjum tilvikum til að lina þrautir, td. hjá krabbameinssjúklingum og þá mættu læknar ávísa þessu efni þegar þannig stendur á. Aðrir hafa ekkert með þetta að gera, nema þeir vilji vera flatir og latir, hirðulausir, andfélagslegir og sama um allt eins og pólitík t.d. Ekki furða að sumir frjálshyggjupostular séu fylgjandi því að gefa þetta allt saman frjálst, fyrst markaðurinn er til. Ef eftirspurn er, þá á að fullnægja henni, það er ein kennisetningin þeirra. Það væri auðvitað yfirstéttinni og misréttisöflunum í hag að sem fæstir nenntu að hugsa um stjórnmál og sætu bara í sínu kannabisskýi og segðu "peace". Það þyrfti þá ekki að hafa áhyggjur af því liði á meðan.

mánudagur, 23. mars 2009

Aðeins um pólitíkina

Á landsfundi Vg um helgina var a.m.k. tvennt ályktað sem mér finnst merkilegt og í raun gleðilegt. Önnur var um að útiloka samstarf með Sjálfstæðisflokknum að loknum kosningum í vor, nokkuð sem Samfylkingin ætti líka að gera á sínum landsfundi og hin að útiloka hvorki aðildarviðræður né inngöngu í ESB á næsta kjörtímabili, enda þótt þeir hafi í sömu ályktun sagt að best sé fyrir okkur að standa utan sambandsins. Þjóðin eigi að ráða þessu.

Mér finnst þetta einmitt mjög mikilvægt og Vg er fyrir sitt leyti að greiða fyrir því að núverandi stjórn haldi áfram eftir kosningar. Samfylkingin verður þá líka að koma til móts við Vg, hún getur þá ekki krafist aðildarviðræðna án þess að þjóðin samþykki það fyrst. Svo verður samfó að fara að ákveða sig hvort hún vill vera virkjanaflokkur eða friðunarflokkur. Samfó er beggja blands í þeim málum og það virkar einhvern veginn illa pólitískt séð. Hreinna er að vera annað hvort, þá vita kjósendur betur fyrir hvað flokkurinn stendur í þeim efnum. En, þetta er ekki bara óákveðni og vindhanaháttur, ég held að meirihluti Íslendinga sé einmitt á þessari línu, að virkja fyrir orkufrekan iðnað, en það er bara ekki sama hvar það er gert og hvernig. Flokkarnir verða að ná saman um þessi mál. Báðir þessir flokkar hafa svipaðar áherslur í velferðarmálum.

Að lokum er mjög mikilvægt að vinstri flokarnir nái hreinum meirihluta og Framsókn verði gefið langt nef og sent í stjórnarandstöðu með sjöllum. Sigmundur Davíð ástundar undarlega pólitík og er bara hreint furðulegur maður. Hann er að leika eitthvert guðföðurhlutverk og þykist þess umkominn að setja ofan í við hana þegar hentar, til að minna á sig sennilega, skammar og talar eins og hann viti allt, en er bara uppfullur af helvítis hroka. Enga framsókn eftir kosningar takk!

þriðjudagur, 17. mars 2009

Sjónvarpsveisla

Þetta var fínt sjónvarpskvöld. Ég nennti ekki að fara yfir verkefni, þau voru bara áfram óhreyfð í töskunni minni og verða að bíða betri tíma. Eftir ýmis konar skyldustörf við matartilbúning, frágang og aðstoð við heimanám barnanna og lestur upp í rúmi, var komið að dekurkvöldi hjá mér. Gunna farin á gospel og ég beið ekki boðanna og stillti á Omega sem ég geri oft. Þar var tárvotur prédikari sem hélt svo innblásna ræðu að ég hef sjáldan séð annað eins. Manninum lá við sturlun, tilfinningarnar beljuðu úr honum eins stórfljót. Þeir eru margir ansi áhrifamiklir þarna, með margra ára þjálfun í ræðumennsku og sannfæringarkrafturinn er þvílíkur að ég efast ekki eitt augnablik um að þeir eru að segja satt! Það eru nokkrir þarna í uppáhaldi hjá mér. Einn er alltaf grátbólginn og með ægilegum ekkasogum segir hann frá kærleika Kriss. Hann er alveg ekta, getur bara ekki verið að feika neitt, enginn er svona góður leikari. Annar er svartur og feitur sem æðir um sviðið með djúpum drunum og látum og vitnar um kærleiksverk guðs. Svitinn prelar á enni og æðisglampinn í augum fer ekki framhjá neinum.

