mánudagur, 20. október 2008

lyktarskyn

Helena kvartar yfir því að það sé vond lykt af mömmu sinni þegar hún kemur heim úr vinnunni. Það er svona "gömlufólkalykt" af henni segir litla kellingin með sitt næma nef. Það er ekki góð lykt og svo fylgir nánari lýsing á þessum þef. En það var aldrei svona gömlufólkalykt af afa Níelsi segir hún og finnst það skrítið. Helena er með háþróað þefskyn eins og sumir aðrir í föðurætt hennar. Þó ekki ég, en amma Hólla nam lykt fyrr og betur en flestir og ég man eftir einu tilviki í sambandi við það. Þegar Sambandsverksmiðjurnar brunnu árið 1969 sátu mamma og pabbi ásamt einhverju fólki að spilum í stofunni. Skyndilega fer Hólmfríður að hnusa út í loftið og segir að eitthvað sé að brenna. Þetta var ábyggilega áður en slökkviliðinu barst tilkynning um þennan mesta bruna Akureyrar fyrr og síðar. Ég man eftir því að pabbi fór út og ég elti, hann gekk í kringum húsið til að athuga hvort allt væri í lagi. Enginn eldur í Byggðavegi, en þeim mun meiri í verksmiðjunum eins og kom í ljós einhverju síðar.

Helena var bara fimm eða sex ára þegar hún flokkaði óskilaföt af vinkonum sínum sem höfðu hlaðist upp í forstofunni. Þarna voru vettlingar, húfur, snjóbuxur og fleira sem Helena bar að sínu ofurnefi og sortéraði. Hún fann þá lykt sem var á heimili viðkomandi krakka af öllum þessu fötum og skjöplaðist ekki.

Annað ágætt dæmi. Fyrir þremur árum vorum við í Danmörku og einn daginn fórum við öll í bæinn og Lára með. Við skiptum liði, Gunna og Lára fóru að versla og ég fór með börnin á vaxmyndasafn og fleira skemmtilegt. Svo ætluðum við að hittast á Strikinu. Ekki höfðum við lengi gengið þegar Helena snarstoppar og hnusar út í loftið og segir: "Bíddu, Lára er hérna, ég finn Lárulykt!" Ætli hafi ekki verið svona þrjú til fimm þúsund manns á röltinu á Strikinu þennan dag? En viti menn, örstuttu síðar gengum við fram á Láru og Gunnu og Helena sagði að þetta hefði verið akkúrat ilmvatnið sem hún notaði þessi lykt sem hún fann allt í einu og fór ekki ofan af því að þetta hefði verið lyktin af Láru.

Svo þykist hún ekki finna neina lykt þegar fnykurinn af naggrísnum hennar ætlar alla að drepa á heimilinu.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert bara afbrýðisamur =D

Helena R.

Nafnlaus sagði...

haha þið eruð frábær ;) kv. kvaran