mánudagur, 14. júlí 2008

Nikulásarmótið


Fór með Nikka á Nikulásarmótið í Ólafsfirði um helgina. Honum og Þórsurum gekk vel og þeir unnu reyndar í sínum flokki og fengu bikar og medalíu og minn maður nokkuð stoltur Þórsari fyrir vikið. Helgin var annars þrekraun hin mesta. Í einhverjum bjánaskap hafði ég boðist til að vera liðsstjóri yfir einu liða Þórs og að fenginni þeirri reynslu fullyrði ég að það var í eina og hinsta sinn sem ég nýt þeirrar upphefðar innan knattspyrnuheimsins. Þjálfararnir voru bara eins og fínir menn á hliðarlínunni og öskruðu eitthvað inn á völlinn og sáu um skiptingar, upphitun og lögðu upp strategíuna og svo fóru þeir bara að slappa af eftir leikina, en við liðsstjórar þurftum þá að taka við gaurunum og hafa ofan af fyrir þeim fram að næsta leik.

Það voru 10 strákar í hverju liði og við áttum að halda hópnum saman og búið var að biðja foreldra að vera ekkert að taka sína gutta úr liðinu. En Drottinn minn, það voru 700 börn á svæðinu á aldrinum sjö til tíu ára og aðstandendur og aðrir sennilega á bilinu þrjú til fjögur þúsund, enda týndust tveir til fjórir strákar úr liðinu mínu nokkuð reglulega alla helgina. Ég var með vatnsbrúsann tilbúinn á hliðarlínunni og svo vafði ég skiptimennina í teppi svo þeim kólnaði ekki á meðan, batt skóþvengi og fleira. Það leið oft langur tími á milli leikja og í eitt skiptið fórum við sund. Laugin var kjaftfull af öskrandi börnum og ég taldi tíu Þórsara ofan í laug en ekki nema níu upp úr! Á barmi taugaáfalls æddi ég inn aftur en sá ekki þann sem vantaði. Á meðan týndust tveir sem komnir voru upp úr, þeir æddu bara eitthvert út í mannmergðina. Allir fundust þó að lokum. En svona var þetta gjarnan, ég að telja og smala saman, reka á eftir og skamma; “má ekki segja að XXX sé ömó”.

Þórsararnir lögðu undir sig aðra hæð gamla barnaskólans og lyktin var eins og í illa hirtu hesthúsi, enda hafði rignt og menn og strákar því hundblautir og það var nú ekkert til að dempa svita-og táfýluna þarna. Ekki svaf ég mikið. Við vöknuðum kl. 06.30 og mér leið eins og ég hefði verið á einhverju stórskralli kvöldið áður, allur stirður og lurkum laminn, rámur og með hausverk, hnén voru að gefa sig og bakið orðið sárt eftir allar stöðurnar daginn áður. Við áttum fyrsta leik kl. 08.15 svo ekki annar leikur fyrr en eftir hádegi. Þannig að maður náði að telja nokkrum sinnum þennan morgun! En allt fór þetta vel og mikið var ég feginn þegar svo þessu lauk öllu um 17 á sunnudaginn. Sá lærdómur sem draga má af þessu er eftirfarandi: Þetta er nauðsynlegt og þakkarvert að foreldrar láti hafa sig út í þetta, en jafnframt alveg morgunljóst að þetta er ekki fyrir pabba sem komnir eru yfir 45! Að lokum má geta þess að við Þórsarar í 7. flokki C-1 unnum C-liða keppnina, spiluðum sex leiki, gerðum eitt jafntefli (við Þór C-2!) og unnum fimm leiki. Ekki er að efa að öflug liðsstjórn hafði sitt að segja í þessari velgengni.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Mágsi minn
þú ert hetja í mínum augum, bara tilhugsunin að ég þurfi einhvern daginn að standa í þessu fyllir mig þunglyndi og ef valið stendur milli fótaboltamóts og hara kiri þá veistu hvað ég vel;) en frábært að sért komin með blogg aftur ég mun commenta hér vilt og galið lofa því
jæja bless íbili
stína chick

Nafnlaus sagði...

Gott, gott. Ég veit að þú myndir velja hara kiri, en ég mæli samt með fótboltamótinu, þau verða fín í minningunni. Bara ekki bjóðast til að vera liðsstjóri, það er þrældómur!

Nafnlaus sagði...

Húrra, þú ert mættur til rafheima.
Þinn Helgus.