Úff. Það tekur jafnvel á að skrifa þetta. Maður lifir sig inn í samkomuna og fer að hrópa hósíanna og hallelúja fyrr en varir. Svo skipti ég yfir á hina uppáhaldsstjóvarpsstöð mína, en það er ÍNN. Þar ræður ríkjum Ingvi Hrafn sem gerður er út frá Valhöll, eða það hlýtur að vera miðað við þá pólitísku slagsíðu sem er á mörgum þáttanna. Ég hló mig máttlausan í kvöld, eins og í gærkvöldi og fyrrakvöld, yfir þætti sem heitir heimastjórnin eða eitthvað álíka. Þarna eru sjallar með saltfisk í hjartastað, menn eins og Óli Björn, Jón Kristinn Snæhólm, Ármann Ólafsson og Hallur Halls að tala við tölvu upp á borði og í henni syndir hausinn á Ingva Hrafni, allur bjagaður og óhugnanlegur. Web cameran greinilega of nálægt nefinu á honum. Hann þykist vera að tala frá Florida, en það er haugalygi, hann er bara í næsta herbergi eða í mesta lagi heima hjá sér og finnst þetta flott. Hljóðið er á eftir myndinni, eða öfugt og svo vellur alls konar þvæla upp úr þessu klónaða fríki sem eins og svífur í formalíni í fiskabúri. Stundum held ég að hann sé á einhverju, svo ótrúlegt er bullið í manninum. En, stórskemmtilegt sjónvarpsefni.

miðvikudagur, 11. mars 2009

Draugar

Gamall uppvakningur barst okkur í gegnum bréfalúguna í gær. Hið fornfræga Akureyrarblað Íslendingur í bláum sjallalit í blaðhaus eins og vera ber. Það þýðir bara eitt, kosningar eru í nánd. Það eru myndir af frambjóðendum flokksins á forsíðu, sem eru hver öðrum glæsilegri og af þessu fólki streymir heiðarleikinn, festan og viljinn til góðra verka.

Ætli þetta góða fólk trúi því í alvöru að slagorðin sem það hefur valið sér hafi eitthvað að segja í því hörmungarástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu? Að háttvirtir kjósendur kaupi þau? Alltaf þegar ég les svona slagorð, hvort sem um er að ræða frambjóðanda áðurnefnds flokks eða samfó, Vg eða annarra flokka, það skiptir ekki máli, fer um mig einhver ónotatilfinning. Mér finnst óheiðarleikinn og stærilætin skína af orðunum. Margt af þessu fólki vill ábyggilega vel, vill láta gott af sér leiða, en mér finnst samt að meirihlutinn sé í framboði til að þjóna einhverjum persónulegum hagsmunum og framapoti.

Fyrirsjáanleg er töluverð endurnýjun á Alþingi í vor og er það vel. En margir núverandi þingmenn ætla að gefa kost á sér áfram, eru bara gleiðir og jafnvel þeir sem hafa stutt þá stefnu einarðlega sem hefur komið þjóðinni á hausinn. Til dæmis hefur einn frambjóðandinn í Íslendingi og núverandi þingmaður valið sér orðin áræði, dugnaður og þor, áfram sem sagt, sem dugði okkur svo helvíti vel á undanförnum árum!

