föstudagur, 1. ágúst 2008

Skattakóngur á leið í frí

Það fór eins og bjóst við, líkt og í fyrra, að Hreiðar Már Kaupþingsbankastjóri verður að gjalda keisaranum töluvert meira en ég þetta árið. Samt slæ ég met á hverju ári. Tekjurnar vaxa og vaxa og við heiðurshjón höfum aldrei borgað jafnmikið í skatt og þetta árið, en því miður, þrátt fyrir vaxandi tekjur, hafa skuldir okkar aldrei verið meiri. Viðbúið að lánshæfismat okkar versni og ég tala nú ekki um skuldatryggingarálagið, það hækkar og hækkar og þeir hjá Moodey´s hljóta að hafa þungar áhyggjur af efnahagslífinu hér í Snægili 14. Hvað er til ráða? Strætó og reiðhjól til dæmis, rækta rófur, selja ritsafn Laxness og allar LP plöturnar, skynsamlegri innkaup og HÆTTA að versla í 10 - 11 og Strax. Bara það síðastnefnda myndi hafa mikil áhrif á efnahagsreikning heimilisins. Ég ætla að benda þeim hjá Moodey´s og Standard and Poor´s á þessi ráð. Ég er þó að gera eitthvað, með einhverjar áætlanir og fyrirætlanir, annað en þessi ríkisstjórn okkar sem gerir ekki rassgat í bala og er bara í fríi á sama tíma og allt er á leiðinni til andskotans. Verðbólgan æðir áfram og atvinnuleysi eykst hröðum skrefum, enda gjaldþrot og uppsagnir í gangi og það á eftir að versna þegar líður á árið.

Hreiðar Már áðurnefndur á samt samúð mína. Þrátt fyrir að hafa sigrað mig í skattakeppninni borgar hann helmingi minni skatt nú heldur en í fyrra. Þýðir það ekki að tekjur hans hafa lækkað um helming? Þetta er hræðilegt, að missa helming tekna sinna frá síðasta ári og margur mundi ekki þola það. Kæmi það fyrir mig yrði ég ekki bara settur á bæinn, heldur sóttur hingað í Snægilið af sýslumanni og fógeta og fluttur í böndum á Kvíabryggju og látinn þræla þar fyrir skuldum. En eitthvað er bogið við þetta allt saman. Hreiðar var hryggðin uppmáluð í sjónvarpinu í kvöld út af efnahagsástandinu, samt skilaði bankinn um 30 milljarða hagnaði fyrstu mánuði ársins!! Hverjar eru áhyggjurnar? Að gróðinn fari úr trilljón niður í skrilljón? Hvað ætli þjónustufulltrúar Hreiðars Más og Sigurjóns Árnasonar í Landsbankanum heiti? Minn heitir Helga og situr í Landsanum á Húsavík og við eigum viðræður, vinsamlegar að sjálfsögðu, um fjármál einu sinni í mánuði og svo hefur verið um ansi langt skeið. Hvenær skyldi maður komast út úr þeim pakka? Kannski væri liður í því að bankarnir (Heyrið það Hreiðar og Grjóni!) lækki vexti og afnemi þjónustugjöld ýmis konar, t.d siðlaus stimpilgjöld og FIT kostnað sem sumir lögfræðingar segja að sé alveg kolólögleg aðgerð bankanna sem þar með taka sér vald til sekta, en það vald hafa aðeins dómstólar eins og kunnugt er. Svo væri gott ef verðtryggingin yrði afnumin. Ofan á hinminháa vexti eru lán verðtryggð og algjörlega borin von að maður geti nokkurn tímann eignast bót fyrir boruna á sér. Afborganir af húsnæðislánum hækka og hækka og höfuðstóllinn með.

Jæja, ég nenni þessari biturð ekki öllu lengur, ég er alltént skattakóngur yfir sjálfum mér sem er á leið í sumarfrí á Laugarvatn og meiningin er að slaka vel á og rúnta eilítið um Suðurlandið, enda bensínið svo ódýrt hérna. Máske verður bloggað í fríinu ef ég kemst í netsamband einhves staðar. Annars, góðar stundir.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hlakka til að sjá ykkur um helgina elsku dúllurnar mínar. Kv. Helga Sóley.

Nafnlaus sagði...

hæ og hó
ég hlakka líka til að sjá ykkur um helgina
kv. Kvaran