London árið 1865. Ein fjölmennasta borg veraldar með strætum og torgum, höllum og lystigörðum og glæsta sögu. Bretland sat í hásæti heimsins og London var höfuðborg hans. Þarna var breska parlimentið, fyrirmynd annarra sem á eftir fylgdu. Þarna bjuggu margir af helstu andans mönnum upplýsingarinnar sem höfðu mannúð og mildi að leiðarljósi. Breska siðmenningin var kórónan í heimsmenninguni. Bretar störtuðu iðnbyltingunni og þar með kapítalismanum. Þeir réðu heimsversluninni og á þessum tíma laut 1/4 hluti heimsins beinni eða óbeinni stjórn þeirra. Sagt var að sólin hnigi aldrei til viðar í breska heimsveldinu. Yfir öllu þessu sat svo Viktoría drottning sem ríkti í 70 ár og öldin var líka við hana kennd. Bretar lögðu undir sig lönd og álfur og arðrændu nýlendur sínar um leið og þeir reyndu að kristna þær. Hráefni var flutt í stórum stíl til Bretlands þar sem að það var fullunnið í alls kyns varning sem var svo seldur út um allan heim. Bretland var kallað verkstæði heimsins. Í London safnaðist meiri auður en dæmi voru áður um í veraldarsögunni. En, nokkuð var auðnum misskipt reyndar.
Viktoríutímabilið. Tímabil hins tvöfalda siðgæðis. Æskilegt var að karlmenn hefðu einhverja reynslu af kynlífi áður en þeir kvæntust. Konur máttu ekki sjást einar á götu nema þær væru ekkjur og það mátti aldrei sjást í bert hold nema svona rétt í andlitið. Þær voru reyrðar í lífstykki og með hneppt upp í háls og það mátti ekki einu sinni sjást í úlnliðina. Þær urðu líka að vera hreinar meyjar þegar þær giftust. Aðeins ein lausn var á þessari mótsögn. Vændi. Það var óhemju útbreitt á þessum tíma og eina von margra kvenna og ungra stúlkna til að lifa af. Fátækrahverfin voru yfirfull af fólki, saur og þvag rann eftir þröngum götunum, þefurinn sjálfsagt óbærilegur. Glæpir og þjófnaðir áberandi, sjúkdómar grasseruðu og meðalaldur var lágur í þessum hluta borgarinnar. Vannærð börn ráfuðu um í leit að mat. Menn deyfðu sig með því að þamba ódýran bjór, börn sem fullorðnir.
Það var í þessum hluta borgarinnar ríku sem hjónin Catherine og William Booth fóru að vinna hjálparstarf sitt sem að lokum leiddi til The Salvation Army eða Hjálpræðishersins. Þau vildu breiða út fagnaðrerindið en voru nógu víðsýn til að átta sig á því að ekki þýddi að boða orð Drottins fólki á fastandi maga. Svangur maður þarf ekki helst á guðsorði að halda, hann þarf að fá að borða. Maður sem hefur gert þarfir sínar í buxurnar vegna vesældar sinnar þarf ekki fyrst á guðsorði að halda. Hann þarf fyrst að fara í bað svo hann öðlist sjálfsvirðingu sína aftur. Þegar grunnþörfunum hefur verið fullnægt má ræða um guðsorðið. súpa, sápa og hjálpræði - í þessari röð. Allar götur síðan hefur þessi þarfa hreyfing starfað í þessum anda.
Herinn lætur sér annt um þá sem allra helst höllustum fæti standa í samfélaginu, hér sem annars staðar þar sem hann starfar. Samt hefur þessi hreyfing orðið fyrir aðkasti og háði af mörgum í gegnum tíðina, þar á meðal mér. Nægir að nefna Halldór Laxness og Stein Steinarr svo maður nefni einhverja fræga í því sambandi. Mærðarlegur söngurinn og gítargutlið, kannski ofstæki í sumum hermönnum á fyrri tíð. Búningarnir fóru einhvern tímann í taugarnar á mér og þessi hermennskuandi sem mér fannst fráhrindandi. Heiti hreyfingarinnar, búningarnir og sú staðreynd að safnaðarmeðlimir kalli sig hermenn og leiðtogar kafteina á ekkert skylt við hernað í venjulegri merkingu þess orðs. Hernaður hefur yfirleitt eða alltaf það markmið að ríki vill auka völd sín og áhrif og það kostar dráp á mönnum. Hroki, græðgi, valdasýki og hatur eru því undirliggjandi í þeim stríðum. Trú er sjaldan ástæða fyrir stríðum en hún er notuð sem bensín og skálkaskjól fyrir önnur og veraldlegri markmið og hentar oft vel til slíks.
Meðlimir Hjálpræðishersins vilja berjast við hið illa í heiminum og kjósa að líta á sig sem hermenn í þeirri baráttu. Hið illa er ekki einhver skratti með klaufir og horn og þrífork í hendi með brennisteinsfnykinn í kringum sig, heldur er það misskiptingin í heiminum, fátæktin og sjúkdómarnir og græðgin og yfirleitt allt það sem stuðlar að félagslegu óréttlæti. Þess vegna ber ég mikla virðingu fyrir hernum og starfi hans.
laugardagur, 6. desember 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
amen,,
vá ég er sammála Dortmund minn, þetta var góður pistill. kv. kvaran
Skrifa ummæli