Aðrir draugar munu svo fljótlega líta dagsins ljós og smjúga inn um bréfalúgur okkar. Norðurland og fleiri pésar. Þeir sneplar verða líka uppfullir af áræði og dugnaði og gott ef ekki kjarki, trausti og heiðarleika líka. Gallinn við þetta allt saman, eins og ég sagði áðan, er að margt fólk þarna vill vel, en má sín lítils vegna flokksagans og þessa flokksræðis sem hér ríkir. Ríkisstjórnin er þó að rembast við að koma fram breytingum á stjórnarskránni í tæka tíð fyrir kosningar í því skyni að auka áhrif kjósenda varðandi persónukjör. Um það hefur verið sterk krafa í þjóðfélaginu, en Sjálfstæðisflokkurinn, einn flokka, stendur gegn því og heldur uppi málþófi og sakar stjórnina um leið að engin mál komist í gegn! Þetta er nú meiri þjóðþrifaflokkurinn eða hitt þó heldur.

laugardagur, 7. mars 2009

Á þessum degi...

Hver og einn dagur ársins er merkilegur, því eitthvað hefur gerst þann dag í sögunni. Örlagaatburðir áttu sér stað, stórmenni fæddust og merkar uppgötvanir gerðar. Það er gaman að skoða síðuna This Day in History og dagurinn í dag, 7. mars er auðvitað merkilegur eins og allir aðrir dagar ársins. Alexander Graham Bell hringdi fyrsta símtalið t.d. á þessum degi árið 1876, Hitler tók Rínarhéruðin af Frökkum árið 1936 og Carter USA forseti hitti þá Sadat og Rabin árið 1977, en þær viðræður leiddu til Camp David samkomulagsins árið eftir og nóbelsverðlauna þeirra tveggja síðasttöldu ári síðar. Og ótal aðrir atburðir, t.d. hófst "febrúarbyltingin í Rússlandi árið 1917 á þessum degi (ath. annað tímatal þar!) sem leiddi til aðalbyltingarinnar síðar sama ár sem leiddi til stofnunar Sovétríkjanna sem aftur leiddi til merkilegrar samvinnu kommúnista og kapítalista í síðari heimsstyrjöldinni og síðar til kalda stríðsins og koll af kolli...

fimmtudagur, 5. mars 2009

Lok, lok og læs og allt í stáli

Mikið var það gott hjá dómsmálaráðuneytinu að grípa til lagaheimilda, sem Schengen-samkomulagið veitir okkur, til þess að reka tvo tattúveraða mótorhjólafávita frá Noregi aftur til síns heima. Feitur og sveittur miðaldra leðurjakkarumpulýður með tagl aftan á hálfsköllóttum haus á ekkert erindi hingað. Þeim Hell´s Angels limum var bara snúið við á staðnum og fengu vonandi ekkert að versla í fríhöfninni.
Björg dómsmálaráðherra fær sannarlega prik hjá mér. Hell´s Angels eru glæpasamtök sem kunnugt er og fáránlegt hefði verið að hleypa þessu liði inn í landið athugasemdarlaust. Glæpaklíka þessi er öflug á Norðurlöndum og lætin í Kaupmannahöfn undanfarið tengjast þessum samtökum sem eru að berjast um eiturlyfjamarkaðinn þar. Svo skjóta þeir á innflytjendur líka. Já, veriði bara heima hjá ykkur og skjótið hvern annan, ekki saklausa borgara.

þriðjudagur, 3. mars 2009

Kominn aftur

Pistlar hafa látið á sér standa undanfarið, enda datt nettengingin út vegna einhverra óútskýranlegra ástæðna. Í það minnsta gat ég ekki lagað það og á endanum greip ég til þess ráðs sem hingað til hefur dugað mér vel þegar þannig stendur á, sem sé að kalla í Val og málið leysti hann á skammri stund eða sem nam þeim tíma sem tekur að drekka einn kaffibolla.

Svo nú get ég haldið áfram að ausa úr mér, ef ég nenni þar að segja. Skólinn tekur sífellt meiri tíma, verkefnin hlaðast upp og áður en maður veit af er komið að prófum. Svo það er spurning hversu mikið ég get mokað flórinn í Hesthúsinu nú á næstunni. Af nógu er að taka svo sem. Til dæmis mætti hella sér yfir Sigmund Davíð og vitleysisganginn í honum nú undanfarið, en ég nenni því ekki núna. Kannski á morgun, já kannski ég skrifi um það þrítuga gamalmenni sem Jón Baldvin kallaði svo!