miðvikudagur, 2. júlí 2008
Á Gaddstaðaflötum
Það erkihneyksli að leggja fleiri klukkutíma af dýrmætum dagskrártíma sjónvarpsins undir þetta landsmót hestakalla er sárara en að tárum taki. Kynbótasýningar á hryssum þar sem þeim er lýst á erótískan hátt, ef ekki beinlínis klámfenginn, ætti að banna innan við 18 og merkja þá þætti sérstaklega með rauðum lit á sjónvarpslógóinu. Þar er talað um gangmál (samfarir), að fylja merar, þokkafullar ungmerar, hnarrreistar með svo glæsilegan limaburð að Sammi másar af einskærri frygð. Þvílíkt högg að fá þetta í andlitið eftir fótboltaveisluna undanfarnar vikur, þvílík innrás í einkalíf mitt! Hestur heima í stofu á hverju kvöldi og fullir hestaperrakallar í stretsbuxum í ofanálag. Fyrir þetta þarf ég að greiða!
Sem betur fer fauk allt draslið til andskotans í fyrrinótt og sást til hestakalla á harðahlaupum eftir tjöldum sínum og búsi langt út í móa og vonandi hefur ekkert spurst til þess síðan. En afkomendur Orra frá Þúfu og Fáks frá Akureyri vonandi una glaðir við sína tuggu og ég óska þeim gæfu og gengis og megi þeir komast sem allra fyrst í sína heimahaga.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Eins og talað úr mínum munni! Ég borga afnotagjaldaseðilinn með harðlífissvip næst.
Og svo styttist í að við fáum að sjá og heyra lýsingu á 20 km göngu á Ólympíuleikunum...
En vertu annars velkominn aftur í bloggheima - þín hefur verið sárt saknað :)
Já, endurkoma þín er fagnaðarefni og nú spretta loks fram á ný harðsoðnar fréttir af þjóðþrifamálum. Vona að þú látir alla fá það óþvegið sem eiga það skilið. - Herinn er farinn og næsta baráttumál ætti að vera: Hrossin burt!
Skrifa ummæli